Guðmundur Óli Norland er sannkallaður hljóðunnandi. Hann vinnur með hljóðið á sköpunarglaðan hátt og kannar eiginleika þess í tónsköpun sinni. Guðmundur hefur fengist við og kynnst tónlist meginpart ævi sinnar; stundað píanóleik og fengist við ýmis konar tónsmíðar allt frá unglingsaldri. Áferð, hljóðblöndun, hljómræna og dínamík rata inn í tónlist Guðmundar, hvort sem um hljóðfæra- eða raftónlist er að ræða. Í útskriftarverkinu hans frá tónsmíðadeild Listaháskóla Íslands verður þetta haft að leiðarljósi. Verkið blandar saman hljóðfæra- og raftónlist sem myndar fjölbreyttan og áhugaverðan hljóðheim. Það eru allir velkomnir á tónleikana, konur og karlar, börn og kettir (helst ekki hundar, nema þeir séu siðmenntaðir og ógeltandi) og leikur enginn vafi á því að allir ættu að geta notið sín á þessum áhugaverðu tónleikum.

Tónleikarnir eru hluti af Útskriftarhátíð Listaháskóla Íslands