Kl. 9.00–10.00 Stofa 54 (3. mars) (EN)
Berglind María Tómasdóttir
Lilja María Ásmundsdóttir
Brian Griffeath-Loeb
Berglind María Tómasdóttir mun fjalla um hljóðfærið Lokkur sem hún hannaði árið 2015 og Lilja María Ásmundsdóttir mun tala um hljóð- og ljósskúlptúrinn Huldu sem hún hannaði og smíðaði sumarið 2016. Að lokum munu Brian Griffeath-Loeb og Berglind María fjalla um tilraunakennt kvikmyndaverkefni sem þau vinna um þessar mundir að.
 
Hljóðfærið Lokkur er sett saman úr gömlum rokk og langspili og smíðað í félagi við Jón Marinó Jónsson fiðusmið og Auði Alfífu Ketilsdóttur. Útgangspunkturinn var að búa til ímyndað sögulegt hljóðfæri og ljá því sögusviðið Nýja-Ísland í Norður-Ameríku einhvern tímann snemma á 20. öldinni. Við framsetningu á Lokknum hefur áhersla verið lögð á að kynna hljóðfærið eins og um menningararf sé að ræða; hljóðfærið hafi tilheyrt menningu fyrri tíma og hafi þar af leiðandi merka þýðingu fyrir okkur í dag. Síðan hljóðfærið leit dagsins ljós hefur það verið til sýnis á Árbæjarsafni en einnig hafa nýjar tónsmíðar fyrir Lokk verið fluttar á Listahátíð í Reykjavík, Sumartónleikum í Skálholtskirkju og nú síðast á Norrænum músíkdögum í Reykjavík þar sem sérstakt málþing um Lokkinn fór jafnframt var.  
Í fyrirlestri sínum mun Berglind gera grein fyrir niðurstöðum þessara verkefna og hugmyndum varðandi áframhaldandi sviðsetningu Lokksins sem menningararfs.
 
Lilja María smíðaði frumgerð hljóð- og ljósskúlptúrsins Huldu vorið 2013. Síðasta sumar hlaut hún styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna til að halda áfram að þróa og betrumbæta hljóðfærið undir handleiðslu Berglindar Maríu og Jóns Marinós Jónssonar, fiðlusmiðs. Verkefnið var eitt af fimm verkefnum sem hlaut tilnefningu til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands. Á fyrirlestrinum mun hún fjalla um hugmyndir á bak við hönnun hljóðfærisins, en hönnunin byggir á skynfærum mannsins. Einnig mun hún tala um það hvernig hægt er að nýta skúlptúrinn til að koma á samstarfi milli mismunandi listgreina. Sem dæmi má nefna að verið er að undirbúa viðburð sem ætlað er að sýna fram á hinar ýmsu hliðar skúlptúrsins, bæði myndlistarlega og tónlistarlega eiginleika. Unnið er að innsetningu sem verður sjónrænn heimur tónleikanna, en á tónleikunum verða flutt verk eftir nokkur ung tónskáld. Hugmyndin er að innsetningin verði eins konar birtingarmynd innra lífs mannverunnar; alls þess sem er hulið og óáþreifanlegt. Þessi hugmynd er þannig bæði vísun í nafn hljóðfærisins; Hulda og vísun í skynjunina eða alls þess sem býr innra með mannverunni; tilfinningar, skynjun og minningar.
 
Sameiginlegt verk Brian Griffeath-Loeb og Berglindar byggir á hugmyndum um goðsagnir, annan sannleika og hefðir, sett fram á formi tilraunakenndrar heimildamyndar. Í kynningu sinni gera þau grein fyrir verkefninu.