Hugleiðing um nám í hljóðfæraleik á órætt hljóðfæri

Halldór Úlfarsson

 

Hér er er að finna hugleiðingu um áhrif tæknimenningar samtímans á samband tónlistarfólks við hljóðfæri, byggt á yfirstandandi uppsveiflu í áhuga á hljóðfærahönnun. Og hér er sett fram spurning, sem hugsanlega inniheldur þversögn, um það hvort hægt sé að þjálfa hljóðfæraleikara á hljóðfæri sem hann eða hún er samtímis að þróa. Hér á ég við þjálfun hljóðfæraleikara í hinum hefðbundna skilningi hljóðfæraleiks þar sem námið hefur langa hefð að baki með marga sérhæfða kennara og til er mikið af tónlist fyrir hljóðfærið. Velt er upp möguleikanum á jafn umfangsmikilli þjálfun hljóðfæraleikara á órætt hljóðfæri, en hér er orðið “órætt” notað um hljóðfæri í mótun og ætlunin er að gefa til kynna opið þróunarferli þar sem hönnunarmarkmið eru í sífelldu endurskilgreind við notkun hljóðfærisins sem er verið að vinna með. Þversögnin felst í því að nýtt hljóðfæri býr ekki að sömu menningu og hljóðfæri sem hafa verið stabíl í áratugi eða árhundruð og því væri eðlismunur á námi í hljóðfæraleik þar sem hljóðfærið verður til á meðan á náminu stendur. Þessari uppstillingu fylgir því ákveðin spenna en jafnframt hugsanlegir ávinningar sem eru ræddir.

Þverfaglegur samsláttur skapandi faga (aðallega tónlistar) við tækni og hönnun er nokkuð sem höfundur hefur kannað ásamt öðrum í kennslu við Listaháskólann. Áhuginn á sér rætur í því að höfundur tók til við að þróa raf-akústískt strengjahljóðfæri, dórófóninn[1], fyrir rúmum áratugi síðan og hefur fyrir vikið unnið meira með tónlistarfólki að verkefnum tengdum hljóðfærinu en að öðrum menningarstörfum undanfarin ár. Sá starfi er hér til viðmiðs, en við það að vinna með dórófóninn, að koma honum í heiminn, hefur höfundi orðið ljóst að hljóðfæri skipta litlu máli ef ekki er til menning fyrir þau (tónlist eða flutningshefð). Án hefðar og samhengis eru litlar líkur á að þau séu notuð eða nái mikilli útbreiðslu.

Af því leiðir að nýtt hljóðfæri þarf nýja menningu og höfundi eru hugleiknar kringumstæður þess þegar ný hljóðfæri eru tekin í notkun, ný menning myndast, ný flutningshefð og ný tónlist verður til.

 

Ný íslensk hljóðfæri

Þess má reyndar geta að það virðist vera ágætis menning fyrir því að búa til og nota ný hljóðfæri á Íslandi og ágætis tilefni til að reifa það aðeins hér áður en við snúum okkur að  pælingunni um hljóðfæraleik og hljóðfærahönnun í bland.

Þó nokkur ný hljóðfæri hafa dúkkað upp undanfarin ár, ýmist langt komin verkefni eins og Mirstrument Mugisons[2]; hin ýmsu verkefni feðganna Úlfs Hanssonar[3] tónskálds og Hans Jóhannsonar[4] fiðlusmiðs; Þránófónn[5] Þráins Hjálmarssonar (en við höfum kennt saman námskeiðið “Hljómur sem efniviður” í tónlistardeild Listaháskólans undanfarin ár); IXI lang[6], sértækt forritunarmál Þórhalls Magnússonar og samstarfsmanna til rauntíma-forritunar á tónlist. Svo eru önnur hljóðfæri sem eru kannski nær því að vera skissur eins og tónskáldin í SLÁTUR[7] hafa þrusað út í tugatali undanfarin ár, svo mörg að það verður vart tölu á haldið og áferðin á iðkuninni þannig að réttara er kannski að tala um tónsmíðaaðferð[8] en hljóðfærahönnun. Lokkur[9] Berglindar Tómasdóttur er áhugavert dæmi um hljóðfæri sem er á mörkum þess að vilja láta taka sig alvarlega, hljóðfærið er að jöfnu skapað sem frásögn af tilurð þess og sem efnisgerð prótótýpa til tónlistarflutnings.

 

Tilraunir með hljóðfæri í Listaháskólanum

Við Þráinn Hjálmarsson höfum fundið skýran áhuga hjá nemendum Listaháskólans til að þróa ný hljóðfæri og breyta gömlum í gegnum námskeiðið sem minnst er á að ofan. Þar hafa nokkur áhugaverð verkefni verið þróuð í þverfaglegu samstarfi tónlistarnema við samnemendur sína úr öðrum deildum Listaháskólans. Upp úr því starfi stendur tónsmíð fyrir loftræstikerfi húsakynna Hönnunardeildar[10] (Þverholti 11), þar nota nemendur tónsvörun[11] loftræstikerfisins sem efnivið og tekst að skapa skemmtilega, sérkennilega tilfinningu fyrir rýmum hússins þegar verkið er flutt (en það sló í gegn og hefur verið flutt nokkrum sinnum á tyllidögum síðan). Annar hittari úr námskeiðinu væri klarínettubaulan[12] “3.2.1.”[13] en hún rataði í tónsmíð Guðmundar Steins Gunnarssonar, Sporgýla[14] sem flutt var af Skosku sinfóníuhljómsveit BBC fyrir skemmstu. Vert er einnig að minnast á margmiðlunarhljóðfærið “Huldu”[15], sem er verkefni Lilju Maríu Ásmundsdóttur, nýútskrifaðs nemanda úr tónlistardeild sem styrkt var af Nýsköpunarsjóði námsmanna og unnið hefur til verðlauna síðan.

Fleiri dæmi um hljóðfærahönnun í Listaháskólanum væru námskeið um notkun Arduino örtölva (ódýr, einföld græja sem er hægt að forrita til að stýra rafbúnaði) í umsjón Jesper Pedersen fyrir tónlistardeild og áhugavert er að benda á að Áki Ásgeirsson kennir keimlíkt efni við myndlistardeild  í námskeiðum sem kennd eru við raflist og vélræna list (sbr. námskeiðin Kóði og Mechatronic Art). Verkefni nemenda Áka eru oft rafræn hljóðfæri og hljóðinnsetningar, sem undirstrikar að nemendur fleiri deilda en tónlistardeildar hafa áhuga á hljóðfærahönnun.

 

Ný hljóðfæri eru notuð

Íslenskt tónlistarfólk hefur haft áhuga á að nota ný og óvenjuleg hljóðfæri án þess endilega að hanna þau sjálf. Kira Kira (Kristín Björk Kristjánsdóttir) hefur löngum leitað uppi ný og óhefðbundin hljóðfæri[16] í sinni sköpun. Stórstjarnan Björk túraði með Reactable[17] árið 2007, frekar framsækið og áhugavert stafrænt hljóðfæri þróað í Barselóna. Hildur Guðnadóttir hefur lengst allra notað dórófóninn[18] minn í sinni tónlist og hún og Jóhann Jóhannson heitinn[19] tóku hann með sér til Hollywood að skora kvikmyndir þegar það kom til. En Hildur hefur einnig notað tilraunkennd strengjahljóðfæri Hans Jóhannsonar til margra ára og meðlimur í Sigur Rós hefur nýlega eignast eina af Segulhörpum Úlfs Hanssonar.

 

Nýsköpun í hljóðfærahönnun á heimsvísu

Fikrum okkur að meginmálinu. Í starfa mínum hefur mér orðið ljóst að á heimsvísu stendur yfir alda af áhuga á hljóðfærasköpun sem ég er að kynna mér og greina þessa stundina sem doktorsnemi undir leiðsögn Þórhalls Magnussonar og Chris Kiefer við Sussex Háskóla í Bretlandi. Vaxandi áhugi og orka í nýsköpun í hljóðfærahönnun á sér mjög skýra birtingarmynd í NIME[20] ráðstefnunni sem hefur verið haldin árlega síðan 2002. Þar hittist áhugafólk frá öllum heimshornum, akademíkerar, uppfinningafólk og þeir sem ætla sér í framleiðslu. Fólk kemur til að kynna verkefni sín og sjá annarra, stemningin á ráðstefnunni er björt, svolítið eins og á tónlistarhátíð ef af er að dæma ráðstefnuna 2017 þegar hún var haldin í Kaupmannahöfn. Áherslurnar þar lágu víða, á akademískar greiningar[21], verkfræði[22] eða markaðsmöguleika[23] nýrra hljóðfæra og líka á fútt[24] og flipp[25] og einbeittan nördisma.[26] Hið stafræna er plássfrekt á NIME eins og á öðrum vettvöngum þar sem nýsköpun á sér stað þessa dagana, en þar er jafnframt mikilli hugvitsemi beitt í að brúa bilið á milli efnisheimsins og stafrænna áhalda.[27]

Sem hluta af rannsóknum mínum er ég að lesa mig í gegnum NIME arkífið[28] og hef séð að umræðan og áherslurnar í NIME samfélaginu breytast ár frá ári. Ég veitti því sérstaklega athygli þegar ég sótti ráðstefnuna í fyrra að töluverð umræða var um menningarmyndun sem hluta af “hönnunarvinnu” við ný hljóðfæri. En þessi tilhneiging til að veita menningunni athygli sem umlykur ný hljóðfærin, kemur í kjölfar þess að gert var þó nokkuð af rannsóknum sem greindu hvernig hljóðfærum úr NIME samhenginu vegnar til lengri tíma litið, ein rannsókn[29] sýnir að það er sterk tilhneiging til að: hanna, prófa og gleyma. Með öðrum orðum það er mikið að gerast í hönnun nýrra hljóðfæra, en aðeins minni stemning fyrir því að búa þeim stað í heiminum, að skapa fyrir þau menningu.

 

Hljóðfæraleikur sem hljóðfærahönnun

Við sjáum að það er aukinn áhugi á hljóðfærahönnun, nær sem fjær, en sú iðkun er ákveðnum annmörkum háð. Það vantar menningu fyrir öll þessi nýju hljóðfæri til þess að þau geri það sem hljóðfæri ættu helst að gera og séu nýtt til að færa tónlist í heiminn, það er frekar lítið verið að spila á þau. Í þessu samhengi er áhugavert að skoða hvar menning hljóðfæra er mótuð og henni er viðhaldið. Sem er vissulega víða, allstaðar þar sem tónlist er iðkuð (og kannski einnig þar sem á hana er hlustað) en ekki síst í tónlistarskólum, í hljóðfæranáminu þar sem óteljandi klukkustundum er varið í samneiti kennara og nemenda að kafa í hljóðfærin, flutninginn og tónlistina (sem er frábært!). Hér er mikinn ríkidóm að finna; viðtekna hefð sem flestir telja gilda og býr að mörgum stofnunum sem styðja hana. Í hljóðfæranáminu er að finna, akkúrat það sem gott er fyrir ný hljóðfæri: notkunina. Þar sem við höfum séð að nýju hljóðfæri án menningar vegnar ekki vel er freistandi að líta á nám í hljóðfæraleik sem menningarsköpunar-mekanisma sem væri hægt að tengjast. Ég leyfi mér að halda því fram að það sem vantar í hljóðfærahönnun er hljóðfæraleik.

 

Áhersla á hljóðfæraleik

Tónninn í frásögninni hefur verið eilítið á þann veg eins og tilraunir með hljóðfæri séu að eiga sér stað í tómarúmi aðskilið tónlistarmenntun og annarri tónlistarmenningu. Þar sem hið rétta er að víða eru tónlistarháskólar með námsbrautir[30] og rannsóknarsetur[31] sem sinna grunnrannsóknum með svipuðum efnistökum og NIME ráðstefnan og kynna notkun nýrra miðla[32] til tónlistarsköpunar, auk þess finnast sjálfstæðar menningarstofnanir[33] sem sinna nýsköpun í hljóðfærahönnun. Eins og við sjáum að ofan hefur líka Listaháskólinn staðið sig ágætlega í að kynna þessa strauma á Íslandi. Það stæðist jafnframt illa að draga of skýrar línur milli hljóðfæraleikara, tónskálda og hljóðfærahönnuða þar sem þessar iðkanir eru nú þegar að renna saman fyrir mörgu tónlistarfólki (ekki síst í hópnum sem hannar sín eigin hljóðfæri). Í raun má segja að tónlistarnám (allavega á háskólastigi) sé nokkuð flæðandi þessa dagana, keimlíkt námi í myndlist, með áherslu á það að listneminn móti sína eigin leið, hafi frelsi til að beina náminu í þá átt sem vekur áhuga. Þannig má segja að það sé mikið pláss fyrir þá iðkun sem hér er rædd í menningu tónlistarmenntunar eins og hún er.

En hér er athyglinni beint að námi í hljóðfæraleik, þar sem nemandanum er boðið að bindast hljóðfæri sínu sterkum böndum, dvelja með því, skilja og, kannski, vaxa saman við það. Iðkun hljóðfæraleikara er að sökkva sér í verkfærið, á meðan hljóðfærahönnuðir og tónskáld geta kosið að vera fjarlægari og fræðilegri í sinni nálgun og horft handan hljóðfærisins. Hér ritar hljóðfærahönnuður sem veltir því fyrir sér hverju það kynni að skila fyrir nýsköpun í hljóðfærahönnun ef skapaður væri rammi fyrir tónlistarnema að bindast óræðu (nýju, í mótun) hljóðfæri af sömu einurð og þegar einhver vill verða hljóðfæraleikari á gítar, píanó eða klarínett. Sjónarhóllinn er óvenjulegur að því leiti að hagsmunirnir í þessari hugleiðingu liggja töluvert hjá nýju hljóðfærunum, hvað er gott fyrir þau, í iðkun sem réttilega mætti nefna sem “styðjandi” við tónlistarsköpun. Hér er áherslan á hljóðfærahönnun og tilurð nýrra hljóðfæra sem “afurð” og útgangspunkt til jafns við tónlistarsköpunina sjálfa.

 

Hljóðfærarleikur - Aðalhljóðfæri / Órætt

Hefðir, menningariðkun og menntastofnanir eru í eilífu samtali þar sem eitt mótar annað og tíðarandinn ræður því hvar áherslurnar eru. Skilgreiningar sem oftar en ekki snúast um skipulag og útbýtingu úrræða (eins og hversu miklum tíma er varið í tiltekinn hluta náms) ráða áferð tónlistarnáms hverju sinni, hér höfum við í huga að yfir stendur alda af áhuga á hönnun og notkun nýrra hljóðfæra og hvernig það endurspeglast í menntastofnunum. Leiðum þessa hugleiðingu að lokum og athugum hver gæti verið áferð þverfaglegrar tónlistarmenntunar sem freistar þess að veita grunn í hljóðfærahönnun, styðja nemanda við hönnun og smíði eigin frumgerðar og leggja áherslu á notkun hljóðfærisins samhliða frekari þróun.

Hér minnir þversögnin aftur á sig; hefðbundið nám í hljóðfæraleik er þátttaka í hefð, en nám í hljóðfæraleik á órætt hljóðfæri væri menningarmyndun; að skapa hefð. Nemandi sem velur slíkt nám bætir vídd við listsköpun sína (og flækir málin verulega). Eins væri ekki hlaupið að því að hanna grunnnámsefni sem ætlað er að gera skil öllum þeim þverfagleika sem birtist í nútíma hljóðfærahönnun, grunnþjálfun gæti innhaldið: velflest raunvísindi, slatta af hugvísindum, hinar augljósu listir, ásamt tækniþjálfun í verkfræði, forritun og smíðum og, samkvæmt pælingunni hér, væri samhliða þróuð flutningshefð fyrir nýtt hljóðfæri með fyrsta hljóðfæraleikara þess (ásamt æfingarprógrammi). Nám á þeim nótum er augljóslega ekki mögulegt, nemandanum myndi ekki endast ævin til að ljúka því.

“Hljóðfæraleikur á órætt hljóðfæri” þyrfti, þess í stað, að vera mjög sveigjanlegt og persónubundið nám (lesist: hlutfallslega dýrt og soldið flókið), í stað fyrirframákveðins námsefnis væri líklega betra að mynda stórt tengslanet iðkenda í tengdum fögum sem hægt væri að veita nemendum aðgang að til sértækrar leiðbeinslu þegar verkefni þeirra skýrast og þróast.

Fyrsti hluti námsins ætti meira skylt með hönnun en tónlist. Nemandi er leiddur í gegnum hugmyndavinnu um hvað vekur áhuga við hljóðfæraflutning. Spurt væri mjög óvenjulegrar spurningar, sögulega séð, ekki “hvaða hljóðfæri langar þig að læra á?” heldur hverskonar hljóðæri, sem ekki er til, langar þig að læra á?”. Spurningin sjálf krefst vinnu og greiningar, afbyggingar á því hvað hljóðfæri eru og hvert samband manneskja og hljóðfæra er.

Eðlilegt væri svo að nota stafræn áhöld til að skissa hugmyndir svo hægt sé að og þróa og prófa sem hraðast, helst nýja útgáfu/uppfærslu á fárra vikna fresti. Þegar hljóðfæri/kerfi fer að gefa góða raun, mætti hugsa til þess hvort nánari útfærsla gefi tilefni til mekanískrar eða akústískrar hönnunar (sem er eðli málsins samkvæmt hægari og dýrari). Mat á verkefninu og uppfærslur væru byggðar á því að nemandinn semji og flytji tónlist á hverja útgáfu. Þróunarferlið væri því samvaxið æfingaferli, þar sem nemandinn metur framvinduna stöðugt með kennurum sínum.

Ef vel tekst til væri að lokum útskrifaður nemandi með mjög sérhæfða listræna iðkun, tónlistarsköpun sem væri mjög persónubundin (og að líkindum nokkuð einstök). Tónlistarmaðurinn hefði sérhæfingu í einstöku hljóðfæri, þekkingu til þess að þróa það áfram, framleiða það fyrir aðra (ef tilefni gefst) og jafnframt að skapa tónlist með því. Það er forvitnilegt að hugsa til þess hvernig ævistarf tónlistarmanns með slíka grunnmenntun gæti litið út og hver áhrifin yrðu á tónlistarmenningu staðar með virka iðkendur af þessum toga.

 

Leikur, list og efniviður

Það væri tilefni til að kafa dýpra í það í öðrum skrifum hvað veldur þessari öldu af áhuga á hljóðfærahönnun sem hér er lýst. Áhrif stafrænnar tækni spilar inn í, eins og í öllum öðrum kimum mannlegrar virkni þessa dagana, en áratugavirði af opinni hugbúnaðarþróun fyrir áhöld til stafrænnar hljóðfærahönnunar (sbr. Pure Data, Supercollider og fleiri) hefur vafalaust haft þau áhrif að tónlistarfólk telur það sí-sjálfsagðara að búa til hljóðfæri samhliða því að búa til tónlist.

Jafnframt telur margt fræðafólk yfirstandandi menningarástand sem hægt væri að nefna á íslensku “efnishvörfin” (af ensku “materiality turn”). Um ræðir nýlega áherslu í hugvísindum á efnisveruleikann, áhrif hans og samspil við hugsun og menningu. Almennt er talað um viðbragð við hinu stafræna og afbyggingar á eðlishyggju af ýmsum toga sem hefur átt sér stað undanfarna áratugi. Hér er þá um að ræða viðbragð, þó tortryggni sé hugsanlega of sterkt orð getum við sagt efasemdir um hvað hið rökræna og konseptúala hefur upp á að bjóða.[34]

Efnishvörfin tengi ég við yfirstandandi löngun listamanna til að takast á við tækni, tæki, aðferðir og efni, eins og að vilja hanna eigin hljóðfæri. Að vera í tengingunum frekar en konseptinu, kannski: Að vilja finna fyrir viðnámi í efniviðnum og áhöldunum. Fyrir tónlistarfólki þýðir þetta hugsanlega löngun til að hljóðfærin séu fyrir, séu erfið frekar en að þau hverfi sjónum eins og önnur verkfæri (hamar, lyklaborð, vatnsglas) eða önnur tækni sem umvefur okkur og mótar líf okkar (vatnskranar, gluggar, lyftur). Hugsanlega eru tæki listamanna orðin svo kunnugleg að við þurfum að “eyðileggja” þau svolítið til þess að finnast þau skemmtileg, til að þau geti skilað óvæntum og áhugaverðum niðurstöðum.

Að lokum. Umræðan hér hefur haldið í nokkuð hefðbundnar skilgreiningar á fögunum sem um ræðir (flytjendur, tónskáld, hljóðfærahönnuðir) en það auðveldar umfjöllunina um það sem liggur á jaðrinum að vísa í það auðþekkjanlega. Hætt er við að einfalda um of og því vil ég velta því upp hér í lokin að umræðan um órætt hljóðfæri gæti verið (og kannski ætti að vera) um hljóðfæri sem við vitum ekki hvar endar, væri líklega aldrei tilbúið, ætti aldrei að verða tilbúið. Hugsanlega er tónlistariðkun með órætt hljóðfæri iðkun iðkunarinnar vegna og tilgangurinn sé ekki að skapa hljóðfæri með skýr landamæri við heiminn, fastmótað ídentítet, heldur frekar aðferð, eitthvað í ætt við etýðu: Til æfingar, til leitar, til könnunar.

 

 

---

[1] Hér er að finna óformlegt samansafn verkefna sem dórófónninn hefur verið notaður í.

[2] Það má segja að Múgison (Örn Guðmundsson) hafi lagt drög að námi eins og hér er hugleitt þegar hann nýtti MA nám sitt við Tónlistardeild (NAIP) að því að þjálfa sig sem hljóðfæraleikara á Mirstrumentið samhliða frekari þróun þess.

[3] Segulharpa Úlfs.

[4] Hans Jóhannson hefur þróað nokkur framsækin verkefni byggð á þekkingu sinni sem klassískur hljóðfærasmiður en nýtir jafnframt nýjar aðferðir úr tölvunarvísindum og verkfræði.

[5] Hér má sjá túbu-Þránófón í höndum Inga Garðars Erlendssonar, en Þráinn lítur ýmist á Þránófóna sem aðferð eða hljóðfæri.

[6] IXI lang er vafalaust mest notaða hljóðfærið í þessari upptalningu, en því hefur verið halað niður um allan heim og nýjir notendur bætast stöðugt við.

[7] Heimasíða SLÁTUR

[8] Skrásetning á verkum SLÁTURliða er í öfugu hlutfalli við virknina en einstaka brauðmolar finnast sem marka hugmyndirnar sem unnið er með hverju sinni.

[9] Áhugaverða umfjöllun er að finna um Lokkinn í öðru tímariti Þráða.

[10] Verkið er þess eðlis að erfitt er að skrásetja upplifunina, þar sem rýmisskynjunin spilar stórt hlutverk, en nemendur gerðu heiðarlega tilraun með þessu ágæta vídeó.

[11] Hópurinn var þverfaglegur (arkítektúr, myndlist, tónlist) og gerði okkur ljóst hversu öflugt það er að bjóða nemendum uppá slíkt samstarf. Tónskáldið minnist á ferlið í lokaverki sínu og það er ágætis vitnisburður um vinnuna sem átti sér stað þeirra á millum.

[12] Hér glittir í ferlið sem við tókum með nemendum, þar sem þeir sömdu stúdíur fyrir ”skekktu” hljóðfærin og báru mat á þau.

[13] Einn nemenda námskeiðisins tók sér bauluna sem viðfang í lokaverkefni sínu.

[14] Hér finnst upptaka af því ágæta verki.

[15] Umfjöllun um Hulduna í RÚV.

[16] Hér ræðir Kristín þann hluta starfa síns í ”hljóðmaraþoni” í stúdíói Ólafs Elíassonar árið 2011.

[17] Vinna Bjarkar með hljóðfæri var mikil lyftistöng fyrir verkefnið en hönnuðurnir lýstu því að þeir gátu fylgst með því hvar hún var stödd á túrnum eftir því hvaðan áhorf á youtube rásinni þeirra kom.

[18] Hér er verk sem við Hildur unnum saman árið 2009 og er í sérstöku uppáhaldi hjá mér.

[19] Jóhann er svo nýfarinn að það vekur sorg að rita nafn hans hér. Við vorum ekki nánir, rétt kunningjar og laustengdir samstarfsmenn í gegnum Hildi Guðnadóttur. Ég náði að hitta á hann í ágætu stuði við vinnu í stúdíóinu í Berlín á sólríkum sumardegi í fyrra, minnist hans þar með hlýju og votta samúð til þeirra sem voru honum nánari.

[21] Þessi grein lýsir tilraunum höfundar og samstarfsfólks hans til að nálgast tónsmíðar og hljóðfærahönnun á öðrum forsendum en þeim sem hafa erfst úr tuttugustu öldinni.

[22] Eins og þessi, einstaklega þurra og tæknilega, greining á eiginleikum mismunandi tegunda mótora til noktunar sem raf-trommara í tölvustýrðum ásláttar-kerfum.

[23] Flott viðmótshönnun sem nýtir snertiskjá til lúppugerðar, nokkuð sem maður yrði ekki hissa á að sjá seljast vel sem app.

[24] Þetta viðmót blandar til dæmis saman vökvasulli og raftækni.

[25] Hér er spilað inn á gleðina við að rústa einhverju.

[26] Þetta verkefni situr djúpt í mér. Myndbandið gerir því engan veginn skil og ég get ekki annað sagt en það þarf að upplifa af eigin raun til að skilja það. Segull á fingurgómi og tölvurstýrt segulsvið er notað til að miðla tilfinningu fyrir efni til notandans (mjúkt, seigt, stamt, en líka eiginleikum sem raunverulegt efni getur ekki innihaldið) sem hluta af viðmóti.

[27] Hress samnýting þrívíddarprenntunar og snjallsíma sem efniviðs til hljóðfærahönnunar.

[29]  Ein rannsókn gefur til kynna að 2/3 hluti verkefna (aðallega hljóðfæri) fyrir bregður í NIME samhenginu hafa aðeins verið metin í einu sessjóni þegar niðurstöður (t.d. upplifanir notenda af þeim) eru kynntar.

[30] CCARMA við Stanford hefur haldið úti ”NIME” námskeiði í meira en 20 ár.

[31] Eins og rannsóknarsetrið sem ég tilheyri við tónlistardeild Sussex Háskóla og C4DM í London.

[32] Til dæmis CalArts í Bandaríkjunum og DIEM í Danmörku.

[33] STEIM í Hollandi hefur verið leiðandi fyrir nýsköpunarmenningu í tónlist innan Evrópu.

[34] Gagnrýni Katherine Hayles í bók hennar “How We Became Posthuman” á hugmyndir um líkamslausa (tæknilega) vitund er skýrasta tenging mín við þetta yfirstandandi ástand en það eru margir hugsuðir hengdir við, framarlega í flokki eru: Bruno Latour, Karen Barad og Graham Harman.