Kennarar tónsmíðadeildar ný fyrirlestrarröð tónsmíðadeildar Listaháskólans, verður hleypt af stokkunum föstudaginn 11. Mars kl. 12:45 í Sölvhóli. Fastir tónsmíðakennarar deildarinnar munu einn af öðrum kynna tónsmíðar sínar, hugmyndir og aðferðafræði. Fyrstur í röðinni er Ríkharður H. Friðriksson.

Ríkharður H. Friðriksson (f. 1960) hóf ferilinn sem rokktónlistarmaður en lærði síðan tónsmíðar og raftónlist við Tónlistarskólann í Reykjavík, Manhattan School of Music í New York, Accademia Chigiana í Siena og Konunglega Tónlistarháskólann í Haag. Kennarar hans voru Atli Heimir Sveinsson, Þorkell Sigurbjörnsson, Elias Tanenbaum, Franco Donatoni og Clarence Barlow. Einnig skartar hann prófskírteinum í sagnfræði frá Háskóla Íslands og klassískum gítarleik frá Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar.

Eftir hann liggja bæði hljóðfæra- og raftónsmíðar sem hafa verið fluttar víða um heim. Ríkharður hefur fengið ýmsar viðurkenningar í gegnum árin, t.d. starfslaun listamanna fimm sinnum, styrk úr Tónskáldasjóði RÚV fimm sinnum, Menningarverðlaun DV árið 2001 og viðurkenningu frá raftónlistarkeppninni í Bourges í Frakklandi árið 2007.

Um tónlist Ríkharðs má segja að hún stefni í grundvallaratriðum í tvær áttir. Annars vegar gerir hann hreina víðóma raftónlist þar sem mest er lagt upp úr ummyndunum á náttúruhljóðum og hreyfingu þeirra í rými. Hins vegar er lifandi spunatónlist, þar sem hann leikur á rafgítar eða ýmis tölvuhljóðfæri og þróar hljóð þeirra áfram með tölvutækni. Þar kemur hann annað hvort fram einn eða með sveitinni Icelandic Sound Company.

Ríkharður kennir tónsmíðar, raftónlist og tónlistarsögu við Listaháskóla Íslands, Tónlistarskóla Kópavogs og Tónlistarskólann í Reykjavík, auk þess að skipuleggja raflistahátíðina Raflost. Þess á milli hefur sést til hans í miklum ham að spila pönk á hinum og þessum stöðum í bænum.

Á fyrirlestrinum mun Ríkharður fjalla um bakgrunn sinn, viðhorf sitt til tónlistar og segja frá nokkrum verka sinna og hvernig þau hafa verið unnin. Orð munu verða ríkulega studd tóndæmum til frekari útskýringar og áherslu.