Þjóðlögin og Þorkell

Meðhöndlun Þorkels Sigurbjörnssonar á íslenskum þjóðararfi í verkum sínum

Svanfríður Hlín Gunnarsdóttir

 

Íslenskt menningarlíf blómstraði seint í samanburði við menningu annarra Evrópuríkja. Ef litið er á þjóðararf okkar Íslendinga er þar helst að finna þjóðsögur, þulur, gátur, kvæði, vísur og þjóðlög. Tónlistararfurinn var þó ekki fyrirferðarmikill og heimildir um upphaf tónlistar hér á landi eru tiltölulega fáar en þær heimildir fóru oft halloka fyrir rituðum heimildum.[1] Ein af okkar helstu heimildum um íslenskt tónlistarlíf á fyrri öldum er bók Bjarna Þorsteinssonar, Íslenzk þjóðlög, en þar er að finna yfirgripsmikið safn íslenskra þjóðlaga úr ýmsum gömlum handritum auk laga sem Bjarni safnaði saman á ferðalögum sínum um sveitir landsins.

Sú tónlist sem helst mátti heyra hér á landi var sálmasöngur og harmóníumspil innan veggja kirkjunnar og rímnakveðskapur á heimilum landsmanna.[2] Tónlistin sem sjálfstætt listform fór í raun ekki að þróast fyrr en um miðja 20. öldina, þegar fjöldi tónskálda sneri heim að námi loknu og fluttu þau með sér nýja strauma og stefnur úr heimi tónlistarinnar.[3]

Eitt af þeim tónskáldum var Þorkell Sigurbjörnsson, en hann lauk meistaranámi í tónsmíðum frá háskólanum í Illinois árið 1961. Áður hafði hann stundað nám á píanó, fiðlu og orgel í Tónlistarskólanum í Reykjavík og síðar lokið grunnnámi í tónsmíðum frá Hamline háskólanum í Minnesota.[4] Þorkell var eitt af okkar afkastamestu tónskáldum en hann lét ekki síður til sín taka á sviði kennslu og starfa innan íslensks menningarlífs. Hann gegndi til að mynda formennsku samtakanna Musica Nova á árunum 1964-1967, var einn af stofnendum Íslenskrar tónverkamiðstöðvar og sat jafnframt í stjórn þar um árabil, frá 1968-1981. Þá var hann einnig um tíma formaður Tónskáldafélags Íslands og forseti Bandalags íslenskra listamanna um fjögurra ára skeið frá 1982. Þorkell starfaði einnig sem dagskrárfulltrúi hjá Ríkisútvarpinu og sá þar um dagskrárgerð í 30 ár.[5]

Árið 2015 vann greinarhöfundur að rannsókn á þjóðlagatónsmíðum Þorkels en Þorkell var eitt þeirra tónskálda sem leitaði í íslenskan þjóðararf við tónsmíðar sínar. Rannsóknin var tvíþætt, hún fólst annars vegar í því að safna saman öllum fáanlegum upplýsingum um þjóðlagatónsmíðarnar í eitt rit og hinsvegar að greina þau söng- og kórverk Þorkels sem innihalda þjóðlög, þjóðkvæði og þjóðvísur. Rannsóknarspurningarnar sem undirrituð lagði upp með voru: Hvað er þjóðlag, hvernig verða þjóðlög íslensk og hafa íslensk þjóðlög einhver séreinkenni? Einnig velti ég því fyrir mér hversu margar þjóðlagatónsmíðar Þorkels væru og hvort finna mætti ákveðið „þjóðlagatímabil“ á ferli Þorkels eða hvort þjóðlagatónsmíðarnar dreifðust jafnt yfir feril hans?

Afrakstur rannsóknarinnar var yfirgripsmikið uppflettirit um meðhöndlun Þorkels á íslenskum þjóðararfi í tónsmíðum sínum en í ritinu má meðal annars finna allar helstu upplýsingar um þjóðlagatónsmíðar Þorkels og þau þjóðlög, þjóðkvæði og þjóðvísur sem þær byggja á, auk greiningar á hverju verki fyrir sig. Ritið skiptist í tvennt, annars vegar í flokkun og yfirlit yfir það hvernig Þorkell fléttaði þjóðararfinn inn í tónsmíðar sínar og hins vegar í greiningar verkanna. Í viðauka greinarinnar er að finna bæði yfirlit og tölulegar samantektir um allar þjóðlagatónsmíðar Þorkels, auk lista yfir þau þjóðlög, þjóðkvæði og –vísur sem koma fyrir í söng- og kórverkum hans. Einnig er þar að finna samantekt um tileinkanir og tilefni tilurðar söng- og kórverkanna. Ekki verður fjallað um greiningar verkanna að þessu sinni vegna umfangs.

Í grein þessari verður fjallað um tónlist, tónsköpun, hugmyndafræði og hugarfar Þorkels og tengingu hans við flytjendur. Þá verður einnig fjallað um upphaf sönglistar og þjóðlagasöfnunar Íslendinga með sérstaka áherslu á framlag Bjarna Þorsteinssonar, en bók hans Íslenzk þjóðlög var ein af aðalheimildunum við rannsóknina auk gagnagrunnanna með verkum Þorkels sem nemendahópar innan Listaháskólans unnu á árunum 2013 og 2014. Við rannsóknina hlotnuðust mér öll þau svör sem þörf var á og mun ég leitast eftir því að gera þeim góð skil hér á eftir með umfjöllun um íslensk þjóðlög og upphaf þjóðlagasöfnunar á Íslandi, framlag Bjarna Þorsteinssonar og tengingu Þorkels við þjóðlögin.

 

I. Þjóðlög og þjóðlagasöfnun á Íslandi

I.I. Almennt um þjóðlög

Þegar talað er um þjóðlög er átt við höfundarlaus lög sem varðveist hafa í munnlegri geymd, oft við mismunandi texta og í mismunandi útgáfum eftir landsvæðum.[6] Þjóðlögin hljómuðu helst í sveitum landa en um tíma stóð tilurð þeirra mikil ógn af þéttbýlismyndun vestræns samfélags.[7] Því gerðist það á 19. öld og fyrri hluta 20. aldarinnar, að víða var ráðist í það verkefni að safna saman þjóðlögum hvers lands fyrir sig. Tónskáldin tóku síðar að flétta þjóðlög síns lands í auknum mæli inn í tónsmíðar sínar en með þekktustu dæmunum um slíkt eru líklegast þeir Bartók, Tchaikovsky, Haydn, Grieg og Vaughan Williams, svo fáeinir séu nefndir.[8] Á þessu voru íslensku tónskáldin engin undantekning.  

 

I.II. Þjóðlagasöfnun á Íslandi

Þjóðlagasöfnun Íslendinga fór seint af stað miðað við söfnun annarra þjóða í hinum vestræna heimi. Lengst af var lögð meiri áhersla á ritaðar heimildir hér á landi og var þá tónlistararfinum gefinn lítill gaumur. Það jákvæða við það hve aftarlega Ísland var á merinni í tónlistarþroska er meðal annars það að þau lög sem varðveist hafa frá 19. öld eru í raun með sama sniði og þau voru fyrr á öldum, enda stóð tónlistin í stað öld eftir öld.[9] Langur tími leið frá því að skáldin og menntamenn landsins viðurkenndu mikilvægi þjóðsagna, þjóðkvæða og slíkra heimilda fyrir íslenskan þjóðararf, þar til að verðmæti þjóðlaganna var viðurkennt á meðal íslenskra tónskálda og söngvara.[10] Bjarni Þorsteinsson fjallaði svo um meðhöndlun erlendra tónskálda á þjóðlögunum:

En nú eru menn þó farnir að sjá það í öðrum löndum, hvílík uppspretta fyrir tónskáldin er fólgin einmitt í þjóðlögunum; og þar þykir það nú orðið kostur á sjerhverri lagsmíð, smárri sem stórri, að hún sje byggð á þjóðlegum grundvelli; ekki þannig, að tekin sjeu heil eða hálf þjóðlög, eða minni hlutar þeirri, og fljettaðir inn í hin nýju söngverk; ekki þannig, að eitt þjóðlag sje tekið, því vikið dálítið við, og búið til úr því nýtt þjóðlag; ekki þannig, að maður þekki neitt ákveðið þjóðlag í hinu nýja söngverki; - heldur þannig, að hið nýja söngverk hafi á sjer reglulega þjóðlegan blæ, að tónskáldið hafi „lifað sig inn“ í anda þjóðlaganna, og einmitt fyrir það geti látið hið nýja söngverk sverja sig í ættina til síns eigin föðurlands og sinnar eigin þjóðar.[11]

Með aukinni notkun tónskáldanna tóku þjóðlögin að þróast. Minni fólks er brigðult og áttu því lögin það til að breytast í takt við frekari útbreiðslu. Þá hafa tónlistariðkendurnir fyllt í eyðurnar og lögin þannig þróast. Stundum skipti fólk út textum fyrir aðra sem til dæmis hentuðu betur fyrir ákveðið tilefni. Allar þessar breytingar gera lögin að eign þjóðarinnar. Sama segir um ýmsar þjóðsögur og þjóðkvæði sem hingað bárust fyrr á öldum og orðið hafa íslensk í áranna rás en gott dæmi um þetta er kvæðið um Ólaf liljurós og Ásukvæði, svo eitthvað sé nefnt, en þau bárust að Íslandsströndum um aldamót 12. og 13. aldarinnar.[12]

Það verður að teljast furðulegt hversu fá íslensk þjóðlög Íslendingar eiga í samanburði við hinar fjölmörgu þulur, þjóðsögur, gátur og þess háttar. Hugsanlega er skýringuna að finna í því hversu fá íslensku þjóðkvæðin eru en í nágrannalöndum okkar hafa þau einkum verið efniviður þjóðlaganna.[13] Hér á landi voru rímur ein helsta kveðskapargreinin allt frá 14. öld og fram til aldamótanna 1900. Fáar heimildir kveða á um upphaflegar flutningshefðir rímnanna en vísbendingar úr gömlum rímum gefa í skyn að þær hafi verið kveðnar fyrir dansi.[14] Rímnalögin eru stór partur af þjóðlagasafni Íslendinga en í bók Bjarna Þorsteinssonar, Íslenzk þjóðlög, er að finna á þriðja hundrað rímnalög. Það má í raun líta svo á að ferskeytlur og rímur okkar Íslendinga hafi komið í stað þjóðkvæðanna sem megin efniviður þjóðlaganna og rímnalögin því okkar helstu þjóðlög á ákveðinn hátt.

Samkvæmt safni Ólafs Davíðssonar, Íslenzkar Skemtanir, kveða heimildir á um að íslensk þjóðlög hafi fyrst verið prentuð í bókinni Essai sur la Musique sem gefin var út í París árið 1780. Þar er að finna fimm íslensk þjóðlög, þar á meðal erindi úr kvæðinu Lilju eftir Eystein Ásgrímsson. Í bók A.P. Berggreen, Danske Folke-Sange og Melodier, samlede og udsatte for Pianoforte, sem kom út árið 1860 er einnig að finna nokkur íslensk þjóðlög, sem dæmi tvö lög við Ólafur reið með björgum fram.[15] Sá sem lét hvað mest til sín taka í söfnun þjóðlaga á Íslandi var séra Bjarni Þorsteinsson.

 

I.III. Starf Bjarna Þorsteinssonar

Bjarni Þorsteinsson var fæddur þann 14. október árið 1861 á bænum Mel í Hraunhrepp í Mýrasýslu. Tónlistin heillaði hann frá unga aldri og aðeins 19 ára gamall hóf hann að skrifa niður þau þjóðlög sem hann þekkti. Árið 1888 gerðist Bjarni prestur í Siglufirði og komst í kjölfarið í kynni við nokkra menn úr nærliggjandi dölum og fjörðum, sem voru vel að sér í sönglist þjóðarinnar. Hvert sem Bjarni kom lagði hann sig fram við að fanga allt það efni sem tengdist þjóðlögunum og því fór safn hans ört stækkandi. Þegar bókin Íslenzkar skemtanir eftir Ólaf Davíðsson kom út áttaði Bjarni sig á því að á bókasöfnum erlendis væri að finna mikið safn nótna, á gömlum íslenskum skinn- og pappírshandritum, sem enginn hafði rannsakað til hlítar. Þetta varð honum hvatning til verksins og sótti hann um styrk til Alþingis til að halda áfram þjóðlagasöfnun hér á landi, sem og að ferðast til Kaupmannahafnar til að leggjast yfir handritin. Hann hlaut styrkinn og hófst þannig formleg þjóðlagasöfnun Bjarna Þorsteinssonar.[16]

Bjarni ferðaðist tvívegis út fyrir landsteinana í þeim tilgangi að rannsaka lögin í íslensku handritunum, annars vegar til Kaupmannahafnar og hins vegar til Stokkhólms.[17] Auk þess að safna elstu lögunum úr handritunum safnaði Bjarni einnig lögum úr prentuðum bókum, lögum sem hann sjálfur nóteraði eða fékk nóteruð eftir minni fólks og eru þau lög líklegast yngst.[18] Safn Bjarna hefur því að geyma einradda lög, tvísöngva, Passíusálmalög og ritgjörð um íslenskan rímnakveðskap, svo eitthvað sé nefnt.[19]

Þegar leið að útgáfu safnsins var skipuð þriggja manna nefnd af Reykjavíkurdeild Hins íslenzka bókmentafélags sem skildi rannsaka handritið og kveða á um útgáfu þess. Handritið hlaut mikið lof af hendi tveggja nefndarmanna en þeim þriðja, Birni kaupmanni Kristjánssyni, þótti ekki mikið til þess koma og var hann ákaflega mótfallinn því að gefa út bækur af slíkri stærðargráðu.

Þeir kaflar, sem eru sögulegs efnis, en ekki nótur, álít jeg að sjeu vel þess verðir, að þeir birtist á prenti sem nokkurs konar saga sönglistarinnar hjer á landi, og með líku sniði og slíkar sögur eru út gefnar í öðrum löndum. (...) En jeg óttast að þeir sögulegu kaflar í þessu handriti, sem jeg tel nytsamlega og fróðlega, yfirsjáist lesandanum, ef þeir eru í sambandi við allar nóturnar, sem jeg get ekki sjeð að nokkur maður á þessu hafi landi [svo] gagn af, því að þær geta tæplega verið fyrirmynd fyrir væntanlegu lagsmíði nje heldur sýnt sögulega, hvernig tilfinning og smekkur manna fyrir söng hefur verið hjer á landi [. . .].[20]

Þrátt fyrir andúð Björns kaupmanns samþykkti Reykjavíkurdeildin að lokum útgáfu handritsins, þó þeim skilyrðum háð að nægilegur styrkur fengist fyrir prentun þess og jafnframt að Bjarni fengi ekkert fyrir sinn snúð. Erfiðlega gekk að finna styrki og að endingu fór það svo að Bjarni leitaði á náðir Carlsbergssjóðsins í Kaupmannahöfn, sem síðan fjármagnaði prentun handritsins, sem prentað var á árunum 1906-1909.[21]

 

II. Íslensk þjóðlög

II.I. Íslensk þjóðlög – Skilgreining

Oft er vandasamt að skilgreina hvað það er sem gerir þjóðlag að eign þjóðarinnar en í bók sinni Íslenzk þjóðlög ritaði Bjarni eftirfarandi:

Þegar talað er um þjóðlög einhverrar þjóðar, er með því átt bæði við þau lög, sem að öllu leyti hafa myndazt hjá þjóðinni, án þess nokkur geti bent á stund eða stað, er lagið hafi myndazt, og einnig þau lög, sem þjóðin hefur algerlega gert að sinni eign, með því að hafa þau lengi og iðuglega um hönd og setja á þau sinn einkennilega blæ, jafnvel þótt lögin sjeu upprunalega utan að komin.

Mörg þjóðlög hafa verið ákaflega lengi að myndast, og hafa tekið margskonar breytingum; en aptur hafa sum þeirra myndazt á skömmum tíma og svo lítið breytzt úr því. Sumum lögum er miklu hættara við því en öðrum, að taka sífelldum breytingum, löngum og erfiðum lögum miklu hættara við því en stuttum og ljettum lögum.[22]

Í þjóðlagasafni Bjarna er einmitt að finna mörg lög sem eiga rætur sínar að rekja í erlenda grund en hafa borist yfir hafið með stækkandi þjóð og orðið partur af þjóðararfi hennar. Lögin hafa þannig þróast með þjóðinni, oft yfir langan tíma, og jafnframt fengið á sig einkennandi innlend snið úr munni þjóðarinnar.[23] Bjarni leit svo á að þrátt fyrir að sum upphaflegu lögin fyrirfinndust enn í erlendum bókum á meðan önnur hefðu glatast í aldanna rás, hefðu þau tekið slíkum breytingum að þau ættu orðið jafnan rétt á við þjóðsögurnar, þulurnar og fornkvæðin á að teljast íslensk.[24]

 

II.II. Innihald og einkenni íslenskra þjóðlaga

Mynd 1: Þjóðlagið Ó, mín flaskan fríða!

Trúarlegir textar hafa verið samtvinnaðir tónlist þjóðarinnar frá upphafi en ríflega helmingur alls þjóðarskáldskapar Íslendinga er sálmar og trúarleg kvæði. Sama segir um íslensku þjóðlögin. Flest eru þau sveipuð þungum, alvarlegum blæ, sem samkvæmt Bjarna Þorsteinssyni bar keim af skapferli þjóðarinnar, enda eru þau „að vissu leyti sem hold af hennar holdi og bein af hennar beinum.“[25] Jafnvel ástar- og drykkjuvísum fyrri alda svipa helst til hæglátra sálmalaga, svo sem lýdíska lagið Ó, mín flaskan fríða! sem sjá má á mynd 1, hér að ofan.[26] 

Þrátt fyrir að bera einkennandi stíl hver sinnar þjóðar eiga þjóðlögin það sameiginlegt að flest eru þau í kirkjutóntegundum.[27] Einnig voru þau upprunalega í óreglulegum takti, ef nokkrum yfir höfuð, sem fræðimenn hafa með tímanum reynt að fanga í fast form tónfræðinnar.[28] Einkenni þessi orsakast mögulega af því að alþýðan sem hvað helst setti sitt mark á þjóðlögin, þekkti ekki til fræðanna eða kaus frelsið fram yfir fræðin. Þá má einnig kenna vanþróuðum hljóðfærakosti um það hversu fá af þjóðlögum okkar eru í moll en það var til dæmis ekki hægt að spila hálftónsbil á langspil og fiðlur íslensku alþýðunnar. Því var ekki úr öðru að velja en að skipta út þeim tónum sem ekki náðist að spila og þannig breyttist margur hver mollinn í annað hvort dúr, lýdíska tóntegund eða í einhverja af hinum kirkjutóntegundunum.[29] Söngvararnir hafa svo fylgt hljóðfærunum að og lögin þannig aðlagast þjóðfélagi voru.

 

II.III. Íslensk sönglist

Það leikur enginn vafi á því að af sönglist okkar Íslendinga er tvísöngurinn þjóðlegasti parturinn. Íslenskur almúgi söng tvísöng við öll viðeigandi tækifæri, svo sem í veislum og á mannamótum, þrátt fyrir takmarkaða söngþekkingu.[30] Frá því að fyrst voru prentaðar íslenskar nótur árið 1589 tók sönglist þjóðarinnar miklum framförum. Fram yfir miðja 19. öldina voru hér hvorki til tónfræðirit né nótur af veraldlegri tónlist. Það sem helst mátti heyra sungið framan af var Grallarasöngurinn svokallaði, hinn lúterski kirkjusöngur, en fram fleygði þekkingunni og undir lok 19. aldarinnar áttu Íslendingar orðið þrjú tónfræðihefti og sex söngheft. Þá leit Ólafur Davíðsson björtum augum til framtíðar er hann ritaði: „Ef saungþekkíngu fleygir eins mikið fram framvegis og henni hefur fleygt fram seinustu 40 árin, þá rekur að því að Íslendíngar geta skipað sæti það á saungmannabekk annara þjóða, sem hljóð þeirra heimila þeim.“[31] Ekki voru allir jafn bjartsýnir og Ólafur Davíðsson en Magnús Stephensen, landshöfðingi, leit svo á að Íslendingar syngju ekkert nema „rammskökk“ sálmalög eða rímnalög og var honum sérstaklega illa við tvísöngshefð samlanda sinna.[32]

Að undanskildum tvísöngnum og þjóðlögunum var lítið um veraldlega tónlist hér á landi allt fram á 19. öld. Líklegast hafa vikivakakvæðin verið sungin á árum áður en lög þeirra féllu þó langflest í gleymsku. Af gömlu handritunum er helst að líta til Melodiu ef finna á veraldleg lög.[33]

 

III. Þorkell: Tónlist og tónsköpun

III.I. Tónskáldið Þorkell - Starfsumhverfið

Tónlistarsenan á Íslandi er töluvert yngri en á meginlandi Evrópu og íslenska þjóðin er fámenn. Sem dæmi væri erfitt fyrir hljómsveit eins og Sinfóníuhljómsveit Íslands að flytja sömu verkin aftur og aftur fyrir sama hlustendahópinn, sem líklegast færi þá ört smækkandi. Meðaljónarnir gegna því mikilvægu hlutverki í tónlistarlífinu hér á landi. Ef tónskáld vilja gera listina að sínu lifibrauð þá þýðir lítið að ætla að sérhæfa sig og semja aðeins tónlist í ákveðnum stíl til flutnings af fagmönnum, á ákveðnu sviði. Þess vegna hafa tónskáld landsins samið mikið af tónlist fyrir leikhúsin, kammerhópa af ýmsum toga og bæði atvinnu- og áhugamannakóra. Aðeins lítið brot af þeirri tónlist sem verður til hérlendis er samin með það sem markmið að endast um ár og aldir.[34]

Þorkell var mjög meðvitaður um sitt starfsumhverfi og í raun má segja að það sem fyrst og fremst einkenndi tónskáldið Þorkel var hagkvæmnin. Hann samdi gríðarlega mikið af tónlist og í safni hans liggja tónsmíðar í flestum flokkum vestrænnar tónlistar. Einu verkaflokkarnir sem hann skildi eftir auða voru óperur, sinfóníur og óratóríur af stærri gerð.[35] Einna helst samdi hann verk fyrir smærri hópa, kammerhópa og kóra, oft til flutnings við helgihald innan kirkjunnar. Stór hluti af verkum hans var saminn á stuttum tíma, af ákveðnu tilefni með ákveðna flytjendur í huga. Hann samdi þó líka stærri og flóknari verk, sem voru þá frekar ætluð til endurtekningar.[36]

Eins og áður sagði þá einkenndust tónsmíðar Þorkels af hagkvæmni. Hann samdi tónlist fyrir vini og samferðafólk og oft var hann sjálfur einn af flytjendunum. Einnig hafði hann mikinn áhuga á söng- og kórtónlist.[37]

    

III.II. Tónsköpun Þorkels – Hugarfar

Þorkell var mjög afkastamikill og átti auðvelt með að semja. Hans vinnulag var þannig að hann settist niður og hófst handa við að semja, án þess að ætla að semja meistaraverk.[38]

Mér finnst óþarfi að veita hverju verki fyrir sig of mikla athygli. Fyrir mig er það jafn mikilvægt að semja og að borða. Það er gott að fá góðan mat, en ég borða líka venjulegan mat. Ég hef samið ansi mikið af tónlist og mikið af henni er ekkert svo góð. En ég hef litlar áhyggjur af tónsmíðunum mínum. Ég sem mest megnis aðeins fyrir fólk sem ég þekki, fyrir einleikara sem ég vinn með, fyrir ákveðin tilefni og samhengi.[39]

Þetta hugarfar var gegnumgangandi í tónsmíðum Þorkels. Í stað þess að einbeita sér að stöðugri þróun framvindunnar þá reyndi hann að hugsa um upphaflegu hugmyndina, heildarmynd verksins og stemninguna. Það eina sem hann forðaðist var að endurtaka sig. Tjáningin skipti hann miklu máli og hver nóta þurfti að þjóna sínum tilgangi. Tónlistin varð að kveikja tilhlökkun og ef að stemningin átti að vera sorgleg þá varð hann að finna djúpa lægð í tónunum.[40] Oftast var hann þó bjartsýnn og það skein í gegnum tónlistina. Léttleikinn í verkum Þorkels ber með sér ákveðna lífsgleði, glettni og geislandi tjáningu sem virðist vera tilgangur tónlistar hans, hvort sem um ræðir tjáningu á gleði eða sorg.[41] Tónlistarfræðingurinn Árni Heimir Ingólfsson lýsti tónlist og tónsköpun Þorkels svo listavel í bæklingnum með hljómdiskinum Leikar að engu er við það að bæta:

Höfundurinn leikur sér af alúð með tónana sem hann velur sér, sem eru iðulega frekar færri en fleiri. Stefin eru stutt og afmörkuð, en búa yfir ótal möguleikum. Tónsmíðakerfi Þorkels er lógískt en ekki niðurnjörfað. Uppistöðuna mynda endurteknir stefjabútar sem breyta sífellt um svip eftir því sem tónarnir færast hærra eða lægra, eftir því hvort nýjir hljómar eru kynntir til sögunnar eða ný hljóðfæri; svo má líka snúa öllu á hvolf og byrja leikinn upp á nýtt.[42]

 

III.III. Tónsköpun Þorkels – Hugmyndafræði

Sjálfur sagðist Þorkell aldrei hafa fylgt neinni ákveðinni stefnu innan tónlistarinnar heldur látið forvitnina ráða og hlustað með opnum huga á alls kyns tónlist, þar á meðal etníska tónlist frá bæði Indlandi og Afríku, svo fátt eitt sé nefnt.[43] Hann var duglegur að sækja tónleika og kynna sér tónlist úr ýmsum áttum, hvort sem honum líkaði hún eður ei. 

Það var svo í kringum árið 1970 sem Þorkell fékk áhuga á hugmyndafræði hins bandaríska Buckminster Fuller, um að gera meira við minna. Fuller hafði haldið fyrirlestra við Háskóla Íslands og Þorkell hafði einnig lesið nokkrar af bókum hans.[44] Sama ár var efnt til tónsmíðakeppni fyrir stofnhátíð Listahátíðar í Reykjavík. Kallað var eftir hátíðarforleik sem fluttur yrði af Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn Bohdan Wodiczko á opnunarhátíðinni. Það var einmitt Wodiczko sem hvatti Þorkel til þátttöku í keppninni og fór svo að hann ákvað að slá til, þrátt fyrir töluverðar efasemdir um vinningslíkur sínar. Síðan fékk hann hugmynd úr fræðum Fullers og úr varð efnilegur hátíðarforleikur sem tók vinninginn. Síðar var haft eftir finnskum stjórnanda um verkið að það væri slíkt að manni liði eins og maður gæti ekki breytt stakri nótu, allt væri á sínum stað.[45] Þessi hugmyndafræði varð síðan mjög einkennandi fyrir tónsmíðar Þorkels, þar sem hann bjó til stærri form úr litlum efniviði, jafnvel bara úr örfáum nótum.[46]

Nálgun Þorkels í tónsmíðunum var mjög afmörkuð og oft fær maður tilfinningu fyrir því að allt sé nákvæmlega á sínum stað. Í tónlist sinni vann Þorkell mikið með oktatóníska samhverfa tónstigann (Forte: 8-28, 0134679A) og hans undirmengi og segja má að það sé eitt af megin einkennunum í hans tónsmíðum. Önnur einkenni eru þrástefjahugsunin, sem aldrei er langt undan í bæði kammer- og söngverkum hans, sem og rytmaleikir með texta kórverkanna.

 

III.IV. Tónlist Þorkels – Náttúruleg, guðdómleg og manneskjuleg músík

Árið 1970 samdi Þorkell verkið Kisum, fyrir klarínett, víólu og píanó. Heiti verksins er orðið „musik“ aftur á bak og fjallar verkið um tónlist frá ólíkum sjónarhornum, ef svo má segja. Verkið skiptist í þrjá kafla sem bera titlana Náttúruleg músík, Guðdómleg músík og Manneskjuleg músík. Fyrsti kaflinn er eftirlíking náttúruhljóða og þar sækir tónskáldið innblástur í íslenska náttúru. Annar hlutinn er afstrakt tónlist með trúarlega tengingu. Sá þriðji er svo manneskjuleg tónlist þar sem tónskáldið sækir innblástur í mannlegar tilfinningar, svo sem kátínu, glens, angurværð og einmanaleika.[47]

Þessa kaflaskiptingu má í raun heimfæra á alla tónlist Þorkels, eins og Göran Bergendal gerði í bók sinni New Music in Iceland. Minnstur yrði flokkurinn Náttúruleg músík en til hans myndu þó teljast verkin Haflög (1978) og Mistur (1972), svo fátt eitt sé nefnt. Flokkurinn Guðdómleg músík yrði töluvert umfangsmeiri en þar mætti finna til dæmis afstrakt verkin Flökt (1963), Ymur (1969), Diaphonia (1984) og Ríma (1977). Langstærstur væri flokkurinn Manneskjuleg músík, en til hans teljast til dæmis flest af söng- og kórverkum Þorkels.[48]

Flokkurinn Manneskjuleg músík spannar stærstan partinn af tónsmíðum Þorkels en til hans telst öll hans tónlist sem hefur trúarlega tengingu, svo sem sálmar og verk við Biblíutexta, og sú tónlist sem byggð er á þjóðlagaarfinum.[49]

Þorkell sótti oft innblástur í trúarlega texta og þrátt fyrir að vera ekki strangtrúaður þá heilluðu textarnir hann. Oft fékk hann þá tilfinningu að syngja ætti textana, frekar en að lesa þá og hófst hann þá handa við að gefa textunum hljóm.[50] Til marks um þetta eru fjöldamargir sálmar sem Þorkell samdi fyrir sálmabók íslensku kirkjunnar, þrátt fyrir að eiga sjálfur erfitt með að staðfesta sína eigin trú.

Ég efast ekki um að Guð sé til – hvað sem það nú þýðir – einhvers konar kraftur sem við höfum enga stjórn á og sem við munum aldrei skilja. Hvort að það er DNA eða eitthvað, það veit ég ekki. En kraftinn má lofsyngja. Það má kalla hann Guð, af hverju ekki? Hinsvegar, þá myndi ég ekki vilja standa upp og játa trú mína. Trúin mín er svo veik og ómerkileg. Ég gæti aldrei verið prestur. Ég hef ekki styrkinn til þess.[51]

 

III.V. Manneskjuleg músík – Söng- og kórtónlist Þorkels

Eins og áður sagði þá hafði Þorkell mikinn áhuga á söng- og kórtónlist. Í gagnagrunni kórverka, sem varð til árið 2014, er að finna yfirgripsmikið safn upplýsinga um kórverk Þorkels. Árið 2014 voru þar skráð 140 kórverk, þar af voru 103 frumtónsmíðar, 11 sálmaútsetningar og 16 frumsamdir sálmar, auk 10 annarra útsetninga sem flestar innihalda þjóðlög. Af 140 verkum voru 98 fyrir blandaðan kór, 8 fyrir karlakór og 34 fyrir barna- eða kvennakór. Meira hluti verkanna, 108 verk, eru án undirleiks en 32 verk voru samin fyrir kór og hljóðfæri.[52] 

Mikið af kórtónlist Þorkels var samin fyrir áhugamenn og við nánari athugun á verkum hans má sjá að hann leyfði sér meira við tónsmíðar sínar fyrir atvinnumenn, þar sem tónmálið er bæði flóknara og meira krefjandi í þeim verkum. Engu að síður eru mörg af hans kórverkum talin krefjandi enn þann dag í dag og mögulega hefði það verið ógerlegt fyrir hálfri öld að flytja þau af áhugamönnum.[53]

Þorkell hafði mjög gaman af því að semja fyrir börn og ungmenni, það minnti hann á barnæsku sína. Hann hafði einstakt lag á að skapa skemmtilega, hrífandi og frumlega stemningu í verkum sínum, sem hentaði einstaklega vel fyrir unga flytjendurna.[54] Stór hluti af verkum Þorkels bera ákveðna tileinkun og ber þar helst að nefna Hamrahlíðarkórana og Þorgerði Ingólfsdóttur, Egil Friðleifsson og Öldutúnsskólakórana, Skólakór Kársness og Þórunni Björnsdóttur, Martein H. Friðriksson og Dómkórinn, Hörð Áskelsson og Hallgrímskirkjukórana og að lokum Jón Stefánsson og Langholtskirkjukórarnir.[55] Þau verk sem samin eru fyrir Hamrahlíðarkórinn einkennast af léttri stemningu, þar sem Þorkell bregður á leik með textarytmum.[56]

Töluvert af söng- og kórtónlist Þorkels er byggð á þjóðlagaarfi okkar Íslendinga en þriðji kaflinn í Kisum, Manneskjuleg músík, inniheldur einmitt útsetningar á íslenskum þjóðlögum.

 

IV. Þjóðlagatónsmíðar Þorkels

IV.I. Tilurð þjóðlagatónsmíðanna

Í nótum Hræru frá árinu 1985 segir Þorkell eftirfarandi um íslensk þjóðlög:

Íslensku þjóðlögin eru náttúrulegust þegar þau eru sungin eða rauluð, án undirleiks og út í vindinn. Flest eru þau einmanaleg og drungaleg. Ef við viljum minnast þeirra í upphituðum hýbílum nútíma borgarmenningar er nauðsynlegt að klæða þau upp á einhvern hátt, útsetja þau þannig að einhver haldi laglínunni á meðan hinir flytjendurnir veita harmónískan stuðning.[57]

Þegar Þorkell var beðinn um að semja nýtt efni fyrir hina ýmsu tónlistarhópa var alltaf stutt í íslensku þjóðlögin, enda má finna yfir 100 þjóðlagaútsetningar í verkum hans. Þegar Þorgerður Ingólfsdóttir byrjaði að kenna í Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 1967 átti hún samtal við Þorkel þar sem hún talaði um að skortur væri á nýrri íslenskri tónlist fyrir börn. Stuttu síðar afhendir Þorkell henni Sjö jólasöngva sem inniheldur einmitt sex íslensk þjóðlög.[58] Þetta er aðeins eitt dæmi af fjölda mörgum þar sem Þorkell leitaði innblásturs fyrir tónsmíðar sínar í þessum íslenska þjóðararfi.

Rannsókn undirritaðrar á þjóðlagatónsmíðum Þorkels náði yfir flest öll þau útgefnu verk sem innihalda íslensk þjóðlög eða þjóðkvæði og –vísur.[59] Finna má 36 útgáfur af þjóðlagatónsmíðum, sumar þeirra innihalda aðeins eina útsetningu á meðan önnur innihalda til dæmis 14. Innan þessara 36 útgáfa er því að finna 98 þjóðlagaútsetningar. Efniviður útsetninganna er 41 þjóðlag og 6 þjóðkvæði eða –vísur. Af þeim 6 þjóðkvæðum og –vísum og 41 þjóðlagi sem Þorkell notaði í verkum sínum eru 17 sem innihalda trúarlega texta; 16 þjóðlög og 1 þjóðvísa. Sumar útgáfurnar eru verkaflokkar sem samsettir eru úr þjóðlagabútum, til dæmis Hræra, eða safn heilla þjóðlaga sem geta þá staðið stök, til dæmis Þrjú gömul Maríulög. Sum þjóðlögin eru efniviður í mörgum verkum á meðan önnur koma aðeins fyrir í einu verki.

Af söng- og kórverkum Þorkels sem innihalda þjóðlög, þjóðkvæði og –vísur má finna 23 útgáfur sem innihalda 48 útsetningar. Efniviður verkanna var 24 íslensk þjóðlög og 7 þjóðkvæði eða þjóðvísur. Verkin eru ýmist fyrir söngvara og píanó eða kammerhóp, barnakóra, kvennakóra og blandaða kóra. Af 23 útgáfum eru 15 útgáfur sem innihalda bara þjóðlög, 6 sem innihalda bara þjóðkvæði eða –vísur og 2 útgáfur sem innihalda bæði þjóðlög og þjóðkvæði eða –vísur. 14 verkanna innihalda trúarlega texta, þar af 13 þjóðlög og 1 þjóðvísa. Þau 6 verk sem innihalda einungis þjóðkvæði eða –vísur eru mögulega frumtónsmíðar en við rannsóknina fundust þau hvergi nóteruð og því líklega frumsamin.

 

IV.II. Tileinkanir og tilefni

Við rannsóknina kom í ljós að þjóðlagatónsmíðarnar dreifðust frekar jafnt yfir tónsmíðaferil Þorkels og því ekki eiginlegt „þjóðlagatímabil“ að finna. Á árunum 1970-1979 voru þær flestar eða 11 útgáfur og á árunum 2000-2009 voru þær fæstar, einungis 3 útgáfur. Í stöplaritinu hér á eftir má sjá nánara yfirlit yfir dreifingu þjóðlagatónsmíðanna.

Mynd 2: Dreifing þjóðlagatónsmíðanna yfir feril Þorkels.

Af þeim 23 útgáfum af söng- og kórverkum Þorkels, sem rannsóknin náði til, voru 18 útgáfur sem báru tileinkanir og/eða voru samin fyrir ákveðin tilefni. Fimm útgáfur voru tileinkaðar Þorgerðir Ingólfsdóttur, kórstjóra og þar af voru fjórar einnig tileinkaðar Hamrahlíðarkórunum. Tvær útgáfur voru tileinkaðar Agli Friðleifssyni, kórstjóra og Telpnakór Öldutúnsskóla. Þórunni Guðmundsdóttur, sópran voru tileinkaðar tvær útgáfur fyrir sópran, flautu og selló. Þá voru Sólrúnu Bragadóttur, sópran einnig tileinkaðar tvær útgáfur, annars vegar fyrir sópran, flautu og selló og hinsvegar fyrir sópran og píanó. Innan sömu útgáfu fyrir sópran og píanó voru lög tileinkuð Elísabetu Erlingsdóttur, sópran og Kristni Gunnarssyni, píanóleikara en það var eina útgáfan sem tileinkuð var þeim. Tvær útgáfur fyrir kvennakór voru tileinkaðar söngkonunni og kórstjóranum Hólmfríði Benediktsdóttur. Ein útgáfa var tileinkuð Sigrúnu Þorgeirsdóttur, sópran en sú útgáfa var samin fyrir söngkvartettinn Rúdólf fyrir plötuna Jólavaka. Ein útgáfan, Lilja, var tileinkuð Guðnýju en ekki tókst að finna frekari upplýsingar um þá tileinkun né um þær fimm útgáfur sem báru enga tileinkun. Í stöplaritinu hér á eftir má sjá skýrari samantekt á tileinkunum.

Mynd 3: Fjöldi tileinkana í þjóðlagatónsmíðum Þorkels.

 

IV.III. Tónefni og nálgun Þorkels við þjóðlagatónsmíðarnar

Þorkell var trúr þjóðlögunum, hann breytti þeim örsjaldan og leyfði þeim heldur að njóta sín í sinni upphaflegu mynd. Mögulega hafa breytingarnar ekki verið meðvitaðar en Þorkell gæti hafa lært lögin í annarri mynd en þeirri er Bjarni Þorsteinsson nóteraði. Það væri í raun í takt við eðli þjóðlaganna; að þróast með þjóðinni.

Við meðhöndlun þjóðlaganna í tónsmíðum sínum er Þorkell meðvitaður um flytjendurna. Söng- og kórtónlistin hans er einfaldari en hljóðfæratónlistin enda oft samin fyrir áhugamenn. Líkt og þjóðlögin er kórtónlist Þorkels að mestu leyti bundin við kirkjutóntegundir,[60] en það á einnig við um söngtónlist hans. Í söng- og kórtónlistinni er algengast að laglína þjóðlagsins eða leiðandi laglína frumtónsmíðar sé í efstu rödd og veita þá hljóðfærin eða neðri raddir hljómrænan stuðning við laglínuna. Þó kemur fyrir að laglínan færist á milli raddanna, sérstaklega þegar Þorkell bregður á leik í kórverkum sínum eins og sjá má í Syngi guði og Heilagi drottinn himnum á, svo fátt eitt sé nefnt.

Í þjóðlagatónsmíðum Þorkels er ekki að finna skýra sameiginlega nálgun en þó má segja að stílbragð hans skíni hvarvetna í gegn, hvort sem það er í glettnum tónaleikjum eða í undurfagurri hómófónískri kirkjutónlist.

 

Lokaorð og umræður

Í gegnum aldirnar hefur íslensk alþýða sungið við öll viðeigandi tækifæri, oft þrátt fyrir takmarkaða tónlistarkunnáttu. Þjóðlegasti parturinn af söngarfi okkar Íslendinga er tvísöngurinn en fast á eftir honum fylgja þjóðlögin, sem upphaflega sigldu yfir hafið og urðu íslensk við meðhöndlun þjóðarinnar. Við útbreiðslu laganna tóku þau breytingum og þróuðust þannig áfram þegar flytjendur fylltu í þær eyður sem myndast höfðu við munnlega geymd. Þegar lögin hafa dvalið lengi hér á landi og eru jafnvel orðin samtvinnuð rótum þjóðarinnar eiga þau rétt á að teljast íslensk. Það er í eðli þjóðlaganna að þróast með þjóðinni, líkt og gerist þegar tónskáld flétta þau saman við tónsmíðar nútímans.

Þorkell sótti mikið í þjóðlagaarfinn fyrir tónsmíðar sínar, þá sérstaklega fyrir söng- og kórtónlist sína. Hann var trúr þjóðlögunum og leyfði þeim helst að njóta sín í upphaflegri mynd, þó í viðeigandi búningi nútíðarinnar. Hann náði oftar en ekki að ljá þjóðlögunum hrífandi, frumlegan og glettinn blæ sem auðveldlega fangar bæði flytjendur og áheyrendur. Þannig hefur hann bæði haldið á lofti minningu íslenskra þjóðlaga, stuðlað að áframhaldandi þróun þeirra og komið bæði áhuga- og atvinnutónlistarmönnum í kynni við íslenskan þjóðararf. Von mín er sú að niðurstöður rannsóknarinnar veiti áhugasömum greiðara aðgengi að þjóðlagatónsmíðum Þorkels.

 

 

Viðaukar: 

1: Flokkun á íslenskum þjóðlögum, þjóðkvæðum og þjóðvísum í verkum Þorkels Sigurbjörnssonar 

2: Yfirlit þjóðlaga 

3: Þjóðlagatónsmíðar Þorkels: Söng- og kórverk

---

[1] Ólafur Davíðsson. Íslenzkar Skemtanir. (Kaupmannahöfn: Hið íslenzka bókmentafélag, 1888). Bls. 251.

[2] Árni Heimir Ingólfsson. „Straujárnið og viskíflaskan.“ Tímarit Máls og menningar, 71. árgangur, 1. hefti (febrúar 2010): bls. 58.

[3] Göran Bergendal. New Music in Iceland. Peter Lyne þýð. (Reykjavík: Iceland Music Information Centre, 1991). Bls. 5.

[4] „Andlát: Þorkell Sigurbjörnsson.“ Morgunblaðið, 31. janúar 2013, sótt 20. október 2015 á http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/01/31/andlat_thorkell_sigurbjornsson/.

[5] „Andlát: Þorkell Sigurbjörnsson.“

[6] Michael Kennedy. The Concise Oxford Dictionary of Music, 4. útg. (Oxford: Oxford University Press, 1996). Bls. 260.

[7] Ólafur Davíðsson, Íslenzkar Skemtanir. Bls. 251.

[8] Michael Kennedy, The Concise Oxford Dictionary of Music. Bls. 260.

[9]  Bjarni Þorsteinsson. Íslenzk þjóðlög. (Kaupmannahöfn: S.L. Møller, 1906). Bls. 7.

[10] Sama rit. Bls. 2.

[11] Sama rit.

[12] Sama rit. Bls. 5.

[13] Ólafur Davíðsson, Íslenzkar Skemtanir. Bls. 251.

[14] Njáll Sigurðsson. „Listin að kveða.“ Kvæðamannafélagið Iðunn, sótt 21. mars 2017 á http://rimur.is/?page_id=81

[15] Sama rit. Bls. 249.

[16] Bjarni Þorsteinsson. Íslenzk þjóðlög. Bls. 15–18.

[17] Sama rit. Bls. X.

[18] Sama rit. Bls. IV.

[19] Sama rit. Bls. V.

[20] Sama rit. Bls. VII–VIII.

[21] Sama rit. Bls. VIII–IX.

[22] Sama rit. Bls. 1.

[23] Sama rit. Bls. 6–7.

[24] Sama rit.

[25] Sama rit. Bls. 8–9.

[26] Sama rit. Bls. 524.

[27] Kennedy, The Concise Oxford Dictionary of Music. Bls. 260.

[28] Bjarni Þorsteinsson, Íslenzk þjóðlög. Bls. 3.

[29] Sama rit.

[30] Ólafur Davíðsson, Íslenzkar Skemtanir. Bls. 254.

[31] Sama rit. Bls. 247.

[32] Sama rit. Bls. 242 og 254.

[33] Sama rit. Bls. 242.

[34] Bergendal, New Music in Iceland. Bls. 92–93.

[35] Sama rit. Bls. 96.

[36] Sama rit.

[37] Sama rit. Bls. 58.

[38] Sama rit. Bls. 62–63.

[39] „I do not believe that it is always necessary for one’s works to be given so much attention. For me, to write is just as important as to eat. It is nice to get good food, but I also eat ordinary food. I have written quite a lot of music, and much of it is not particularly good. But I am not particularly worried about my compositions. I more or less only write for people I know, for soloists I work with, for particular occasions and contexts.“ Bergendal, New Music in Iceland. Bls. 93.

[40] Anders Beyer. The Voice of Music: Conversations with Composers of Our Time. (London: Ashgate, 2000). Bls. 62–63.

[41] Bergendal, New Music in Iceland. Bls. 97.

[42] Árni Heimir Ingólfsson. „Að þykja vænt um tónana“ í bæklingi með hljómdiskinum Þorkell Sigurbjörnsson/Leikar. (Reykjavík: Smekkleysa, 2006).

[43] Beyer og Christensen, The Voice of Music. Bls. 55.

[44] Sama rit. Bls. 59.

[45] Sama rit. Bls. 60.

[46] Sama rit. Bls. 59.

[47] Bergendal, New Music in Iceland. Bls. 100–101.

[48] Sama rit.

[49] Sama rit.

[50] Beyer og Christensen, The Voice of Music. Bls. 61.

[51] „I don’t have any doubt that God exists – whatever that means – some kind of power over which we have no control and that we will never understand. Whether it is DNA or whatever, I don’t know. But you can celebrate that power. And you can call it God, why not? However, I wouldn’t like to stand up and profess a faith. My faith is so weak and insignificant. I could never preach. I don’t have the strength that requires.“ Sama rit. Bls. 61.

[52]Byggt á óútgefinni skýrslu um „Rannsóknir á íslenskri tónlist 20. og 21. aldar - Þorkell Sigurbjörnsson: Hljómsveitarverk, einleikskonsertar, kórverk og kammeróperur.“ Bls. 18.

[53] Beyer og Christensen, The Voice of Music. Bls. 60.

[54] Sama rit. Bls. 60–61.

[55] Byggt á óútgefinni skýrslu um „Rannsóknir á íslenskri tónlist 20. og 21. aldar - Þorkell Sigurbjörnsson: Hljómsveitarverk, einleikskonsertar, kórverk og kammeróperur.“ Bls. 19.

[56] Bergendal, New Music in Iceland. Bls. 102–103.

[57] „The composer says about the work: “Icelandic folk songs are most indigenous sung or crooned, unaccompanied, and into the wind. Most of them are lonely and sad. If we still want to remember them in modern city-living, with regulated room temperatures, then they have to be dressed up somehow, arranged so that someone carries the tune while the others provide the harmonic support.“ Þorkell Sigurbjörnsson, Hræra. (Reykjavík: Íslensk tónverkamiðstöð, 1985).

[58] Sbr. samtal Hróðmars I. Sigurbjörnssonar við Þorgerði Ingólfsdóttur í desember 2015.

[59] Þau 10 verk sem urðu útundan við rannsóknina voru nótur í einkasafni, óútgefin verk og verk sem ekki náðist að fara yfir vegna umfangs. þau verk eru undanskilin öllum þeim upplýsingum sem hér koma fram. Nánari útlistun á verkum utan rannsóknarinnar má finna í viðauka greinarinnar.

[60] Beyer og Christensen, The Voice of Music. Bls. 60.

 

Heimildir

Bækur

Bergendal, Göran. New Music in Iceland. Peter Lyne þýddi. Reykjavík: Iceland Music Information Centre, 1991.

Beyer, Anders, Jean Christensen. The Voice of Music: Conversations with Composers of Our Time. London: Ashgate, 2000.

Bjarni Þorsteinsson. Íslenzk þjóðlög. Kaupmannahöfn: S.L. Møller, 1906.

Kennedy, Michael. The Concise Oxford Dictionary of Music. 4. útgáfa. Oxford: Oxford University Press, 1996.

Ólafur Davíðsson. Íslenzkar Skemtanir. Kaupmannahöfn: Hið íslenzka bókmentafélag, 1888.

 

Hljómdiskabæklingar

Árni Heimir Ingólfsson. „Að þykja vænt um tónana“ í bæklingi með hljómdiskinum Þorkell Sigurbjörnsson/Leikar. Reykjavík: Smekkleysa, 2006.

 

Nótur

Þorkell Sigurbjörnsson. Hræra. Reykjavík: Íslensk tónverkamiðstöð, 1985.

 

Skýrslur

Steinar Logi Helgason, Örnólfur Eldon Þórsson og Þorkell Nordal. „Rannsóknir á íslenskri tónlist 20. og 21. aldar - Þorkell Sigurbjörnsson: Hljómsveitarverk, einleikskonsertar, kórverk og kammeróperur.“ Óútgefin lokaskýrsla fyrir Nýsköpunarsjóð námsmanna, sumarið 2014.

 

Tímaritsgreinar

Árni Heimir Ingólfsson. „Straujárnið og viskíflaskan.“ Tímarit Máls og menningar, 71. árgangur, 1. hefti (febrúar 2010): 58-83.

 

Vefheimildir

„Andlát: Þorkell Sigurbjörnsson.“ Morgunblaðið, 31. janúar 2013. Sótt 20. október 2015 á http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/01/31/andlat_thorkell_sigurbjornsson/

Njáll Sigurðsson. „Listin að kveða.“ Kvæðamannafélagið Iðunn. Sótt 21. mars 2017 á http://rimur.is/?page_id=81