Alexander Graham Roberts hefur verið ráðinn lektor í sviðslistum með áherslu á sviðslistarannsóknir við sviðslistadeild Listaháskóla Íslands. Hann mun m.a. leiða nýja námsbraut við deildina, alþjóðlegt meistaranám í sviðslistum.

Alexander hefur starfað sem listrænn stjórnandi, dramatúrg og sviðshöfundur. Hann hefur komið að stofnun og listrænni stjórnun sviðslistahátíðanna A! og Reykjavík Dance Festival auk þess sem hann hefur komið að uppsetningu fjölda sviðsverka og skrifað mikið um sviðslistir og rannsóknir á því sviði. Frá árinu 2015 hefur Alexander verið fagstjóri fræða hjá sviðslistadeild Listaháskólans.

Alexander hefur lokið tvöfaldri meistaragráðu í alþjóðlegum sviðslistarannsóknum frá Warwick University og Universiteit van Amsterdam.

Alþjóðlegt meistaranám í samtíma sviðslistum við Listaháskóla Íslands skapar nemendum vettvang til að dýpka og auka þekkingu sína á sviði samtíma sviðslista sem og að styrkja persónulega sýn þeirra á listformið.

Meistaranámið er samfellt tólf mánaða nám sem beinist að því að nemandinn þrói aðferðafræði og nálgun sína við listformið. Lögð er áhersla á að í listsköpun og rannsóknum nemenda eigi sér stað markviss uppbygging þekkingar sem og vinna með þau viðfangsefni og aðferðir sem nemandinn leggur upp með í upphafi náms. Jafnframt er lögð áhersla á að nemendur nái góðu valdi á faglegum viðmiðum sviðslista og miðar námið að því að efla færni nemenda í aðferðum fagsins og þjálfa þá í að fjalla um eigin verk. Námið gerir miklar kröfur til sjálfstæðra vinnubragða. Áhersla er lögð á að skapa örvandi og kraftmikið andrúmsloft sem hverfist um helstu viðfangsefni samtímasviðslista og samfélagsins hverju sinni. Meginmarkmið námsins eru að nemendur geti starfað sem sjálfstæðir, virkir og ábyrgir listamenn.

Eitt sérkenni meistaranáms við Listaháskóla Íslands er návígi nemenda við önnur fagsvið lista við skólann. Boðið er upp á samstarf á sviðum myndlistar, tónlistar, hönnunar og sviðslista í sjálfstæðri vinnu nemenda, sem og í fræðinámskeiðum deildanna.

Nám á meistarastigi felur í sér þátttöku á starfsvettvangi lista. Sviðslistadeild er í samstarfi við allar helstu sviðslistastofnanir hér á landi, auk innlendra og erlendra samstarfsskóla og sækist eftir því að eiga í virku samtali við frumkvöðla, hugsuði og listamenn samtímans á alþjóðlegum vettvangi.
Námið byggir á víðtækri samþættingu þeirra listrænu þátta sem búa að baki frumsköpun í sviðslistum.