Listaháskóli Íslands hlaut nýverið 270.090 evrur í styrk frá Erasmus+ áætluninni fyrir tveggja ára alþjóðlegt samstarfsverkefni. Verkefnið ber heitið NAIP: Training Artists Without Boarders og er samvinna eftirfarandi listaháskóla auk Listaháskóla Íslands:

Guildhall School of Music & Drama, London
Stockholms konstnärliga högskola, Stokkhólmi

Universität für Musik und Darstellende Kunst, Vín
Koninklijk Conservatorium, Den Haag
Pins Claus Conservatorium & Academie Minerva, Groningen
Yong Siew Toh Conservatory of Music, Singapore

Einnig taka Íslenska óperan og Association Européenne des Conservatoires, Académies de Musique et Musikhochschulen (AEC) þátt sem samstarfsaðilar úr atvinnulífinu. Tónlistar- og sviðlistadeildir taka þátt í verkefninu, sem er stýrt af Listaháskóla Íslands.

Markmið verkefnisins er að þróa námsumhverfi lista á háskólastigi í gegnum þverfaglegt samtal milli tónlistar og sviðlista. Áhersla verður lögð á að efla áræði og dug nemenda til að gerast leiðtogar á sínu sviði, nálgast nýja áheyrendur og þróa nýjar aðferðir í sköpun og flutningi, í gegnum einstaklingsmiðað nám með áherslu á þverfagleg samstarfsverkefni milli ólíkra listgreina.

Vinnuhópar verða starfræktir á sviði þverfaglegrar samvinnu listgreina, aðferðafræði við leiðbeiningu (e. mentoring) á sviði lista, ásamt fjarnámsaðferðum í listnámi, með það að markmiði að auka samvinnu nemenda milli landa. Verkefnið mun einnig fela í sér hraðnámskeið þar sem nemendur og starfsfólk allra samstarfsaðilanna hittast og vinna saman, ásamt starfsþróunarnámskeiðum fyrir kennara.

Verkefnið byggir á afrakstri samstarfs sem hefur átt sér stað í fjölda ára í gegnum þróun meistaranáms í tónlist NAIP (New Audiences and Innovative Practice), sem ber íslenska heitið Sköpun, miðlun og frumkvöðlastarf.