Í gær voru nýsköpunarverðlaun forseta Íslands veitt í 15 sinn, en verðlaunin voru fyrst veitt árið 1996, og hlutu nemendur í vöruhönnun við LHÍ verðlaunin að þessu sinni fyrir nýstárlegt verkefni um nýtingu lúpínunnar. 

Við þessi tímamót er ánægjulegt að rifja það upp að nemendur skólans hafa alls fjórum sinnum hlotið verðlaunin. 

Mynd með frétt: Lúpína í nýju ljósi. 

Hér er yfirlit yfir verkefnin:

2016: Þekkirðu fuglinn? (vöruhönnun)
 
 
 

2018 - Lúpínan í nýju ljósi, lífrænt hráefni í umhverfisvæna afurð

Elín Sigríður Harðardóttir og Inga Kristín Guðlaugsdóttir, nemendur í grunnnámi vöruhönnunar við Listaháskóla Íslands, hlutu verðlaunin fyrir verkefnið  Lúpína í nýju ljósi, lífrænt hráefni í umhverfisvæna afurð Leiðbeinendur þeirra voru Magnús H. Jóhannsson, sviðsstjóri þróunarsviðs Landgræðslu ríkisins, og Thomas Pausz, lektor við Listaháskóla Íslands.
 

 

2016 - Þekkirðu fuglinn?

​Birgitta Steingrímsdóttir og Heiðdís Inga Hilmarsdóttir (vöruhönnuður), nemar frá Háskóla Íslands og Listaháskóla Íslands, hlutu verðlaunin fyrir verkefnið Þekkirðu fuglinn? Rannsókn á fuglafræðiþekkingu barna og þróun og gerð spils sem gerir þeim kleift að læra í gegnum leik.

Leiðbeinendur þeirra voru: Gunnar Þór Hallgrímsson, dósent í dýrafræði við Háskóla Íslands, Rúna Thors, sjálfstætt starfandi vöruhönnuður og stundakennari við Listaháskóla Íslands, og Valgerður Þórisdóttir, grunnskólakennari í Selásskóla. Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, afhenti Birgittu og Heiðdísi Ingu

Þekkirðu fuglinn? er þriggja mánaða rannsóknarverkefni sem styrkt var af Nýsköpunarsjóði námsmanna sumarið 2015. Viðfangsefni verkefnisins eru af tvennum toga; rannsókn á núverandi þekkingu barna á íslenskum fuglum og í framhaldi af því hönnun og gerð spils um fuglana sem kennarar geta nýtt sem námsgagn í náttúrufræði.

Í upphafi sumars var lögð könnun fyrir tæplega  400 nemendur í 4. bekk á höfuðborgarsvæðinu þar sem athugað var hvort þeir þekktu algengustu og mest einkennandi fugla í náttúru Íslands. Einnig voru kennsluhættir í fuglafræði skoðaðir. Í framhaldi af því tók við hönnun og gerð spilsins Fuglafár sem hefur það að markmiði að hjálpa börnum að þekkja útlit fuglanna og nöfn þeirra. Auk þess fá börnin ýmsar upplýsingar um þá, svo sem þyngd og lengd, fjölda eggja í hreiðri og hvaða ættbálkum þeir tilheyra ásamt skemmtilegum texta um hvern fugl. Markmið verkefnisins er að stuðla að bættri þekkingu grunnskólabarna á íslenskum fuglum með því að koma fram með nýstárlegar kennsluaðferðir sem auka fræðslu í gegnum leik. Samhliða því að kveikja áhuga barna á fuglunum er vonin sú að Fuglafár stuðli að enn frekari áhuga þeirra á náttúru Íslands og auki skilning á mikilvægi hennar.

Spilið hefur verið í prófun í grunnskólum í vetur og fengið góðar undirtektir. Næstu skref eru að hefja framleiðslu og munu umsagnir kennara og nemenda nýtast til betrumbóta svo að spilið verði að enn betra kennslutæki.

 

2013 - OM - hönnun, þróun og smíði nýs hljóðfæris.

Verkefnið sem hlaut verðlaunin að þessu sinni heitir OHM - hönnun, þróun og smíði nýs hljóðfæris og var það unnið af Úlfi Hanssyni, nemanda við Listaháskóla Íslands. Leiðbeinandi hans í verkefninu var Hans Jóhannsson hjá Fiðlusmíðaverkstæði Hans Jóhannssonar. 

Hljóðfærið er 26 strengja rafstrokin harpa, með snertitökkum, en er að auki sjálfspilandi með sérsmíðuðu tölvuforriti sem var hluti hönnunarvinnunnar. Við upphaf verkefnisins var lagt upp með að hanna og þróa nýja tegund hljóðfæris sem ætti erindi inn í heim raftónlistarinnar, en byggi engu að síður yfir akústískum eiginleikum hefðbundinna eldri hljóðfæra. Raftónlist án hátalara hefur ekki náð fótfestu í heimi hljóðgervla og tölvuforrita, en með hjálp smárra tölvukubba eða örflaga hefur samtalið milli hinna stafrænu og hliðrænu heima eflst til muna. Með hljóðfærinu er hefðbundnu samspili snertingar, viðbragðs og tóns á strengjahljóðfæri umturnað. Strengirnir, sem eru innan í hljóðfærinu, eru knúnir áfram, eða „stroknir“, með snertitökkum úr kopar á viðaryfirborði. Hljóðið kemur innan úr hljóðfærinu, en þrátt fyrir að vera rafknúið er hljóðið einungis byggt á eigindum strengjanna sem slíkra. Náttúruleg endurómun 26 opinna strengja skapar því þann tónblæ sem er einkennandi fyrir hljóðfærið. 

 

2011 - Pantið áhrifin frá Móður jörð

Verkefnið sem hlaut verðlaunin að þessu sinni heitir Pantið áhrifin frá Móður jörð og var það unnið af Auði Ösp Guðmundsdóttur, Emblu Vigfúsdóttur og Katharinu Lötzsch frá Listaháskóla Íslands og Robert Peterssen frá Háskólanum í Gautaborg. Leiðbeinandi þeirra í verkefninu var Brynhildur Pálsdóttir. Pantið áhrifin frá Móður jörð er hugmyndafræðilegur veitingastaður þar sem upplifun, fræðsla og umhverfisvitund fara saman. Hugmyndin kviknaði haustið 2009 í áfanga við Listaháskóla Íslands sem kallast Stefnumót hönnuða og bænda. Þar komu vöruhönnunarnemar og bændur saman að nýsköpun og verðmætaaukningu íslensks landbúnaðar.

 

Eymundur Magnússon bóndi í Vallanesi sérhæfir sig í framleiðslu lífrænna matjurta sem seldar eru undir vörumerkinu Móðir Jörð. Eymundur leggur metnað sinn í að fræða almenning um mikilvægi heilbrigðrar fæðu og áhrif hans á líkama okkar ásamt því að stuðla að sjálfbærni og náttúruvernd. Hugmyndafræði Eymundar er grundvöllur hugmyndarinnar að veitingastaðnum og staðbundin framleiðsla og vistvæn hráefni eru hornsteinn hans. Staðurinn sjálfur er byggður úr timbri úr Hallormsstaðarskógi (10 km frá Vallanesi) og réttirnir búnir til úr íslensku hráefni, mestmegnis frá Vallanesi. Kappkostað var að nota eins nærtækan efnivið og völ var á og margar vettvangsferðir farnar í leit að möguleikum í hráefni og vinnslu. Staðurinn er sampakkanlegur og getur því ferðast milli landshorna eftir því hvernig vindar blása.