Valdhafar
Leir kórónar lífríkið

 
 
Í gegnum tíðina hafa kórónur verið tákn fyrir vald, auð og guðlega tengingu. Ávinningur fyrir ákveðna stöðu, erfðaréttur eða táknrænt gildi sem setur valdið á höfuð útvalinna aðila. En er vald ekki brothætt?
 
Í verkefni mínu Valdhafar - Leir kórónar lífríkið - fékk ég fólk á ólíkum aldri til að taka þátt í kórónu-leirsmiðju og sýningu á Náttúrustofu Kópavogs. Hóparnir voru eldri borgarar frá félagsmiðstöðinni Gjábakka og nemendur frá Leikskólanum Undralandi. Báðir þessir staðir eru í næsta nágrenni við Náttúrustofu sem er hluti af menningarhúsunum í Kópavogi.
 
Í kjölfarið bauðst mér að vera með samskonar smiðjur fyrir grunnskólabörn á Barnamenningarhátíð ásamt Guðrúnu J. Halldórsdóttur sem var frábær reynsla, áfram teymisvinna!
 
fullsizeoutput_16f9.jpeg
 
Hóparnir byrjuðu á því að skoða Náttúrustofu og völdu sér fyrirbæri sem heillaði eða vakti áhuga. Síðan leiruðu þeir kórónu(r) fyrir það fyrirbæri en vinsælustu dýrin voru refur og svo lifandi mús (Aron) sem er í anddyri safnsins.
 
Kórónurnar, sem eru úr jarðleir, verða brenndar og settar upp til sýnis á Náttúrustofu. Sýningin opnar 26. maí kl. 13 og í kjölfarið verð ég með opna kórónusmiðju milli kl. 13:30-15 þar sem áhugasamir geta leirað kórónu úr sjálfþornandi leir, skreytt hana og tekið með sér. Þennan dag verða fleiri viðburðir í menningarhúsunum sem eru hluti af útskriftarhátíð listkennslunema við LHÍ.
 
Markmið verkefnisins var að nágrannar Náttúrustofu Kópavogs kynnist safninu, noti það sem innblástur að listaverki og geri völdu náttúrufyrirbæri hátt undir höfði. Víkki sjóndeildarhringinn gegnum sjónræna skynjun og persónulega listræna tjáningu. Svona smiðjur geta stutt við og örvað þá kennslu sem fer fram innan hins hefðbundna samfélags og byggt upp samstarf milli stofnana.
 
Mín von var sú að þátttakendur íhuguðu samband sitt við náttúruna, uppgötvuðu hversu merkileg undur lífríkisins eru og það að við mennirnir erum aðeins hluti af stórri heild.
 
,,Maðurinn hefur tilhneigingu til þess að leggja sinn skilning í fyrirbæri náttúrunnar meðan náttúran er ekki endilega að reyna að gera sig skiljanlega fyrir mennina,, (Gunnar J. Árnasson, 1994).
 
Elín Anna Þórisdóttir
naflakutur [at] gmail.com
Leiðbeinandi: Kristín Bogadóttir
2018