Listsköpun og samvinna:

Leiðir að virkni og velferð

 
Verkefnið Listsköpun og samvinna: Leiðir að virkni og velferð (e. Social inclusion and Well-being through the Arts and Interdisciplinary Practices (SWAIP) hlaut í sumar 204.855 evrur í styrk frá Erasmus+ áætluninni til þess að þróa námsefni og námskrá að nýrri námslínu á meistarstigi við listkennsludeild Listaháskóla Íslands í samstarfi við háskóla í Evrópu.
 
Námið er sniðið að listamönnum og heilbrigðisstarfsfólki með bakgrunn í listum, sem hefur áhuga á að styrkja félagslega þátttöku, virkni og vellíðan einstaklinga í sínum störfum.
 
Markmiðið er að þróa nýjar leiðir í þverfaglegri samvinnu listamanna, heilbrigðis- og skólafólks í störfum þeirra við þær síbreytilegu aðstæður og fjölbreytta flóru einstaklinga sem það vinnur með. Unnið verður að því að kanna möguleika ólíkra listgreina til að tengja saman einstaklinga, stuðla að virkni og vellíðan, og efla sjálfstraust þeirra sem eru í hættu á að verða jaðarsettir.
 
Listaháskóli Íslands stýrir verkefninu, sem verður unnið í samstarfi við Háskólann í Porto, Háskólann í Alicante, Háskólann í Herfordshire, Myndlistarakademíuna í München, Metropolia háskólann í Helsinki og AEC samtök tónlistarháskóla í Evrópu.
 
Á þeim tveimur árum sem þróunarhluti verkefnisins stendur eru skipulagðir fundir og námskeið þar sem þátttakendur frá ólíkum listgreinum og skólum, meðferðaraðilar, nemendur og kennarar mynda námssamfélag í samvinnu og samtali við sérfræðinga af heilbrigðissviðinu.
 
Stærstu viðburðirnir eru tvær vinnuvikur þar sem þátttakendur úr öllum þeim hópum sem nefndir eru að ofan munu vinna verkefni. Fyrra verkefnið verður unnið á Spáni með fólki með alzheimer í samstarfi við Háskólann í Alicante og heilabilunardeild háskólasjúkrahússins Virgen de la Arrixaca í Murica. Seinna verkefnið verður unnið með ungu fólki á Íslandi sem er í áhættuhópi brottfalls úr framhaldsskóla og er það í samstarfi Borgarholtsskóla.
 
Námskeiðin verða vettvangur tilrauna þar sem kannaðar verða nýjar leiðir í námi og miðlun á þverfaglegum grunni.
 
pix.is-rannius_2018-_18.jpg
 
Ágúst Hjörtur Ingþórsson, forstöðumaður Landskrifstofu Erasmus+ og Kristín Valsdóttir, deildarforseti listkennsludeildar LHÍ, í forsvari fyrir verkefnið. Mynd: Arnaldur Halldórsson.