Kórsöngur hefur verið rauði þráðurinn í lífi mínu og við þennan rauða þráð hafa spunnist aðrir þræðir tónlistarinnar sem í dag er vefur tónlistarlegrar tilvistar minnar. Í þessu ljósi legg ég grundvöll að lokaverkefni mínu. Ég kaus að vinna með ungum og upprennandi söngkonum að nýjum útsetningum fyrir raddir með sköpunarkraft og tónheyrn að vopni. Ferlið hef ég þróað í gegnum vinnu mína með Kvennakórnum Kötlu og samstýru minni þar, Lilju Dögg Gunnarsdóttur. Að útsetja í gegnum spuna á skapandi hátt er aðferð sem mér finnst auka hlustun og nánd í kórastarfi og ætti heima í hvaða kór sem er.