Allfá eru þau verkin sem samin eru fyrir gítar, tvær fiðlur, víólu og selló, hljóðfærasamsetning sem nefnist einnig „gítarkvintett“; tónlistarsagan ber vott um níu gítarkvintetta eftir Luigi Boccherini og aðeins einn eftir Mauro Giuliani, þó einhverja aðra væri hægt að nefna.
Það ætti alls ekki að túlka sjaldgæfni formsins sem vitnisburð fyrir ófegurð þess, þvert á móti hefur það upp á marga sérstaka liti að bjóða. Í útskriftarverkinu verður kafað inn í tímavídd tónlistarinnar og kannað hugtakið um púls frá mismunandi sjónarhornum. 

Sjálflærður framan af, Gylfi steig sín fyrstu skref í tónlist fimmtán ára þegar hann byrjaði að spila á gamlan klassískan gítar sem rataði inn á heimilið. 

Þar sem tónlistaráhugi hans lá nær eingöngu í rokkinu og metalnum leið ekki langur tími þar til hann eignaðist sinn fyrsta rafmagnsgítar. Það að einungis spila tónlist nægði honum ekki en hann fór strax að semja eigið efni í forritinu Guitar Pro sem hann notaði til að læra lög. 
Áhugi hans á klassískri músík hófst skyndilega þegar hann heyrði strengjakvartetta Béla Bartók og síðan þá hefur hann verið í hvíldarlausri leit að öllum leyndardómum tónlistarinnar. 

Hann kenndi sér hljómfræði með hjálp kennslubókinni hans Arnold Schönberg og þjálfaði sig í tónheyrn með því að lesa yfir allar raddir í Bach kórölum. 

Haustið 2014 hóf Gylfi tónsmíðanám hjá Atla Ingólfssyni sem hefur verið kennari hans í gegnum alla skólagönguna. Sömu önn byrjaði hann í hálfu víólunámi hjá Svövu Bernharðsdóttur og þreytti grunnpróf í víóluleik vorið 2016. 

Gylfi hefurtekið þátt í margs konar verkefnum utan skóla en þar má nefna reglulega þáttöku í sinfóníuhljómsveitum auk fjölbreytts kórstarfs. 

Flytjendur og stjórnandi:
Óskar Magnússon – gítar
Sólrún Ylfa Ingimarsdóttir – fiðla
Agnes Eyja Gunnarsdóttir – fiðla
Steina Kristín Ingólfsdóttir – víóla
Þórdís Gerður Jónsdóttir – selló
Guðni Franzson – stjórnandi