Föstudaginn 3. febrúar útskrifuðst 11 nemendur frá Listaháskólanum frá sviðslista-, listkennslu-, hönnunar- og arkitektúr- og tónlistardeildum. Við óskum hinum nýútskrifuðu hjartanlega til hamingju með áfangann. 

 

Ávarp rektors.

Kæru útskriftarnemar – kæru gestir!

I

Í upphafi árs, þegar rétt er farið að finna fyrir hækkandi sól, ber vetrarútskrift einna hæst í viðburðum Listaháskólans. Útskrift markar einstaklega hátíðleg tímamót fyrir alla sem eiga í hlut, enda – oft á tíðum í það minnsta – langþráðu markmiði náð, sem fleytir þeim inn í næsta áfanga ævistarfsins.

Í raun er það eitt meginhlutverk listaháskóla; að fleyta nemendum inn í lífið á forsendum þeirrar fagmennsku og þeirra fræða sem háskólinn hefur kennt þeim að tileinka sér. Að opna nýjar víddir í hugsun og hugmyndafræði fyrir þeim sem þar stunda nám og gera þeim kleift að fara með himinskautum í sköpun sinni án þess þó að tapa jarðtenginu fagmennskunnar. Háskólar eiga að vera framverðir nýrrar þróunar og hugmynda um leið og þeir standa vörð um hefðir, sögu og öguð vinnubrögð.

Hvernig svo tekst til gangvart hverjum og einum nemanda er vitaskuld undir honum sem einstaklingi komið. Því það er ekki hægt að neyða neinn sem ekki vill það sjálfur til að víkka sjóndeildarhringinn eða taka skref inn í nýjar víddir. En ábyrgðin á því að skólinn bjóði nemendahópnum sem heild heilbrigt, ögrandi og hvetjandi umhverfi til menntunar og frumsköpunar er þó alfarið háskólans sjálfs.

II

Það er ef þeim sökum sem óvenju mikið hefur verið lagt í umræðu um fjársvelti háskólastigsins það sem af er liðið vetrar. Og hvað þennan skóla varðar, ekki síður upplýsingu um húsnæðisvanda og aðstöðuleysi.

Við þurfum með einhverjum hætti að gera samfélaginu grein fyrir að þessi umræða er ekki kvabb þeirra sem aldrei fá nóg eða telja sig alltaf eiga meira skilið. Þvert á móti er hún ákall stofnunar sem veit hvaða mátt hún hefur til að bæta samfélagið, efla framfarir og þær umbreytingar sem felast í skapandi ferlum, gagnrýnni hugsun og ögrandi hugmyndafræði. Slíkur máttur þarf viðunandi umgjörð, slagkraft og skilning til að geta skilað sínu til fullnustu. Skilað þekkingu og framþróun til þeirra sem eiga Listaháskólann og fjármagna hann; fólksins í landinu. Ég nefni þetta vegna þess að þið sem nú útskrifist eruð í einhverjum skilningi kyndilberar – það sést í ykkur hvaða gildi listirnar hafa og hvers þær eru megnugar.

III

Við sem hér erum samankomin í dag vitum vel að sú leið sem þið hafið valið innan listanna er ekki sú auðveldasta sem hægt er að feta á lífsleiðinni. Það þarf stöðugt að berjast fyrir viðgangi listanna og viðurkenningu á þeim verðmætum sem felast í sköpun hvers tíma. Listmenning af öllu tagi, hvort sem hún felst í frumsköpun eða uppfræðslu snýst enda um stóru myndina í lífinu – um úthald gagnvart markmiðum sem eru stærri en maður sjálfur og sá rammi sem afmarkar hvunndaginn hverju sinni.

Ég efast ekki um að ykkur eigi eftir að farnast vel með það veganesti sem þið hafið fengið innan úr ykkar deildum hér við Listaháskólann, og vona svo sannarlega að þið látið að ykkur kveða með öllum þeim mætti sem þið búið yfir – að þið takið ykkur það vald sem er ykkar, til að skipta sköpum.

Fríða Björk Ingvarsdóttir, rektor Listaháskólans.