Í gegnum Opna listaháskólann getur fólk sótt námskeið í öllum deildum Listaháskóla Íslands.
 
Í fjölbreyttri námskeiðsflórunni er meðal annars hægt að sækja sér færni í að leika á ukulele, kynna sér tónlistarmanninn John Cage, styrkja raddbeitingu, tileinka sér grunnhandbrögð við tálgun úr ferskum við, læra að skrifa leikrit fræðast um módernisma í myndlist eða alþjóðlega vöruhönnun, svo fátt eitt sé nefnt.
 
 
„Markmið Opna LHÍ er meðal annars að glæða áhuga almennings á listum og veita sem breiðustum hópi fólks aðgang að þeirri sérþekkingu og aðstöðu sem Listaháskóli Íslands býr yfir,“ segir Ólöf Hugrún Valdimarsdóttir, verkefnastjóri Opna listaháskólans.

 

ohv.jpg
 
 
KJARABÓT FYRIR KENNARA
 
Hægt er að taka opin námskeið með eða án háskólaeininga.
 
„Nokkuð algengt er að nemendur taki námskeið í Opna listaháskólanum með það fyrir augum að safna einingum í meistaranámi. Í ljósi nýrra kjarasamninga er það einnig til hagsbóta fyrir starfandi kennara að bæta við sig einingabærum námskeiðum. Að sama skapi stóraukast möguleikar starfandi listafólks og hönnuða til símenntunar, starfsþróunar og tengslamyndunar með tilkomu Opna listaháskólans,“ segir Ólöf Hugrún. 
 
Á haustönn er boðið upp á fjölmörg námskeið í deildum skólans og hér á eftir koma dæmi um nokkur námskeið. Allar nánari upplýsingar og fleiri námskeið má nálgast á heimasíðu Opna listaháskólans og einnig er hægt að fylgjast með Opna listaháskólanum á Facebook. 
 

LISTKENNSLUDEILD

 
Námskeiðið er sérstaklega hugsað fyrir listafólk sem ætlar að sækja um listamannalaun en nýtist einnig fyrir aðra sjóði. Hægt að mæta með hugmynd í farteskinu og fá praktíska þjálfun í því til dæmis að lesa styrkveitinga umhverfið, læra umsóknamálfarið, setja saman fjárhagsáætlun og svo framvegis. Tímaramminn á þessu námskeiði er þannig að því er að ljúka í þann mund sem fólk getur farið að sækja um listamannalaun og eru allnokkur dæmi um nemendur sem lokið hafa þessu námskeiði og fengið listamannalaun í kjölfarið.
 
Kynntar verða viðurkenndar aðferðir við uppbyggingu styrkumsókna fyrir fjölbreytta styrksjóði. Skoðaðar verða umsóknir fyrir helstu sjóði sem í boði eru á Íslandi og hvaða áherslur eru mikilvægar hjá hverjum sjóði.
 
Fulltrúar frá Rannís munu koma á námskeiðið og fjalla um þeirra aðferðafræði við að meta umsóknir í þeirra sjóði. Kynnt verða helstu atriði í verkefna- og tímastjórnun sem koma þarf fram í styrkumsóknum.
 
Kennari er Karólína Stefánsdóttir. Karólína er með B.A. próf í sagnfræði og meistaragráðu í menningarstjórnun. Hún er sjálfstætt starfandi verkefnastjóri og framleiðandi í kvikmynda- og sjónvarpsiðnaðinum og hefur tekið þátt í framleiðslu fjölmargra sjónvarpsþátta, kvikmynda og heimildarmynda.
 

TÓNLISTARDEILD

 
Í þessu námskeiði verður leitast við að varpa ljósi á fjölbreytilegan feril tónlistarmannsins Michael Jackson og þau áhrif sem hann hefur haft á tónlistarbransann og dægurmenningu. Tónlistarlegar rætur Jackson verða skoðaðar, allt frá árdögum R&B, sálartónlistar, söngleikja og rokk og róls til annarra stíltegunda sem áttu þátt í að móta hann sem tónlistarmann. Sérstökum tíma verður varið í að skoða bandarísku útgáfuna Motown sem einsetti sér að koma tónlist svartra til hvítra hlustenda í Bandaríkjum sjöunda áratugarins.
 
Menningarlegur bakgrunnur Michael Jackson og samhengi við bandarískt samfélag verður til umfjöllunar og þáttur Jackson á meginstraumsvæðingu svartrar tónlistar í Bandaríkjunum og um allan heim. Tónlist Michael Jackson frá öllum tímabilum í lífi hans verður krufin og einnig koma samstarfsfólk og aðrir áhrifavaldar við sögu.
 
Kennari er Berglind María Tómasdóttir. Berglind er dósent við Listaháskóla Íslands og einnig flautuleikari og tónskáld sem vinnur þvert á miðla.
 

MYNDLISTARDEILD

 
Umhverfi okkar og vistkerfi er undir meira álagi og stendur meiri ógn af umsvifum mannkyns en áður hefur þekkst. Þetta ástand kallar á nýjar leiðir til að fást við aðkallandi vistfræðilegar og líf-pólitískar spurningar sem við stöndum frammi fyrir. Mörg þeirra viðfangsefna sem aðkallandi eru, snerta samband okkar við dýr, við náttúruna og umhverfi okkar. Innan samtíma myndlistar eru spurningar um framsetningu á náttúrunni og dýrum, og viðfangsefni dýrasiðfræði og náttúrusiðfræði sett fram og rannsökuð með aðferðum listarinnar.
 
Í námskeiðinu „List, náttúra og ómennskir gerendur“ verður skoðað hvernig list og siðfræði, og list og vistfræði eru samtvinnuð. Birtingarmyndir dýra og náttúru í myndlist verða kannaðar og helstu fagurfræðilegu og siðferðilegu viðfangsefni sem því tengjast kynnt og greind. Þetta mun leiða nemendur inn í líf-pólitíska orðræðu, mannöldina og hlutmiðaða verufræði.
 
Kennari er Guðbjörg R. Jóhannesdóttir. Guðbjörg er aðjúnkt við hönnunar- og arkitektúrdeild og listkennsludeild Listaháskóla Íslands ásamt því að vera nýdoktor við Heimspekistofnun Háskóla Íslands.
 
Gestakennarar eru Æsa Sigurjónsdóttir, Bryndís Snæbjörnsdóttir, Hildur Bjarnadóttir, Þorvarður Árnason, Skúli Skúlason, Sigrún Inga Hrólfsdóttir o.fl.
 

HÖNNUNARDEILD

 
Námskeiðið er opið bæði arkitektum og hönnuðum sem vilja bæta við sig þekkingu í faginu og öllu áhugafólki um hönnun og arkitektúr.
 
Í námskeiðinu „Byggingarlist á Íslandi“ er farið yfir þróun byggingarlistar á Íslandi frá aldamótunum 1900 og til samtímans. Fjallað verður um tæknilegar og samfélagslegar forsendur húsagerðar á ólíkum tímaskeiðum. Þá verður stílhugsun, hugmyndafræði og verk einstakra arkitekta sett í samhengi við heildarþróun byggingarlistar á tímabilinu.
 
Kennari er Pétur H. Ármannsson. Pétur er arkitekt og einnig höfundur bóka, greina, fyrirlestra og dagskrárefnis um arkitektúr á Íslandi á 20. öld.