Uppskafningur handa Maríu mey

Árni Heimir Ingólfsson

  mynd_sma

Mynd: Úr AM 461 12mo (71v-72r). Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum; ljósmynd: Jóhanna Ólafsdóttir.

Í Árnasafni í Reykjavík er að finna nokkrar íslenskar söngbækur úr kaþólskri tíð sem síðar rötuðu í safn Árna Magnússonar í Kaupmannahöfn. Ekki er um mikinn fjölda að ræða, og eflaust hefur Árni á sinni tíð átt fleiri slíkar bækur en varðveist hafa til þessa dags. Hann hafði það nefnilega fyrir vana að skera latneskar kirkjubækur niður í strimla, því að skinnið forna reyndist fyrirtaks efni í bókband. Árni mat það svo að einungis væri þörf á að varðveita slíkar bækur ef efni þeirra tengdist með einhverju móti Íslandi eða textar væru á íslensku.

Eitt þeirra handrita sem slapp við niðurskurð er lítið kver frá fyrri hluta 16. aldar sem ber safnmarkið AM 461 12mo og telur 72 blöð. Því hefur hingað til verið lítill gaumur gefinn og tónlist þess er hvergi aðgengileg á prenti.[1] Í handritinu standa textar af ýmsu tagi: rímtal, bænavers á íslensku og latínu, og sator-ferningurinn svokallaði, „Sator arepo tenet opera rotas“ (15v).[2] Í síðasta hluta kversins (69r–72v) standa nótur. Þetta eru fjögur blöð og þau eru rituð með annarri hendi en fyrra efni handritsins. Þessi blöð eru uppskafningar, þ.e. skrifuð á uppskafin blöð úr eldri söngbók, og ef vel er rýnt má á stöku stað greina eldri nótur í bland við hinar nýrri. Kannski hefur gamla efnið verið orðið úrelt, og nýtinn eigandi þá skafið upp gömlu lögin og skrifað í þeirra stað helgisöngva sem nutu hylli á meginlandinu skömmu fyrir og um 1500.

Öll lögin í AM 461 12mo eru við latneska bænatexta, og öll eru þau Maríusöngvar utan tvö: Michael prepositus paradisi tilheyrir Mikjálsmessu (29. september), Sanctifica nos domine heyrir til krossmessu á vori (Inventio crucis, 3. maí). Sancta Maria, succurre miseris var oftast sungið á himnaför Maríu (Assumptio Mariae, 15. ágúst) en gat einnig átt við aðrar Maríuhátíðir, til dæmis fæðingardag hennar eða boðunardag. O florens rosa er andstef fyrir Maríuhátíðir, og sama gildir um Gaude, dei genitrix og Ave beatissima civitas. Nigra sum sed formosa, við texta úr Ljóðaljóðum Biblíunnar, var yfirleitt sunginn á hátíðisdögum helgra meyja (commune virginum). Textarnir eru nær undantekningarlaust kunnir úr öðrum evrópskum heimildum. Í einu tilviki (Ave sanctissima virgo) hefur þó ekki tekist að finna nákvæma fyrirmynd textans, en svipaðar gerðir hans voru á sveimi á 15. öld.

Þessi kaþólska söngbók hefur í eina tíð verið meiri umfangs en hún er nú. Að minnsta kosti tvö tvinn (á milli 69v/70r og 71v/72r) hafa farið forgörðum, sem sjá má af því að nú vantar aftan við tvö lög og framan við eitt.[3] Hér má sjá efni blaðanna sem varðveist hafa:

69r: Sancta Maria, succurre miseris (andstef fyrir Maríuhátíð)
69v: Nigra sum sed formosa (andstef fyrir ýmsar hátíðir Maríu og kvendýrlinga)
69v: O florens rosa, mater domini (andstef við Maríuhátíðir; vantar aftan við)
70r: Gaude, dei genitrix (andstef, oftast fyrir Himnaför Maríu; vantar framan við)
70r: Ave sanctissima virgo (Maríubæn, ekki hefðbundinn sléttsöngur?)
71r–v: Ave beatissima civitas (andstef fyrir Maríuhátíðir)
72r: Sanctifica nos domine (andstef fyrir krossmessu á vori)
72v: Ave Maria... (ólæsilegt, nótur máðar)
72v: Michael prepositus paradisi (andstef fyrir Mikjálsmessu)
 

Ekkert er vitað um uppruna handritsins. Það á eflaust rætur í trúarumhverfi en ekki er um litúrgískt handrit að ræða. Hér standa lög sem eigandinn vildi geta sungið sér til sáluhjálpar; þau voru vafalaust þáttur í hinu hversdagslega trúarlífi kirkju eða klausturs. Handritinu fylgir seðill með hendi Árna Magnússonar þar sem segir að hann hafi fengið það til eignar hjá Þorsteini Eyjólfssyni á Háeyri. Sá var um skeið ráðsmaður í Skálholti en gerðist síðan bóndi á Háeyri í Stokkseyrarhreppi í Árnessýslu. Ekki er óhugsandi að kverið hafi verið skrifað í Skálholti á árunum upp úr 1500, og að Þorsteinn hafi tekið slitur þess með sér þaðan rúmum 150 árum síðar.[4] Ómögulegt er þó að fullyrða nokkuð um slíkt, og uppruni bókarinnar kann að vera allt annar. Kannski hefur hún tilheyrt presti, munki eða nunnu við Maríukirkju eða Maríuklaustur og þá berast böndin til dæmis að Skriðuklaustri, sem var helgað Maríu mey og hinu heilaga blóði; auk þess voru kirkjurnar í Viðey og á Reynistað helgaðar Maríu mey. Þó var dýrkun Maríu svo algeng á síðmiðöldum að kirkjan hefur ekki þurft að vera Maríukirkja.

Ekki er rúm til þess hér að rýna nánar í allt söngefni handritsins AM 461 4to. Hér verður staldrað við tvö lög sem bæði eru nefnd í öðrum íslenskum heimildum frá miðöldum. Lagið Gaude, dei genitrix er bænasöngur til Maríu sem var einkar vinsæll um alla Evrópu á miðöldum og gegndi lykilhlutverki í tíðasöngs við Maríuhátíðir. Hann á rætur sínar í minninu um „fimm fögnuði“ Maríu sem var vel þekkt, einnig á Íslandi.[5] Þessi tiltekni sléttsöngur átti að hafa sérstakan kraftaverkamátt og hans er getið í þremur íslenskum Maríujarteinum.[6] Allar eiga það sameiginlegt að klerkar sem hafa lagt það í vana sinn að syngja Gaude dei genitrix fá hægt andlát. Í einni segir að eftir andlát klerksins hafi fundist í munni hans bréf, þar sem á stóðu með gullstöfum orðin „Gaude dei genitrix“.[7] Í tveimur jarteinanna er textinn einnig þýddur á íslensku og hljóðar önnur þýðingin svo:

Fagnaðu, guðs getara flekklaus mær,
fagnaðu, er tókst fögnuð af englinum,
fagnaðu því sá er þú gast birti eilíft ljós,
fagnaðu móðir, fagnaðu heilög mær guðs getandi,
þú ert ein ógift móðir,
þig lofar öll skepna, móðir ljóssins;
biðjum vér, að þú biðjir að eilífu fyrir oss.
 

Sögur um jarteinamátt þessa bænasöngs eru síður en svo bundnar við Ísland eingöngu. Í frásögn Williams af Malmesbury var söngur þessi sagður hafa bjargað nunnu einni, og sama átti að hafa gerst þegar klerkur einn í Chartres söng lagið og textann.[8]

Annað lag í Maríukverinu íslenska, Ave beatissima civitas, er sömuleiðis andstef til söngs á Maríuhátíðum. Textinn stendur með nótum í ótal sléttsöngshandritum á meginlandinu, og er auk þess í þríradda mótettu frá 13. öld.[9] Þetta er stafrófskvæði, þar sem upphafsstafir hvers orðs mynda saman stærri heild. Stærstur hluti kvæðisins er það sem kallaðist alphabetum, þar sem upphafsstafir orðanna þræða stafrófið. Þegar stafrófið er á enda taka við orð mynduð úr sérhljóðunum a–u, og loks mynda lokalínurnar orðin Maria virgo. Í textanum er hin „sælasta“ mær lofsungin, kölluð bústaður réttlætisins, kærust lilja og tignuð móðir, og hún er beðin að gæta allra þeirra sem frelsast hafa fyrir Krists blóð:

Ave beatissima
civitas divinitatis
eterno felix gaudio
habitaculum iustitiae
charitatis lilium
mater nobilis
obsecra plasmatorem
quarenus redemptos
sanguine tueatur
ut viventes Xristo
ymnizemus zima
antiquum expurga ipsius oraculo uitae
mediatrix auxiliatrix reparatrix illuminatrix [adiutrix
veni viva reos genetrix omnipotentis].[10]
 

Jartein af tilurð antífónunnar er að finna í íslensku handriti frá um úr 1700 (AM 634 4to). Þar segir frá þýskum greifasyni sem sendur var til náms í París, en stundaði meira hégóma heimsins en listir klerkdómsins. Þó fór svo að þegar biskup nokkur andaðist í Þýskalandi var greifasonurinn kosinn arftaki hans, og þótti honum sem brátt yrði fáfræði hans ljós öllum mönnum. Því hélt hann í Maríukirkjuna Notre Dame, kastaði sér grátandi fram á gólfið og birtist honum þá María og lofaði öllu góðu. Svo segir í sögunni: „Eftir svo talað líður drottningin burt að sýn, en hann vaknar og sprettur upp gæddur svo mikilli gjöf heilags anda, að án allri dvöl diktar hann nýja antiphonam af sancta Maria bæði í senn að orðum og hljóðum. Sú antiphona er svo fallin: Ave beatissima civitas...“ og söng hann hana „svo hátt og hvellt að heyrir um alla kirkjuna.“[11]

Þótt efnið í AM 461 12mo sé ekki íslenskt bregður það áhugaverðu ljósi á þá kirkjumenningu sem hér ríkti í kaþólskum sið. Það sýnir að kirkjusöngur átti sér ekki einungis stað í föstu formi messu og tíðasöngs, og að sparneytnir kirkjunnar menn leituðust við að uppfæra söngforða sinn með því að skafa upp gamlar skruddur og nýta skinnið aftur. Um leið hefur sá sem söng úr þessu litla kveri kunnað ýmsar Maríusögur og kannski hefur honum þótt vísara að kunna og eiga kraftaverkasöngva sem eftir öllu að dæma höfðu reynst öðrum vel.

  ---

[1] Sr. Bjarni Þorsteinsson prentar upphaf lagsins Ave sanctissima virgo í þjóðlagasafni sínu; sjá Íslenzk þjóðlög (Kaupmannahöfn, 1906–1909), bls. 179–80.

[2] Kristian Kålund, Katalog over den Arnamagnæanske håndskriftsamling (Kaupmannahöfn: Gyldendal, 1889–1894), 2. bindi, bls. 499–500.

[3] Blöðin hafa verið tölusett eftir að handritið var sett saman í þeirri gerð sem það er nú, því að þar eru engin skörð þar sem efni vantar.

[4] Áhugavert er að fyrrum eigandi handritsins, Þorsteinn Eyjólfsson, virðist hafa verið áhugamaður um Maríukveðskap. Í safni Árna Magnússonar er handrit með hendi Þorsteins þar sem skrifuð eru upp tvö gömul Maríukvæði (AM 719c 4to, sjá Kålund, Katalog, 143–44). Þorsteinn átti einnig annað gamalt handrit (AM 154 4to), og skrifaði auk þess sjálfur AM 113f fol.

[5] Sjá Guðbjörg Kristjánsdóttir, „Sjö A fyrir Ave-vers á altarisklæði frá Reykjum í Tungusveit“, Árbók hins íslenska fornleifafélags 89 (1992), bls. 92. Hér eru einnig talin nokkur dæmi um Gaude-andstefið í íslenskum heimildum.

[6] Carl Rikard Unger, Mariu saga: Legender om jomfru Maria og hendes jertegn (Christiania, 1871), bls. 73–74, 261–62, 778, 1191 – 92; sjá einnig Guðbjörg Kristjánsdóttir, op.cit. Um Maríujarteinir og evrópskan uppruna þeirra sjá Ole Widding, „Norrøne Marialegender på europæisk baggrund“, Opuscula 10 (1996), bls. 1–128.

[7] Unger, Mariu saga, bls. 778.

[8] Kati Ihnat, „Marian Miracles and Marian Liturgies in the Benedictine Tradition of Post-Conquest England,“ í Matthew M. Mesley og Louise E. Wilson, ritstj., Contextualizing Miracles in the Christian West, 1100–1500; New Historical Approaches (Oxford: The Society for the Study of Medieval Languages and Literature, 2014), bls. 72–73. Þessi bænasöngur er einnig í ensku handriti frá 15. öld, sjá John Wickham Legg, ritstj., The Processional of the Nuns of Chester (London, 1899), bls. 21.

[9] Tischler, Montpellier codex pt. bls. 22, 41-42.

[10] F.J. Mone, Hymni Latini Medii Aevi, 3 bindi (Freiburg, 1853–55), 2:439.

[11] Unger, Mariu saga, bls. 1040.