Fríða Björk Ingvarsdóttir endurráðin rektor Listaháskólans

Stjórn Listaháskóla Íslands hefur endurráðið Fríðu Björk Ingvarsdóttur sem rektor Listaháskólans til næstu fimm ára, en samkvæmt stofnskrá skólans má endurráða rektor einu sinni án auglýsingar. Rektor heyrir undir stjórn LHÍ og starfar í umboði hennar til fimm ára í senn. Að sögn formanns stjórnarinnar, Magnúsar Ragnarssonar, fagnar stjórn "þeirri ákvörðun Fríðu Bjarkar að gefa áfram kost á sér til starfa rektors Listaháskólans. Næstu ár eru skólanum einstaklega mikilvæg þar sem unnið er hörðum höndum að framtíðarskipulagi húsnæðismála og því mikilvægt að samfella verði í starfinu". 
 
Fríða Björk hefur verið rektor Listaháskólans frá árinu 2013. Frá þeim tíma hefur mikil vinna verið lögð í endurskipulagningu stjórnsýslu skólans, umhverfi og uppbyggingu akademískra starfa, styrkingu rannsókna á fræðasviði lista, auk uppbyggingar meistaranámsbrauta í öllum deildum, enda nauðsynlegt að mæta hraðfara þróun síðustu ára á fræðasviði lista. Húsnæðismál skólans hafa einnig verið í brennidepli, en töluvert hefur áunnist í þeim efnum með viðunandi bráðabirgðalausnum fyrir tónlistardeild í Skipholti og sviðslistadeild í Austurstræti og Laugarnesi. 

"Síðastliðin fimm ár hafa verið einstaklega ánægjuleg, enda varla til áhugaverðari vinnustaður á sviði lista hér á landi en Listaháskólinn. Skólinn er mikil deigla þar sem ungt fólk úr öllum listgreinum mætir reynslumiklum listamönnum í háskólastarfi er stenst framsækinni hugmyndafræði samanburðarskóla okkar erlendis fyllilega snúning. Þar fyrir utan hefur verið gefandi fyrir mig sem stjórnanda að finna samstöðu nemenda og starfsfólks í því umfangsmikla breytingarferli sem síðustu ár hafa markast af, enda hefur mikil áhersla verið lögð á víðtækt samráð og lýðræðisleg vinnubrögð. Framundan er kynning á nýrri stefnu Listaháskólans sem vonandi mun fleyta listnámi á háskólastigi hér á landi inn í þann anda og umhverfi sem starfsemin þarfnast til að geta blómstrað af fullum styrk undir einu þaki í fullhönnuðu og faglegu framtíðarhúsnæði. Það eru því miklar áskoranir framundan, ekki einungis fyrir Listaháskólann heldur einnig það samfélag sem hann þjónar sem þjóðarskóli okkar í listum", segir Fríða Björk.