Hróðmar I. Sigurbjörnsson, tónskáld, mun flytja fyrirlestur í málstofu tónsmíðanema föstudaginn 15. september kl. 12:45 -14:40. Fyrirlesturinn verður haldinn í stofu 633 í nýju húsnæði tónlistardeildar Listaháskólans í Skipholti 31. Sérstakir gestir málstofunnar verða meðlimir Quartetto a mouversi sem munu flytja brot úr verkum Hróðmars.

Hróðmar mun fjalla um tvö verka sinna, Músík fyrir klarinett (1984) og Nokkrar almennar hugmyndir um dauðann (2017). Síðarnefnda verkið er samið við samnefnt ljóð Gyrðis Elíassonar úr ljóðabókinni Nokkur orð um kulnun sólar (2009) og ljóðið Næturljóð í d-moll úr ljóðabókinni Hér vex enginn sítrónuviður (2012). Verkið er samið fyrir Quartetto a mouversi sem mun frumflytja það í Norðurljósasal Hörpu nk. Sunnudag, 17. september.

Hróðmar I. Sigurbjörnsson lauk prófi í tónsmíðum frá Tónfræðadeild Tónlistarskólans í Reykjavík árið 1984 þar sem tónsmíðakennarar hans voru Þorkell Sigurbjörnsson og Atli H. Sveinsson. Hann stundaði framhaldsnám í tónsmíðum hjá hollenska tónskáldinu Joep Straesser við Konservatoríið í Utrecht í Hollandi þaðan sem hann lauk prófi 1988.

Frá haustinu 1988 hefur hann unnið sem tónskáld auk kennslu í tónsmíðum og tónfræðum m.a. við Tónlistarskólann í Reykjavík, Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar og Listaháskóla Íslands frá haustinu 2003. Hann gegnir nú stöðu dósents og fagstjóra í í tónsmíðum og tónfræðum við tónlistardeild LHÍ.

 

Hróðmar hefur samið verk fyrir einleikshljóðfæri, ýmsar kammersamsetningar, kóra, hljómsveitarverk, konserta og óperu auk tónlistar fyrir leikhús, sjónvarp og kvikmyndir.