Viltu leggja þitt af mörkum til að bjarga heiminum?
 
Ertu með hugmynd að því hvernig á að minnka matarsóun eða sporna gegn loftslagsbreytingum?
Viltu þróa leiðir til að auka tækifæri jaðarsettra hópa til fullrar samfélagsþátttöku eða koma á heimsfriði?
Nú er tækifærið til að hrinda þess háttar hugmyndum í framkvæmd!
 
Hvort sem þú ert háskólakennari, fyrirtækjastjórnandi eða frumkvöðull hjá frjálsum félagasamtökum er komin leið til að þróa hugmyndir áfram og koma þeim í verk.
Í haust – 10/10 2018 – verður hleypt af stokkunum nýjum viðskiptahraðli fyrir frumkvöðla sem vilja virkja hugsjónir sínar til að leysa úr samfélagslegum áskorunum.
Það er einfalt að sækja um á snjallraedi.is Hugmyndin þarf ekki að vera fullmótuð - hún þarf bara að hafa jákvæð áhrif á samfélagið!
 
Umsóknarfrestur er 10. september.
 
Á hverju ári verða valin sjö framúrskarandi verkefni á sviði samfélagslegrar nýsköpunar.
 
Á sjö vikum fá aðstandendur verkefnanna 700 þúsund króna stuðning við að þróa hugmyndina áfram og koma henni í framkvæmd, ásamt þjálfun frá fremstu sérfræðingum Íslands. Hraðallinn byggir á fyrirmyndum af starfi Startup Reykjavík, Startup Energy og Startup Tourism en leitar einnig samstarfs og fyrirmynda í bestu samfélagshröðlum erlendis.
 
Við hraðalinn hefur verið komið upp neti „mentora“ sem leiðbeina frumkvöðlunum, miðla af reynslu sinni og styðja einstök verkefni áfram. Erlendir frumkvöðlar og sérfræðingar á sviði samfélagslegrar nýsköpunar veita þátttakendum innblástur í upphafi hraðals.
 
Frekari upplýsingar er að finna á síðu Snjallræðis, www.snjallraedi.is, en einnig er hægt að hafa samband við verkefnastjóra Höfða friðarseturs, Auði Örlygsdóttur, audurorl [at] hi.is / 866-5269 eða forstöðumann setursins, Piu Hansson, pia [at] hi.is / 693-9064.