Fréttabréf rektors
09.11.2016

Þegar þetta er ritað hefur enn ekki ráðist hverjum verða falin hlutverk í nýrri ríkisstjórn, nú að kosningum loknum. Ljóst er að sterk sýn á menntun – ekki síst háskólastigið – hlýtur að vera krafa ungs fólks, eigi samfélagið að njóta til fullnustu þess krafts sem felst í menntun og rannsóknum æðri skólastiga. Til marks um vaxandi þunga í ákalli eftir þeim auði sem menntun skilar má nefna átak sem hófst fyrir tilstilli Samtaka iðnaðarins á haustmánuðum undir slagorðinu „xhugvit”. Því er vonandi hvergi nærri lokið enda mikilvægt að halda áfram að leiða saman þá aðila sem vinna að verðmætasköpun í víðum skilningi í íslensku samfélagi á forsendum nýsköpunar og frumleika.

Síðustu tvær helgar settu kröftugar menningarhátíðir svip sinn á höfuðborgarsvæðið; hátíðin Cycles í Kópavogi og svo Iceland Airwaves í kjölfarið. Þar á undan voru Norrænir músíkdagar og framundan er Reykjavík Dance Festival. Það er áhugavert að skoða samsetningu þessara hátíða út frá sjónarhóli Listaháskólans, enda koma við sögu fjölmargir sem tengjast skólanum, útskrifaðir nemendur, kennarar skólans og jafnvel núverandi nemendur. Sú staðreynd sannar ekki einungis vægi Listaháskólans í listalífinu heldur afhjúpar einnig áhrif hans í samfélagsmyndinni.

Hátíðir sem þessar eru mikill drifkraftur í menningarlífinu, ekki einungis til að ljá hversdagsleikanum listræna dýpt og lit, heldur einnig þar sem þær gegna mikilvægu hlutverki við að draga fram það erindi sem listirnar eiga gagnvart samtímanum. Þannig eru þær einnig mikilvægt aðdráttarafl gagnvart öllum þeim er sækja landið heim, í hagrænum ávinningi þjóðarbúsins, þroska og þróun menningararfleifðarinnar.

Til þess að Listaháskólinn geti í auknum mæli lagt sín lóð af mörkum á vogarskálar samfélagslegrar gagnvirkni, hvort heldur sem er í sjálfu listalífinu eða á forsendum hugvits almennt, þarf hann betri aðstæður og aðbúnað. Það er því forgangsatriði gagnvart nýjum stjórnvöldum að knýja fram ákvörðun um framtíðarhúsnæði skólans; um viðunandi samastað fræðasviðs lista. Samningar við einkaaðila um leiguhúsnæði eru farnir að styttast og ástand þess húsnæðis sem leigt er af ríkinu orðið þess eðlis að taka verður ákvarðanir um framtíðartilhögun strax. Það er ekki fyrr en að því loknu sem Listaháskólinn getur farið að endurnýja þarfagreiningu, skipuleggja og tímasetja óhjákvæmilegar tilfærslur á starfseminni þar til ný aðstaða hefur verið tekin í notkun.

En þótt háskólasamfélaginu hér á landi finnist sem blásið hafi á móti undanfarin ár í fjármögnun háskólastigsins, er mikilvægt að hafa í huga að hugmyndafræðilegu sjálfstæði íslenskra háskóla er gert hátt undir höfði og tjáningarfrelsi þeirra sem þar starfa virt sem skyldi.

Þróun síðustu mánaða í Tyrklandi sýnir og sannar hversu mikilvægt er að verja þá samfélagslegu hornsteina sem sjálfstæði háskóla og rannsókna á háskólastigi eru í öllum samfélögum. Nýverið lýsti EUA (European University Association) áhyggjum sínum af ástandinu í Tyrklandi þar sem forsetinn hefur tekið það í sínar hendur að velja rektora háskólastofnanna og þúsundir akademískra starfsmanna misstu stöður sínar í kjölfar misheppnaðs valdaráns í sumar.

Það er ástæða til að taka undir orð Rolfs Tarrach, forseta EUA, sem sagði að “þótt það væri ekki hlutverk [samtakanna] að hlutast til um stjórnmál, þá væri það sannarlega hlutverk þeirra að skilja og ræða afleiðingar stjórnmála fyrir háskólana […]”

Framundan er öflug tíð menningar og lista innan skóla sem utan, umræða um stefnumótun háskólastigsins á vettvangi íslenskra stjórnmála, sem vonandi skilar sér til okkar allra af þeim metnaði sem vænta má í gildum framsýns nútíma samfélags er á mikið undir viðgangi hugvits og sköpunar.

 

 

Fréttabréf rektors 25.10.2016