Guðbjörg Jakobsdóttir fatahönnuður útskrifaðist frá Listaháskólanum árið 2006 og hefur fengist við fjölbreytt verkefni síðan. Í dag býr hún og starfar í Kanada en þar hannar hún útivistarfatnað fyrir eitt flottasta fyrirtækið í bransanum, Arc’teryx. Hún er sannfærð um að skapandi nám gefi fólki forskot í að hugsa út fyrir kassann, sama hvað fólk endar svo á að fást við.

Hvað er fatahönnun fyrir þér?
Leitin að framtíðinni.

Hvað hefur þú verið að fást við síðan þú útskrifaðist frá Listaháskólanum?
Eftir útskrift fór ég að vinna hjá Fasa Fötum og svo Hexa sem framleiddu einkennisbúninga, jakkaföt og draktir fyrir ýmis íslensk fyrirtæki og vann þar fram að hruni. Árið 2009 stofnaði ég ásamt vinkonum mínum úr Listaháskólanum PopUp markaðinn til að koma á framfæri öllum þessum litlu sprotafyrirtækjum sem komust hvergi að borði því verslanir lokuðu og gátu lítið gert fyrir okkur ungu hönnuðina. Grunnhugmyndin var sú að við gætum hjálpast að við að draga athygli að möguleikunum í sprotum hönnunar og standa fyrir jákvæðri umræðu. Það reyndist mög auðvelt að fá umfjöllun því að flestar fréttir á þessum tíma tengdust hruninu og fjölmiðlar virtust vera dauðfegnir að hafa eitthvað jákvætt til að fjalla um.

Mér hlýnar um hjartaræturnar þegar ég hugsa til baka til þessa tíma, sem voru svo fullir af óvissu en einnig samheldni og ákveðni okkar allra til að láta eitthvað gott koma út úr hruninu.

Ég staldraði reyndar ekki lengi við PopUp markaðinn heldur hóf ég fljótlega störf hjá Cintamani og var þar í um 5 ár. Það voru mjög gjöful og skemmtileg ár með mörgu góðu fólki. Við tókum merkið í talsverða yfirhalningu en héldum fast í það sem dró fólk að merkinu, góð efni og bjarta ferska liti. Ég virkilega naut þess að hanna fyrir Íslendinga og íslenskt verðurfar og sakna þess reyndar dálítið því í dag bý ég í Kanada og hanna skíðafatnað fyrir Arc’teryx.

Hvað er Arc'teryx og í hverju felst þitt starf þar? 
Arc’teryx er kvartaldargamalt fyrirtæki sem umbylti algjörlega útivistarbransanum með ferskum tæknilegum lausnum sem gerðu flókna hluti einfaldari og betri, meðal annars með hitalímingum (e. heat lamination) og Gore-tex textíl. Í dag er fyrirtækið þekkt fyrir framúrskarandi gæði og langlífi varanna.

Hvað olli því að þú ákvaðst að einbeita þér að hönnun á útivistarfatnaði?
Ég er afkomandi mikillar skíðafjölskyldu svo að þetta er svolítið í blóðinu. 

Ég á algjörlega heima í þessum bransa enda dálítið jarðbundið nörd en með þessa gríðarlega framsæknu tískumenntun sem hefur gefið mér heilmikið forskot í þessu umhverfi.

Hvað finnst þér áhugaverðast í útivistartískunni?
Sú staðreynd að með tilkomu sporttískubylgjunnar (e. athleasure) er fólk farið að uppgötva hversu þægileg föt úr tæknilegum efnum eru og hvað frelsi okkar og öryggi eykst í samvistum við náttúruöflin ef við klæðum okkur vel.

Hvað situr mest eftir hjá þér af því sem þú lærðir í Listaháskólanum og áttu einhver ráð handa hönnunarnemum dagsins í dag?

Ég lærði að lifa í Listaháskólanum!

Ég gríðarlega þakklát fyrir árin mín þar. Þau voru krefjandi og stundum brjálæðislega erfið en ég lærði að lifa á brúninni og taka gagnrýni sem aðstoð áfram í lífinu. 
Ég myndi ráðleggja hönnuðum að fara útfyrir landsteinana til að komast í reynsluauð annarra þjóða. Skiptinám, starfsnám eða hreinlega að flytja út er algjörlega nauðsynlegt fyrir þennan nýja bransa í okkar litla landi.

Hversvegna ætti fólk að fara í Listaháskólann?
Skapandi og gangrýnin hugsun er á undanhaldi í heiminum. Það gefur forskot að hugsa út fyrir kassann, sama hvað fólk endar svo á að fást við. Ég held líka að heimurinn væri betri ef fleiri færu í skapandi nám.