Evrópska samstarfsverkefnið Therapy 2.0 er tveggja ára verkefni sem styrkt er af ERASMUS+  Menntaáætlun ESB og stýrt í Þýskalandi.  Listaháskólinn er samstarfsaðili í þessu verkefni og tengiliður er Björg J. Birgisdóttir.

 

Meginmarkmið verkefnisins er að safna saman og þróa aðferðir sem nýst geta í rafrænni ráðgjöf eða sérfræðimeðferð, einkum fyrir náms- og starfsráðgjafa og sálfræðinga.

 

Í gegnum tíðina hefur ráðgjöf aðallega byggst á viðtölum augliti til auglitis. Með tilkomu rafrænna miðla og tækja eins og samfélagsmiðla (Facebook, Snapchat, Twitter, WhatsApp o.fl.) og snjallsíma getur verið auðveldara að ná til ákveðinna markhópa  þar sem töluverður sveigjanleiki er til staðar varðandi staðsetningu og tímasetningu og hægt að ná til einstaklinga á þeirra forsendum.

Í verkefninu verður leitað leiða til að ná til ungs fólks  á aldrinum 15-25 ára í gegnum rafræna ráðgjöf. Talið er að slík ráðgjöf geti hentað þessum hóp mjög vel þar sem einstaklingar á þeim aldri hafa alist upp við gagnvirka miðla og því er tiltölulega auðvelt að nálgast þá í gegnum þá samskiptamiðla sem þau eru vön að nota.

Milikvægt er að kynna þá möguleika sem tæknin hefur upp á bjóða og með því bæta þekkingu náms- og starfsráðgjafa, sálfræðinga og annarra sérfræðinga. Í verkefninu verður leitast við setja upplýsingar um rafræna ráðgjöf fram á aðgengilegan hátt. 

Hér til hægri er bæklingur (PDF) á ensku með nánari upplýsingum um verkefnið.