Fyrir hvern er námskeiðið: Námskeiðið er kennt á íslensku og ensku. Námskeiðið hentar fyrir þau sem vilja öðlast þjálfun í menningarstjórnun. Námskeiðið er valnámskeið á MA. stigi tónlistardeildar.
 
Nemendur velja sér einstaklingsverkefni sem hver og einn vinnur sjálfstætt út frá áhuga sínum og áherslum í náminu. Verkefnin verða síðan unnin frá grunni til loka undir handleiðslu kennara. Nemendur fylgjast með verkefnum hinna og lögð er áhersla á að þeir séu virkir í verkefnavinnunni. Nemendur vinna síðan í hópum að nokkrum verkefnum sem valin eru úr einstaklingsverkefnunum. Lokaverkefnin eru því unnin af teymi nema úr ólíkum deildum og kynnt sameiginlega. Einnig verða smærri verkefni unnin.
 
Í fyrirlestrum verður farið nánar í úrvinnslu verkefnanna, tillögur og ábendingar. Efnið er kynnt með glærum og dæmum, sem talið er að geti skerpt og dýpkað skilning nemenda á námsefninu og verkefna- og viðburðastjórnun. Mikil áhersla er lögð á umræður og virka þátttöku  nemenda. Kennslan nær til flestra þátta sem menningarverkefni innibera, allt frá hugmynd og markmiðum til framkvæmdar. Inn í það er blandað ýmsum verkefnum sem geta tengst verkefnum nemenda eða eru sjálfstæð.
 
Nemendur á námskeiðinu fá tækifæri til að öðlast þjálfun í markvissri menningarstjórnun fjölbreyttra og stundum þverfaglegra verkefna sem gera kröfur til þekkingar, framsetningar og færni. Farið er yfir markmiðslýsingu, skipulag og margskonar áætlanir  menningartengdra verkefna og bent á helstu áhættuþætti og frávik. Lögð er áhersla á að nemendur öðlist skilning og leikni í öllum helstu þáttum menningarstjórnunar, bæði í sjálfstæðum verkefnum, verkefnum innan stofnana og samstarfsverkefnum. Virkni nemenda og sjálfstæð nálgun er hluti af markmiðum námskeiðsins og einnig er lögð áhersla á hópvinnu og samstarf.
 
Námsmat: Verkefni, sem nemendur velja sér sjálfir, er metið út frá úrvinnslu hugmynda, áætlunum, samstarfi hópa og kynningu á verkefnum. Endurgjöf fer fram tvisvar á námskeiðinu. 
 
Kennari: Þórunn Sigurðardóttir.
 
Staður og stund: Skipholt 31, þriðjudagar og fimmtudagar kl. 08:30 - 10:10
 
Tímabil: 9. janúar - 1. mars, 2018.
 
Einingar: 4 ECTS.
 
Kjósi nemendur að taka námskeið án eininga gefur kennari verkefnum nemenda ekki endurgjöf. Verðmunur ræðst þ.a.l. af auknu vinnuálagi kennara.
 
Námskeið sem tekin eru án eininga geta þó skráðst, án eininga, á námsferil nemenda.
 
Verð: 49.000 kr. (án eininga) / 61.200 kr. (með einingum).
 
Forkröfur: Góð enskukunnátta. BA. gráða eða sambærilegt nám.
 
Nánari upplýsingar:  Elísabet Indra Ragnarsdóttir, verkefnastjóri tónlistardeildar. indra [at] lhi.is.