Þuríður Jónsdóttir, tónskáld, nam þverflautuleik og tónsmíðar við Tónlistarskólann í Reykjavík og síðar við Konservatoríið í Bologna á Ítalíu þar sem hún lauk diplómagráðu í flautuleik, tónsmíðum og raftónlist. Einnig hefur hún sótt námskeið hjá Franco Donatoni hjá Accademia Chigiana í Siena á Ítalíu og hjá Alessandro Solbiati hjá Accademia di Novara á Ítalíu.

Eftir áralanga dvöl á Ítalíu starfar Þuríður núna í Reykjavík þar sem hún býr. Þuríður kannar nýjan hljóðheim í verkum sínum. Hún skrifar jafnt sinfónísk verk sem og kammerverk af ýmsum toga. Mörg þeirra eru studd rafhljóðum, eða margmiðlun, önnur gætu innihaldið leikræna tilburði, náttúruhljóð eða þátttöku áheyrenda. Meðal þekktustu verka Þuríðar sem sýna einstakan og fjölbreyttan hljóðheim hennar má nefna flautukonsertinn Flutter sem saminn var fyrir ítalska flautusnillinginn Mario Caroli og skordýrahljóð, Flow and Fusion fyrir stóra hljómsveit, Rauðuan hring fyrir kór, einsöngvara og rafhljóð, INNI – musica da camera fyrir barrokkfiðlu og hljóðvoðir kornabarns, Vetur fyrir rödd og rafhljóð og harmonikkukonsertinn Installation Around a Heart sem saminn var fyrir hinn þekkta norska harmonikuleikara Geir Draugsvoll og Caput. Þuríður hefur einnig unnið margmiðlunarverkin Cock’s egg, Seal Maiden, Lusus Naturae í samvinnu við myndlistarmennina Ólöfu Nordal og Gunnar Karlsson . Verk eftir Þuríði hafa verið pöntuð og flutt jafnt af íslenskum og erlendum hljóðfærahópunum Caput, Adapter, FontanaMix og Curious Chamber Players og af stofnunum eins og Radio France, og Deutsche Radio.

Verk eftir hana hafa verið flutt á hátíðum eins og útvarpshátíðinni Présences í París, Myrkum músíkdögum, Klang í Kaupmannahöfn, á Norrænum músíkdögum, ISCM og New Directions. Verk Þuríðar hafa verið tilnefnd til Íslensku Tónlistarverðlaunanna og til Tónskáldaverðlauna Norðurlandaráðs 2006, 2010 og 2012. Hljómsveitarverk Þuríðar Flow and Fusion var valið á alþjóðlegt tónskáldaþing útvarpsstöðva Rostrum í París, Frakklandi.