Splunkunýtt tölublað vefritsins ÞRÆÐIR er komið út og þar kennir ýmissa fróðlegra grasa.

Ný ópera Guðmundar Steins Gunnarssonar, Einvaldsóður, sem frumflutt var í Árbæjarkirkju í október síðastliðinn, er tekin til umræðu í grein Atla Ingólfssonar sem kveður verkið vera stórtíðindi í íslensku óperulífi.

Berglind María Tómasdóttir fjallar í sinni grein um nýja fagið (The New Discipline) og setur í samhengi við eigin tónlistariðkun;  Einar Torfi Einarsson skrifar um tónlistarviðburði þar sem skrásetning og varðveisla eru meðvitað hunsuð, þvert á gagnasöfnunarblæti samtímans og Halldór Úlfarsson skoðar hvernig standa eigi að hljóðfærakennslu á splunkuný hljóðfæri og hvort mælikvarðar hefðbundinnar hljóðfærakennslu séu tækir í þeim tilvikum.

Hróðmar I. Sigurbjörnsson skoðar tengsl og hliðstæður tveggja tímamótaverka í tónlistarsögunni, Forleiksins að Tristan og Ísold eftir Wagner og Síðdegis Skógarpúkans eftir Debussy og Þráinn Hjálmarsson skoðar þráð tungumálsins og raddarinnar í gegnum tónlistarsöguna með viðkomu hjá Monteverdi, Bach, Feldman, Meredith Monk og Alvin Lucier svo nokkur séu nefnd.

Vefritið ÞRÆÐIR er gefið út af tónlistardeild Listaháskóla Íslands og hefur það hlutverk að skapa vettvang, aðhald og hvata fyrir hvers konar rannsóknarvinnu tengda tónlist, innan sem utan skólans. Vefritið beitir sér fyrir því að vera vettvangur fyrir orðræðu um tónlist á íslensku máli, auka umsvif rannsókna á sviði tónlistar, skapa ný tækifæri, og vera miðstöð sjónarhorna innan tónlistar.

Ritstjórn ÞRÁÐA skipa Berglind María Tómasdóttir, Einar Torfi Einarsson og Þorbjörg Daphne Hall sem öll eru akademískir starfsmenn við tónlistardeild Listaháskóla Íslands. 

Efni 3. tölublaðs: