Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir og Rebecca Cusworth opna fyrstu sýningarverkefni meistaranema í myndlist á vormisseri innan sýningaraðarinnar Kveikjuþræðir / SparkPlugs. Sýningarnar opna föstudaginn 4. mars kl. 16 í Kubbnum, sýningarsal myndlistardeildar og vinnurými meistaranema​ meistaranámsbrautar Listaháskóla Íslands, Laugarnesvegi 91.
Sýningarnar verða einnig opnar laugardaginn 5. mars og áfram í næstu viku, 6.- 11. mars, frá kl. 12:00-16:00.

Kveikjuþræðir 2016 hefjast með sýningu á verkum Ingunnar Fjólu Ingþórsdóttur og Rebeccu Cusworth föstudaginn 4. mars. Venju samkvæmt er sýningarrýmið Kubburinn en að þessu sinni teygja verkin sig út fyrir það rými. Annað verkanna verður þannig til sýnis í Kubbnum en hitt handan veggs sem skilur vinnurými meistaranema frá. Formgerð sýningarinnar mætti því líkja við stök mengi sem skarast í tíma og rúmi.

Innsetning Rebeccu Cusworth í Kubbnum tekur til íveru mannsins í ægifegurð náttúrunnar og vekur áhorfandann til umhugsunar um hið stóra samhengi sem maðurinn hefur gert að leikvelli sínum. Verkið er unnið með blönduðum miðlum og efnir til umræðu við áhorfandann á persónulegan hátt.

Þáttökuverk Ingunnar Fjólu er staðsett hinum megin veggjarins. Í stað þess að vinna út frá náttúrunni, eins og Rebecca, fjallar verkið um efnisheiminn. Verkin eiga það sameiginlegt að í þeim má upplifa leikni mannsins og getu til þess að hafa áhrif á umhverfi sitt. Verk Ingunnar Fjólu býður áhorfendum að skynja eðli og uppröðun hins hlutlæga heims í gegnum leik sem leiðir af sér nýtt og breytilegt samhengi.

Heiða Jónsdóttir

 

Rebecca Cusworth: 144 hours of sunrise

Rebecca er staðlaus flökkulistamaður sem vinnur náið með náttúrunni. Innsetning hennar í Kubbnum tekur á samtali flakkarans við hið heimilislega. Hún notar fundið efni og hluti frá tímabundnu heimili sínu hér á Íslandi til að setja upp tjaldbúðir sem opna fyrir minningar um ferðir hennar.

Ferðalangurinn Rebecca telur förina jafn mikilvæga og áfangastaðinn sjálfan. Ferðin verður að millibilsástandi, liður í þeirri heilögu athöfn sem felst í því að komast á áfangastað. Fyrir stuttu fór hún í pílagrímsfjallgöngu á Montserrat í Katalóníu. Þar bjó hún í helli um tíma í leit sinni að einveru. Meðan á dvölinni stóð uppgötvaði hún stað þar sem annað flökkufólk hafði skilið eftir ýmsa hluti í gegnum árin; málverk, ljóð og hugleiðingar. Hlutirnir sem þau skildu eftir bentu til svipaðs áhuga þeirra á fjallinu. Rebecca skildi sjálf eftir ljóð og sælgæti sem var horfið þegar hún sneri aftur nokkrum mánuðum síðar. Án þess að hitta neinn, varð hún á einhvern hátt partur af tímalausu einfarasamfélagi svæðisins með því að bæta við einhverju frá sér.

Ferðalangar yfirgefa sitt nærumhverfi, oft til að kynnast sjálfum sér. Á sama tíma opnast vettvangur til að hitta aðra sem deila hugsanlega sömu hugsjónum. Í leit sinni að friði og einveru, ætlar Rebecca að heimsækja tjaldbúðirnar á sýningartímanum. Búðirnar verða tímabundið heimili utan heimilis. Einhvers konar minning um heimili; eða minning um ferðalag í átt að hverju því sem við þörfnumst til þess að líða — vel.

Viktor Pétur Hannesson

 

Rebecca Cusworth graduated from Glasgow School of Art in 2010 with a BA (Hons) in Painting and Printmaking with distinction in Historical and Critical Studies and is currently completing her masters at Valand Academy. She is a recipient of the David Cargill Travel Bursary, the RSA John Kinross Scholarship, a RSA Residencies for Scotland Bursary in association with Creative Scotland and the Cromarty Arts Trust, an Arts Trust Scotland grant, a stipend for residency with Can Serrat Centro de Actividades Artisticas, and a Grants for the Arts award from Arts Council England. Her work is held in private and public collections including Cromarty Arts Trust Collection, Can Serrat Permanent Collection and the Royal Scottish Academy Permanent Collection.

 

Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir: Afstaða til kyrrstöðu

Í verkinu Afstaða til kyrrstöðu bregður Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir á leik og býður sýningargestum að skapa verkið með sér. Hugmyndin að uppsetningunni og undirbúningurinn er hennar eigin, en gestirnir sjá um að framkvæma gjörninginn; með þátttöku sinni setja þeir verkið upp í rýminu. Listaverkið verður tenging á milli listamannsins og áhorfenda.

Íhlutir verksins eru bómullarþræðir litaðir með akrýlmálningu sem bundnir eru við hvítar blöðrur blásnar upp með helíum. Við komuna fá gestir afhenta blöðru með þræði; þátttaka þeirra felst í að sleppa blöðrunum innan sýningarrýmisins og skapa þannig síbreytilega myndbyggingu verksins. Málverk er undirliggjandi stef í verkum Ingunnar Fjólu. Í þetta sinnið vísar hún í málverkið með því að bera málningu á bómullarþræðina eins og um striga væri að ræða.

Í sýningunni er Ingunni Fjólu umhugað um að sleppa takinu af myndbyggingunni og fagurfræðinni sem hún hefur hingað til stýrt af mikilli nákvæmni í verkum sínum. Hún fær sýningargestina til að annast framkvæmdina fyrir sig og skapa þannig innbyrðis hlutföll verksins. Fagurfræði verksins veltur á heildarmynd þess, byggðri upp með litunum sem Ingunn Fjóla valdi á þræðina og uppröðun þeirra sem áhorfendur sjá um.

Skynjun áhorfenda er Ingunni Fjólu mikilvæg. Hún hugsar verkið sem leikvöll þar sem spilaður er fagurfræðilegur leikur. Samspil litanna verður óræð gáta og einnig hvernig áhorfendur skynja samsetningu þeirra. Koma þeir til með að blandast saman og mynda nýja liti? Hversu margir þræðir koma til með að vera í rýminu fer eftir fjölda þátttakenda, en leiða má að því líkum að því fleiri sem lituðu þræðirnir verða, þeim mun ríkari verða sjónræn áhrif þeirra.

Jófríður Benediktsdóttir

 

Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir (f. 1976) hóf meistaranám í myndlist við LHÍ haustið 2015. Hún útskrifaðist með B.A. próf í myndlist úr sama skóla árið 2007, en hafði áður lokið B.A. prófi í listasögu frá háskólanum í Árósum. Undanfarin ár hefur Ingunn Fjóla bæði starfað við eigin myndlistarverkefni og verið virk sem annar helmingur tvíeykisins Hugsteypunnar. Á ferli sínum hefur Ingunn Fjóla hlotið ýmsa styrki og viðurkenningar og verk hennar verið sýnd á fjölmörgum sýningum innanlands sem utan.

 

Frekari upplýsingar um sýningarröð meistaranema má finna hér

 

Ljósmynd / Image: Rebecca Cusworth