SÖNG- OG HLJÓÐFÆRAKENNARANÁM Á MEISTARASTIGI,

NÝ NÁMSBRAUT VIÐ LISTAHÁSKÓLA ÍSLANDS.

Tónlistardeild LHÍ, í samstarfi við listkennsludeild sama skóla, býður upp á nýja námsbraut næsta haust: Meistarnám í söng- og hljóðfærakennslu. Brautin er ætluð þeim sem lokið hafa bakkalárgráðu eða sambærilegu námi í tónlist. Námið miðar að því að þjálfa söngvara og hljóðfæraleikara til kennslu ásamt því að efla með þeim færni og fræðilegan grunn til að miðla þekkingu sinni á ólíkum vettvangi. Söng- og hljóðfærakennaranámið er fjölbreytt nám sem byggist á einkatímum í valinni sérgrein, námskeiðum í kennslu- og uppeldisgreinum, samhliða þjálfun og miðlun á vettvangi.

Námið er afar einstaklingsmiðað og nemandanum gefið rými til að móta það eftir eigin áhugasviði.

Áhersla er lögð á að nemendur öðlist skilning og þekkingu á starfi söng- og hljóðfærakennarans. Þeir geti skipulagt nám út frá námskrám, valið gögn, kennslu- og matsaðferðir við hæfi. Kennsla og miðlun eru einnig skoðuð í víðara samhengi og nemendur hvattir til að setja fram eigin sýn og hugmyndir um tónlistarnám og námsframboð í samfélaginu.

Skipulag námsins miðar að því að þjálfa afburða söng- og hljóðfærakennara til kennslu í sérgrein sinni, en jafnframt nýta þá möguleika sem gefast með samstarfi við nemendur listkennsludeildar þar sem listafólk úr ýmsum listgreinum vinnur saman. Áhersla er lögð á skapandi þætti tónlistarkennslunnar s.s. spuna, tónsmíðar og útsetningar með fjölbreyttum námskeiðum. Einnig er lögð áhersla á að efla færni nemenda með markvissri þjálfun í að setja sér persónuleg og fagleg markmið sem reyna á sjálfstæði og úthald ásamt tjáningar- og miðlunarhæfni. Þó hver nemandi einbeiti sér að sinni sérgrein á sér stað stöðugt samtal, sem opnar dyr fyrir samvinnu og nýjum möguleikum í tónlistarkennslu.

Löng hefð er fyrir skipulögðu tónlistarnámi á Íslandi a.m.k. miðað við aðrar listgreinar, tónlistarskólar á Íslandi eru hátt í hundrað talsins og nemendurnir skipta þúsundum. Þetta stóra skólakerfi kallar á sérhæfða söng og hljóðfærakennara og það er ein af grunnskyldum LHÍ að útskrifa kennara fyrir þetta fjölmenna og mikilvæga skólakerfi. Bæði til að tryggja gæði kennslunnar og jafnframt að viðhalda þróun og nýsköpun í kennsluháttum. Með stofnun hljóðfærakennarabrautar á bakkalárstigi árið 2013 var stigið ákveðið skref í rétta átt og á sama tíma viðurkennd sú sérstaða sem hljóðfærakennaranám hefur í okkar samfélagi. Meistaranám er því algerlega rökrétt framhald á þessari vegferð og í raun nauðsynlegt ef framfylgja á lögum um kennaramenntun frá 2008. Með stofnun meistarnáms í söng- og hljóðfærakennslu gefst LHÍ einnig tækifæri á að taka visst frumkvæði í mótun lagaramma um menntun tónlistarskólakennara og lögverndun starfsheitisins. Verkefni sem hefur verið lengi á teikniborði tónlistarkennara og ríkisins.