Berglind María Tómasdóttir dósent við Listaháskóla Íslands og Lilja María Ásmundsdóttir fyrrum nemandi við Listaháskóla Íslands koma fram á tvennum tónleikum í Mengi dagana 29. og 30. apríl. Á tónleikunum leika þær á eigin hljóðfæri: Huldu og Lokk en þess má geta að hljóðfærið Huldu þróaði Lilja María sumarið 2016 á styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna undir handleiðslu Berglindar Maríu og Jóns Marinós Jónssonar, fiðlusmiðs. Verkefnið var tilnefnt til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands.
 
29. apríl kl. 21:00 flytja þær ný verk samin fyrir hljóðfærin Lokk og Huldu þann 29. apríl í Mengi. Ingibjörg Ýr Skarphéðinsdóttir, Ragnheiður Erla Björnsdóttir og Stefán Ólafur Ólafsson sem öll útskrifuðust frá tónlistardeild Listaháskóla Íslands 2016 eru meðal þeirra tónskálda sem eiga verk á tónleikunum.
 
30. apríl kl. 15:00 halda þær tónleika fyrir börn undir yfirskriftinni Hljóðasmiðja heimsins en tónleikarnir eru hluti af Barnamenningarhátíð. Á tónleikum verða meðal annars flutt verk eftir Pauline Oliveros og John Cage þar sem gestir taka jafnframt þátt í flutningi.
 
Aðgangur er ókeypis á barnatónleikana.
 
Lilja og Berglind voru gestir Víðsjár á Rás 1 26. apríl sl. þar sem þær spjölluðu um tónleikana og nám í tónlist o.fl. Hægt er að hlusta hér: http://www.ruv.is/sarpurinn/ras-1/vidsja/20170426
 
Nánar um viðburðina á Facebook:
Laugardagur 29. apríl
Sunnudagur 30. apríl
 
 
UM HLJÓÐFÆRIN
Hulda er strengjahljóðfæri með innbyggðum ljósabúnaði sem stýrist af því hvernig leikið er á hljóðfærið. Lilja María hlaut styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna sumarið 2016 til að þróa hljóð- og ljósskúlptúrinn Huldu undir handleiðslu Berglindar Maríu og Jóns Marinós Jónssonar, fiðlusmiðs. Verkefnið var tilnefnt til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands. Þegar leikið er á hljóðfærið fyllist rýmið umhverfis Huldu af hljóðum, munstrum og litum sem eru á stöðugri breytingu.
 
Hljóðfærið Lokkur er sett saman úr gömlum rokk og langspili og smíðað af Berglindi í félagi við Jón Marinó Jónsson og Auði Alfífu Ketilsdóttur. Útgangspunkturinn var að búa til ímyndað sögulegt hljóðfæri og ljá því sögusviðið Nýja-Ísland í Norður-Ameríku einhvern tímann snemma á 20. öldinni.