SÓLARPLEXUS er útskriftarverk Hildar Selmu Sigbertsdóttur. 

Anna kemur í verslunarkjarnann Vesturver í ákveðnum erindagjörðum. Hana langar í pítsu, hún þarf að komast í hraðbanka og hún skuldar vini sínum vodkaflösku. Glæsileiki kjarnans kemur henni á óvart en hann hefur verið í stöðugri uppbyggingu undanfarið henni óafvitandi. Anna ætlar sér einungis að stoppa stutt í Vesturveri en lendir í óvæntum atburðum sem valda því að hún ílengist þar. Hún fer að spyrja sig spurninga um tilgang og tilgangsleysi og veltir fyrir sér hvar svörin eru að finna. Eru svörin í Sólarplexusnum, á barnum eða veit Britney Spears þau kannski? 

Í verkinu er skoðað hvernig hinn kapítalíski raunveruleiki dagsins í dag á sér ótal birtingarmyndir. Verkið tekst jafnframt á við togstreitu þess gamla og þess nýja, andleg málefni og markaðshyggju og hvað það er að vera andlega heilbrigður. 

Og auðvitað konseptið PARTÝ. 

Leikarar: Davíð Guðbrandsson, Dóra Jóhannsdóttir, Edda Björgvinsdóttir, Hafdís Helga Helgadóttir, Sólborg Guðbrandsdóttir, Tómas Helgi Baldursson.

Mig langaði til að skrifa leikrit. Mig langaði til að æfa mig, langaði til að læra að koma hugmynd niður á blað, læra að vinna úr hugmyndum, skoða þær, laga þær, sortera þær og standa með þeim. Mig langaði til að takast á við formið sem er bæði opið og heftandi. Mig langaði til að sjá textann lifna við. 

Úr varð þetta leikrit, þessi leiklestur. Takk