Fyrirlestur í tónlistardeild Listaháskólans 1. des. 2017

Hjálmar hefur starfað í fjölbreyttu umhverfi lista á Íslandi síðan hann kom heim frá námi 1980. Á þeim tíma hefur hann auk fjölbreyttra tónsmíðastarfa sinnt kórstjórn og hljóðfæraleik, kennslu, rannsóknum, ýmsum félagsstörfum, og nú síðast gegndi hann starfi rektors Listaháskólans frá stofnun hans 1999 til 2013. Rannsóknir Hjálmars á Jóni Leifs og tónlist hans var brautryðjendastarf sem leiddi til endurreisnar tónlistar Jóns og útbreiðslu á alþjóðlegum markaði. Hjálmar hefur samið fjölda tónverka, bæði einleiks- og kammerverk, einsöngsverk og kórverk, sinfónísk verk, tvær óperur og tvo söngleiki, tónlist við fjölda leiksýninga og tónlist við nokkrar sjónvarpsmyndir og þrjár leiknar kvikmyndir í fullri lengd.

Sem listamaður leggur Hjálmar mikið kapp á að ná til áheyrenda og hreyfa við hugsun þeirra og tilfinningum, og er það sjálfsagt arfur sem hefur fylgt honum úr kórastarfinu, leikhúsinu og kvikmyndunum. Á móti telur hann ekki síður mikilvægt að kanna það óþekkta, taka áhættuna, og gára lognværðina sem breiðist yfir í samfélagi þar sem skortir gagnrýna umræðu og greiningu. Þegar þetta fer saman, hrifningin og rökhugsunin, telur Hjálmar að bestum árangri verði náð.

Það má skipta höfundaverki Hjálmars í grófum dráttum í tvo meginflokka. Annars vegar eru hljómræn og lagræn verk í hefðbundnari formum, oft samin eftir pöntunum fyrir kóra, leikhús, kirkju eða kvikmyndir, og hafa mörg þeirra náð mikilli útbreiðslu og verið vinsæl til flutnings, og hins vegar er um að ræða tilraunakenndari tónlist, oftast sóló-, kammer-, eða hljómsveitarverk, þar sem liggja að baki tónfræðilegar pælingar og ýmis rannsóknarvinna með mismunandi tengingum. Það eru verk úr þessum seinni flokki sem eru efni fyrirlesturs hans í Listaháskólanum.

Fyrirsögnin „Sagt og ósagt“ er leikur með samlíkingu við tungumálið þar sem hið sagða kallar fram það sem ekki er sagt, og það ósagða varpar ljósi á það sagða. Með því að setja þröngar skorður um tónaval og hljómbyggingu verður það sem útilokað er efnismeira og þyngra, og verður hlustandanum ekki síður áreiti en það sem heyrist. Þetta getur t.d. átt við tónskalann, einfalt dæmi: útiloka aðliggjandi fjóra tóna innan lítillar þríundar í öllum áttundum, skapar óþreyju og spennu eftir nokkurn tíma, tína svo smám saman einn og einn tón inn í tónbygginguna, og hljómar hver þeirra þá sem nýr og ferskur, og tónbyggingin verður fyllri og meira í jafnvægi, eða þangað til nýjar skorður eru settar. Hjálmar mun draga fram nokkur mismunandi og ólík dæmi um svona „skortstöðu“ með tilvísunum í tónverk sem spanna 35 ár á tónsmíðaferli hans.