Alessandro Cernuzzi

Útskriftarhátið LHI – vor 2017

-Salurinn í Kópavogi, 10/05/2017, kl. 18:00

-Helga Bryndís Magnúsdóttir, píanó.

Kór LHI.

Listaháskólinn og Salurinn, Kópavogi eru í samstarfi vegna Tónleikaraðar Útskriftarhátíðar Listaháskólans og fara fjöldinn allur af tónleikum fram þar.
 

Alessandro Cernuzzi fæddist 1980 í bænum Cantú á norður Ítalíu. Bærinn er rétt hjá borginni Como, á milli Ítalíu og Sviss. Á unglingsárunum kom ástríða hans fyrir tónlist fram. Alessandro byrjaði þá fljótt að læra á gítar og spilaði í nokkrum rokkhljómsveitum. Árið 2006 ákvað hann að flytja til Íslands. Nokkru áður hafði hann heillast af landi og þjóð á ferðalagi sínum um Ísland, og ákvað að slá til í leit sinni að nýjum upplifunum og hugmyndum. Á meðan hann starfaði sem kokkur á hinum ýmsu ágætu veitingastöðum reyndi hann aftur fyrir sér á sviði tónlistar. Í Söngskóla Reykjavíkur hóf hann nám í klassískri tónlist hjá Má Magnússyni og uppgvötaði þar brennandi áhuga sinn á óperunni. Árið 2008 kynntist hann Kristjáni Jóhannssyni tenór og flutti sig um set til Söngskóla Sigurðar Demetz til að læra hjá honum. Þar öðlaðist hann góða reynslu og þekkingu á klassíska og rómantíska tímabilinu, og þá sérstaklega á ítalskri repertoire. Árið 2014, eftir að hafa tekið ákvörðun um hvort að hann ætti að klára kokkanámið eða snúa sér alfarið að tónlistarnámi sínu, ákvað Alessandro að sækja um í LHÍ. Hann byrjaði að læra söng undir stjórn og kennslu Þóru Einarsdóttur, Kristins Sigmundssonar og Ólafar Kolbrúnar Harðardóttur. Einnig hefur hann reynt fyrir sér í tónsmíði undir leiðsögn Páls Ragnars Pálssonar. Í LHÍ einbeitti Alessandro sér að þýskri og franskri repertoire sem og Kammer tónlist. Sama ár fékk hann tækifæri til að taka þátt í uppfærslu Íslensku Óperunnar á Don Carlos eftir Verdi og tók hann þátt í uppfærslunni á Peter Grimes eftir Benjamin Britten árið 2015 sem meðlimur í óperukórnum. Ásamt því að sinna tónlistinni í lífi og námi, eignaðist Alessandro sitt fyrsta barn í október 2015 en hann mun halda áfram námi sínu og læra til masters við LHÍ í óperusöng og tónsmíði.