Vigdís Jakobsdóttir hefur verið ráðin listrænn stjórnandi Listahátíðar í Reykjavík frá 1. október 2016 til fjögurra ára.

Vigdís Jakobsdóttir hefur kennt við Listaháskólann síðan 2002, við listkennsludeild síðan hún var stofnuð árið 2009, og hefur m.a. kennt  námskeiðin Kennslufræði leiklistar, Heita pottinn (þar sem unnið er með skapandi kennsluaðferðir þvert á listgreinar) og leikstjórn. Vigdís verður í hlutastarfi við LHÍ í vetur.

Vigdís er með BA gráðu í leikstjórn og leiklistarfræðum frá University of Kent at Canterbury, diplóma í kennslufræði fyrir háskólakennara frá Háskóla Íslands og hefur aflað sér aukinnar menntunar á sviði leiðtogafræði og menningarstjórnunar. Hún á að baki fjölbreytta stjórnunarreynslu á sviði lista og menningar, en hún starfaði um árabil sem deildarstjóri fræðsludeildar hjá Þjóðleikhúsinu og sem listrænn stjórnandi Þjóðleiks, leiklistarhátíðar ungs fólks á landsbyggðinni. Vigdís átti frumkvæði að og var listrænn stjórnandi UNGA - alþjóðlegrar sviðslistahátíðar ASSITEJ á Íslandi. Undanfarin ár hefur hún verið fagstjóri við Listaháskóla Íslands og tekið virkan þátt í stefnumótun innan skólans. Hún hefur auk þess starfað mikið á alþjóðavettvangi, m.a. sem varaforseti ASSITEJ International.

Listaháskólinn óskar Vigdísi innilega til hamingju!