Dagana 26. og 27. október næstkomandi fer fram samkeppnin Ungir einleikarar en þetta er í sextánda sinn sem keppnin er haldin. Listaháskóli Íslands og Sinfóníuhljómsveit Íslands hafa frá upphafi staðið að baki keppninni sem fyrst fór fram 2003 en fyrir tilstilli hennar hafa tugir ungra einleikara og einsöngvara fengið tækifæri til að koma fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Dómnefnd, skipuð fulltrúum frá Sinfóníuhljómsveit Íslands og Listaháskólanum, getur valið allt að fjóra þátttakendur sem munu koma fram á tónleikum með Sinfóníuhljómsveitinni 17. janúar 2019, í Eldborg, Hörpu. Hljómsveitarstjóri á tónleikunum verður hin brasilíska Ligia Amadio, aðalstjórnandi Fílharmóníuhljómsveitarinnar í Montevideo í Úrúgvæ en hún hefur áður stjórnað tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands við frábærar undirtektir.

Samkeppnin er opin þeim sem stunda nám í hljóðfæraleik eða söng á bakkalárstigi eða fyrsta háskólastigi, eru íslenskir ríkisborgarar eða erlendir ríkisborgarar sem hafa verið búsettir á Íslandi í að minnsta kosti eitt ár og eru þrjátíu ára eða yngri árið sem keppnin er haldin (fædd 1988 eða síðar).

Umsóknarfrestur til þátttöku er til og með 7. október 2018. Keppnin verður haldin í Kaldalóni, Hörpu, föstudaginn 26. október og laugardaginn 27. október. 

Umsóknareyðublað og reglur um samkeppnina finna á síðu keppninnar.

Nánari upplýsingar veitir verkefnastjóri tónlistardeildar LHÍ, Elísabet Indra Ragnarsdóttir: indra [at] lhi.is.