Ársfundur Listaháskóla Íslands fór fram í húsnæði skólans að Þverholti 11 fimmtudaginn 7. apríl s.l.

Til umfjöllunar var ársskýrslan 2015 auk þess sem deildarforsetar tóku þátt í pallborði um framtíðarsýn hverrar deildar fyrir sig.

Fríða Björk Ingvarsdóttir, rektor, sagði í ávarpi sínu að:

"Rekstur Listaháskólans hefur verið erfiður undanfarin ár og hafa stjórnendur þurft að beita ítrasta aðhaldi og niðurskurði til að halda sig innan þess fjárhagsramma sem fjárlög gera ráð fyrir. Í ársreikningi skólans kemur fram að þegar rekstrartekjur frá hruni eru teknar saman á verðlagi dagsins í dag blasir við að þær drógust saman um 20% og eru fyrst nú, árið 2016, að ná fyrri krónutölu. Er þá hvorki horft til fjölgunar nemenda né stofnunar meistaranámsbrauta og þess kostnaðar sem af þeim auknu umsvifum hlýst.

Það er því ljóst að tryggja verður skólanum umtalsvert meira fjármagn eigi rekstur hans að verða hallalaus og nauðsynleg þróun í námi og endurnýjun tækjabúnaðar og aðstöðu eigi að eiga sér stað.

Árið 2015 markaði tímamót á sviði rannsókna við Listaháskólann, því þá var í fyrsta sinn farið í gegnum rannsóknarafrakstur allra þeirra akademísku starfsmanna er hafa rannsóknarhlutfall og lagt á það mat samkvæmt þeim mælikvörðum er unnir hafa verið af rannsóknarnefnd skólans og samþykktir af fagráði, framkvæmdaráði og stjórn. Niðurstöðurnar munu verða til umfjöllunar í deildum og í framkvæmdaráði á vorönn 2016, enda mikilvægt innlegg í frekari þróun rannsóknarstefnu deilda og skólans sem heildar.

Samkvæmt fjárlögum er framlag ríkisins til rannsókna við Listaháskólann hlutfall af heildarframlagi venga nemendaígilda og nemur um 8%. Enginn annar íslenskur háskóli býr við svo lágt framlag, því aðrir skólar hafa samninga um allt frá 18% uppí ríflega 40%. Þar sem rannsóknir eru nú vaxandi þáttur í starfi Listaháskólans, auk þess sem unnið hefur verið að gagngerum breytingum á innra umhverfi rannsókna í skólanum til að auka gæði þeirra, er það eindregin krafa að framlag ríkisins til Listaháskólans verði sambærilegt við það sem aðrir skólar njóta. Fræðasvið lista er mjög víðfemt og mikið starf óunnið - hvort heldur sem litið er til grunnrannsókna á menningararfi þjóðarinnar eða sérstækari rannsókna þar sem sjónum er beint að eiginlegri frumsköpun á sviði lista."

 

Góð mæting var á fundinn, aðilar úr nýstofnuðu Baklandi Listaháskólans og fulltrúar úr Hollnema félagi Listaháskólans tóku þátt í umræðum að dagskrá lokinni.

Hér má finna árskýrsluna í heild sinni.