Philip Curtis heldur fyrirlestur um tónlist og heilabilun í Sölvhóli, Sölvhólsgötu 13,  mánudaginn 4. apríl kl. 12:15. 

Fyrirlesturinn er liður í tilraunaverkefni sem er unnið sameiginlega af 5 tónlistarháskólum í Evrópu og er liður í að þróa þekkingu og námsefni fyrir skapandi tónlistarmenn til að stýra tónlistarsmiðjum fyrir fólk með heilabilun, umönnunaraðila og aðstandendur. Þess konar smiðjur hafa verið starfræktar um nokkurra ára skeið, bæði í London á vegum stofnunarinnar Music For Life í samvinnu við Wigmore Hall og á vegum Prins Claus tónlistarháskólans í Groningen og konunglega tónlistarháskólans í Den Haag í Hollandi.

Smiðjurnar byggja á virkri þátttöku, þar sem bæði eru notuð hljóðfæri sem ekki þarf sérkunnáttu til að leika á - og rödd, en tónlistarfólkið nýtir þar að auki sín hljóðfæri. Þessi aðferð hvetur til tjáningar og samskipta milli allra þátttakenda, þó svo að færni til að tjá sig með orðum sé e.t.v. ekki lengur fyrir hendi. Ýmsar rannsóknir og tilraunir hafa leitt það í ljós að þessi aðferð getur veitt skjólstæðingum með heilabilun útrás fyrir tjáningarþörf sem oft hefur ekki fengið að njóta sín, og kallað fram tilfinningar sem hafa ekki vaknað vegna skertrar getu til venjubundinna tjáskipta.