Verkið dregur nafn sitt af samnefndu ljóði eftir bróður Rögnvaldar, Þorvald S. Helgason, og ber það heitið þar sem tíminn dvelur. Verkið er samið fyrir fjögur tréblásturshljóðfæri og fjórar raddir; flautu, óbó, klarinett, fagott, tvær sóprönur, mezzósópran og bassa. Það sem þessi hljóðfæri eiga sameiginlegt með söngvurunum er að þeim er stjórnað með öndun og loftstraumi. Rögnvaldur vildi leggja áherslu á það í verkinu og lét því línur og lengd tóna stjórnast af eðlilegum andardrætti auk þess að hafa styrkleikabreytingar náttúrulegar með tilliti til andardráttar. Einnig reynir Rögnvaldur að vinna með mörk hljóðfæra og radda og kanna snertifleti þeirra.

Flytjendur
Sópran: Sandra Lind Þorsteinsdóttir
Sópran: Silja Garðarsdóttir
Mezzósópran: Hildigunnur Einarsdóttir
Bassi: Bjarmi Hreinsson
Flauta: Sigríður Hjördís Indriðadóttir
Óbó og enskt horn: Össur Ingi Jónsson
Klarinett: Reuben Satoru Fenemore
Fagott: Sigríður Kristjánsdóttir
Stjórnandi: Guðni Franzson

Rögnvaldur hefur verið umkringdur tónlist frá barnsaldri og hóf hann snemma píanónám hjá Þórhildi Björnsdóttur og síðar nam hann við Tónlistarskólann í Reykjavík hjá Marteini Hunger en fór svo aftur til Þórhildar og lauk 5. stigsprófi áður en hann hætti. Einnig lærði Rögnvaldur á alt horn til skamms tíma og spilaði með Skólahljómsveit Grafarvogs.

Árið 2013 hóf Rögnvaldur söngnám við Söngskólann í Reykjavík og lauk hann þar grunnprófi á einu ári. Þaðan lá leiðin í Listaháskóla Íslands þar sem Rögnvaldur hóf tónsmíðanám árið 2014, fyrst undir handleiðslu Hildigunnar Rúnarsdóttur, síðar Hróðmars Inga Sigurbjörnssonar auk þess sem hann sótti tíma hjá Atla Ingólfssyni síðustu önnina.

Rögnvaldur hefur sungið í fjölda kóra og má þar nefna Kór Langholtskirkju, Dómkórinn, hina ýmsu kóra og sönghópa innan Listaháskólans og Hljómeyki. Rögnvaldur hefur einnig lært á óbó samhliða tónsmíðanámi sínu hjá Matthíasi Nardeau og stefnir á að taka grunnpróf í vor frá Tónlistarskólanum í Reykjavík.