Á næstu vikum hefjast opin námskeið í Listkennsludeild Listaháskóla Íslands, tilvalin fyrir kennara, listamenn og önnur sem vilja sækja sér símenntun á vormisseri. 
 
Skráning er hafin og fer fram á heimasíðu Opna listaháskólans. Þar má einnig finna nánari upplýsingar um þessi spennandi námskeið. 
 

MARS 2018

 
Námskeiðið Myndlist fyrir kennara ungra barna hentar fyrir kennara yngri deilda grunnskóla og einnig leikskólakennara. Þar kynnast nemendur nokkrum leiðum til þess að vinna á skapandi hátt að myndlistartengdum og þverfaglegum verkefnum með yngri börnum. Kennari er Eygló Harðardóttir og námskeiðið hefst 10. mars.
 
Barna og unglingakór hefst 20. mars og stendur til 6.apríl. Það er hin rómaða Þórunn Björnsdóttir sem kennir en Þórunn hefur áratuga reynslu af kórstjórn. Á þessu námskeiði ætlar Þórunn að kynna 2 – 3ja radda lög með undirleik fyrir barnakóra á miðstigi. Hér gefst einstakt tækifæri til að læra af einum af frumkvöðlum íslensks barnakórastarfs. 
 

APRÍL 2018

 
Textaverk hefst 10. apríl og stendur til 27. apríl. Nemendur skoða textaverk og notkun texta í listaverkum og nánasta umhverfi. Í áfanganum er ætlast til að nemendur fari út fyrir kassann og vinni sjálfstæða hugmynda- og verkefnavinnu og þjálfist í notkun texta í verkum. Kennari er Jóna Hlíf Halldórsdóttir.
 
Textíll í samtímamyndlist hefst 10. apríl og stendur til 28. apríl. Kennari er Hildur Bjarnadóttir. Í námskeiðinu verða nemendur hvattir til að þenja mörk hefðbundinnar textílvinnslu með því að gera margar skissur og tilraunir áður en þeir þróa einhverja þeirra í lokaniðurstöðu.
 
Í námskeiðinu Workshop in Musical Instruments læra nemendur að búa til og skapa tónlist úr hljóðfærum gerðum úr óvenjulegum efnum. Þetta námskeið er verklegt og fer fram á ensku. Kennslutímabil er 17. apríl - 22. apríl og kennari er Peter Kus.