ÞRÆÐIR - Tölublað 2 - mars 2017

Um höfunda:

 

Atli Ingólfsson

Atli Ingólfsson nam tónsmíðar í Reykjavík, Mílanó og París og bjó lengi í Bologna og starfaði við list sína.  Hann býr nú í Reykjavík, semur tónlist og kennir jafnframt hljómfræði og tónsmíðar.  Verk hans eru mörg og af öllu tagi. Atli er prófessor í tónsmíðum við LHÍ.

 

Berglind María Tómasdóttir

Berglind María Tómasdóttir er flautuleikari og tónskáld. Í verkum sínum leitast hún við að kanna sjálfsmyndir, erkitýpur og tónlist sem samfélagslegt fyrirbæri. Berglind stundaði nám í flautuleik við Tónlistarskólann í Reykjavík og Konunglega danska konservatoríið. Árið 2014 lauk hún doktorsprófi í flutningi samtímatónlistar frá Kaliforníuháskóla í San Diego. Berglind er dósent við Listaháskóla Íslands.

 

Einar Torfi Einarsson

Einar Torfi Einarsson er tónskáld og aðjúnkt við tónlistardeild Listaháskóla Íslands. Hann nam tónsmíðar í Reykjavík, Amsterdam, Graz, og lauk doktorsprófi í tónsmíðum frá háskólanum í Huddersfield undir leiðsögn Aaron Cassidy. Hann hefur einnig sótt meistaranámskeið og einkatíma hjá Salvatore Sciarrino, Brian Ferneyhough, Beat Furrer og Peter Ablinger. 2013-2014 gegndi hann rannsóknarstöðu við Orpheus Institute í Belgíu. Tónlist hans hefur verið flutt á tónlistarhátíðum um alla Evrópu og unnið til verðlauna í Hollandi og Austurríki. Undanfarið hafa verk hans lagt áherslu á tilraunakennda nótnaritun þar sem mörk tónlistar og myndlistar eru könnuð.

 

Hildigunnur Rúnarsdóttir

Hildigunnur Rúnarsdóttir stundaði nám við tónfræðadeild Tónlistarskólans í Reykjavík með tónsmíðar sem aðalgrein og lauk þaðan prófi vorið 1989. Síðan nam hún tónsmíðar, hjá Professor Günter Friedrichs í Hamborg og Svend Hvidtfelt Nielsen í Kaupmannahöfn. Hildigunnur hefur starfað mikið með ýmsum kórum, þ.á.m. sönghópnum Hljómeyki. Helstu verk eru m.a. barnaóperan Hnetu-Jón og gullgæsin, Blandaðir dansar fyrir hljómsveit, Konsert fyrir fiðlu og hljómsveit, Messa í minningu Guðbrands Þorlákssonar, fyrir kór, einsöngvara og hljómsveit (tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna árið 2003) og tónlist í heimildamyndina Veðrabrigði. Einnig liggur eftir hana fjöldi kórverka og sönglaga. Verk Hildigunnar, Syngur sumarregn, fyrir kór og sópran sóló og Andvökunótt, fyrir kór og baritón sóló hafa verið valin á geisladiska kórahátíðarinnar Europa Cantat. Hún var nýlega valin tónskáld mánaðarins hjá hinu virta kórsamfélagi Choralnet.org og fékk einnig Silver Platter Award frá Composers’ Society einnig hjá Choralnet. Hún vinnur nú að tónlist fyrir heimildamynd Ásdísar Thoroddsen um íslenska þjóðbúninginn ásamt barnaóperunni Gilitrutt. Hildigunnur starfar nú við tónsmíðar, kennslu og söng í Reykjavík ásamt því að sitja í stjórn íslenskrar tónverkamiðstöðvar

 

Lilja María Ásmundsdóttir

Lilja María Ásmundsdóttir lauk B.Mus.-prófi í píanóleik vorið 2016 frá Listaháskóla Íslands undir handleiðslu Peters Máté. Áður stundaði hún nám við Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar hjá Þórunni Huldu Guðmundsdóttur. Hún lauk framhaldsprófi þaðan vorið 2013 samhliða því að ljúka stúdentsprófi af myndlistarbraut frá Fjölbrautaskólanum í Garðabæ þar sem lokaverkefni hennar var frumgerð hljóð- og ljósskúlptúrsins Huldu. Síðasta sumar hlaut hún styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna til að þróa skúlptúrinn, en verkefnið var eitt af fimm verkefnum tilnefnt til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands. Lilja var einn af fjórum sigurvegurum í keppninni Ungir einleikarar og lék í kjölfarið einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands í janúar 2015. Haustið 2016 var Lilja í starfsnámi hjá píanistanum Sarah Nicolls í Brighton þar sem þær unnu saman að hugmyndum tengdum innsetningum og hljóðskúlptúrum.

 

Mathias Halvorsen

Mathias Halvorsen (1988-) is a Norwegian pianist, currently living in Reykjavik, Iceland. He studied with prof. Jiri Hlinka (2006-2010) in Oslo and with prof. Gerald Fauth (2011 - 2013) in Leipzig. In 2008 Mathias founded the Podium festival in Haugesund with flutist Guro Pettersen. The festival will be held for the 10th time July 2017. In 2009 he dug up the manuscript of piano concerto no. 5 by the Norwegian composer Halfdan Cleve at the National Library in Oslo and performed it with the Lithuania State Symphony and conductor Gintaras Rinkevicius. Since 2010 he has been performing concerts in complete darkness as a founding member of the critically acclaimed group LightsOut. He is also a member of the prize winning Duo Arctica with fellow pianist Joachim Carr. The last years Mathias has featured regularly alongside Peaches in the duo show Peaches Christ Superstar. The production has visited festivals such as Theater der Welt in Mannheim and Yoko Ono's Meltdown in London. He has also done several dance- and theatre pieces with director and choreographer Laurent Chetouane. One of these, the comedy 'Den Stundesløse' featured Mathias' acting debut at the National Theatre in Oslo, Norway. Recently he has performed at festivals such as Brighton Festival, Mofo (Tazmania), Everybody's Spectacular (Reykjavik), Podium Festival Esslingen, Portland Chamber Music Festival and theatres like the Münchner Kammerspiele, Onassis Cultural Centre (Athens), Queen Elizabeth Hall (Southbank Centre), Kampnagel (Hamburg) and La Commune (Paris). Mathias performs regularly in lots of weird places, doing anything from chamber music and solo concerts to more experimental multi genre stuff.

 

Svanfríður Hlín Gunnarsdóttir

Svanfríður Hlín Gunnarsdóttir hóf nám í píanóleik sex ára gömul en námið stundaði hún í Tónmenntaskóla Reykjavíkur, Tónlistarskóla Hafnarfjarðar og Nýja tónlistarskólanum. Hennar helstu kennarar voru Anna Þorgrímsdóttir, Sigurður Marteinsson, Bjarni Þór Jónatansson og Vilhelmína Ólafsdóttir. Árið 2012 hóf hún nám við Listaháskóla Íslands, þar sem hún lagði stund á tónsmíðar og skapandi tónlistarmiðlun. Aðalkennari hennar í tónsmíðunum var Hróðmar I. Sigurbjörnsson en auk tónsmíðanna sótti hún söngtíma til Ólafar Kolbrúnar Harðardóttur. Í tónsmíðanáminu lagði hún aðaláherslu á kór- og söngtónlist en sjálf hefur hún áralanga reynslu af kórsöng. Svanfríður lauk Bachelor of Arts gráðu frá Listaháskóla Íslands í janúar 2016, eftir að hafa unnið að umfangsmikilli rannsókn á þjóðlagatónsmíðum Þorkels Sigurbjörnssonar árið áður undir handleiðslu Hróðmars I. Sigurbjörnssonar. Í framhaldi af rannsókninni fluttu þau Svanfríður og Hróðmar erindið Þorkell, þjóðlögin og Þorpið: tónmál í söngtónlist Þorkels Sigurbjörnssonar á Hugarflugi, árlegri ráðstefnu Listaháskólans um rannsóknir á fræðasviði lista, í febrúar 2016.

 

Úlfar Ingi Haraldsson

Úlfar Ingi Haraldsson PhD  (f. 1966), hóf fyrst að fást við tónlist í kringum tólf ára aldurinn norður í Skagafirði. Lauk burtfararprófi í tónsmíðum og tónfræðum frá Tónlistarskólanum í Reykjavík 1990. Stundaði þvínæst framhaldsnám við University of California, San Diego á árunum 1992-99 og lauk þaðan doktorsprófi í tónsmíðum og tónfræðum árið 2000.  Úlfar hefur á liðnum áratugum starfað sem tónskáld, bassaleikari, stjórnandi og tónlistarkennari í Bandaríkjunum og á Íslandi. Eftir hann liggja um sextíu tónverk af ýmsum stærðum og gerðum sem víða hafa verið flutt bæði á Íslandi og erlendis.

 

Þráinn Hjálmarsson

Þráinn Hjálmarsson er tónskáld og stundakennari við myndlistar- og tónlistardeild Listaháskóla Íslands og við Tónlistarskólann í Reykjavík. Í tónlist sinni leitar Þráinn eftir því að beina sjónum hlustandans að fjölbreyttri og ólíkri virkni hljóðs í ljóðrænum heimi tónlistar. Tónlist Þráins hefur verið leikin víða um heim af ýmsum tilefnum af hópum og flytjendum á borð við Basel Sinfonietta (CH), BBC Scottish Symphony Orchestra (SCO), Sinfóníuhljómsveit Íslands, Uusinta ensemble (FI), Nordic Affect (IS), Athelas sinfonietta (DK), Ensemble Adapter (DE/IS), Kammersveit Reykjavíkur auk annarra. Þráinn fer með listræna stjórn tónleikaraðarinnar Hljóðön, í Hafnarborg, tónleikaröð tileinkaðri samtímatónlist, sem og listræna ráðgjöf og kórstjórn Íslenska hljóðljóðakórsins (Nýló-kórsins).

ÞRÆÐIR - TÍMARIT UM TÓNLIST

Þræðir - forsíða

Tölublað 2