UNNAR ÖRN : Glötuð aðferðarfræði -

Hugmyndir, vinnuferli & skrásetning á eigin verkum

Föstudaginn 5. febrúar kl. 13 mun myndlistarmaðurinn Unnar Örn vera með opinn fyrirlestur um verk sín og vinnuaðferðir í fyrirlestrarsal myndlistardeildar að Laugarnesvegi 91.

Unnar Örn útskrifaðist frá fjöltæknideild Myndlista- & handíðarskóla Íslands vorið 1999 og lauk meistaranámi við Malmö Art Academy árið 2003.  Hann hefur unnið að myndlist sinni síðastliðin 15 ár bæði hér heima og erlendis. Unnar Örn hefur sinnt stundarkennslu við myndlistardeild um langt skeið og hefur nú á vormisseri umsjón með kennslu nemenda á fyrra ári meistaranámsbrautar.

Í fyrirlestrinum mun Unnar Örn fjalla um vinnuaðferðir sínar, samhengi þeirra og hvernig verk hans taka venjulega mið af þeim aðstæðum sem sýningarvettvangurinn kallar fram hverju sinni.

Í vinnu sinni leikur Unnar Örn sér gjarnan með gefnar staðreyndir Sögunnar og gefur þeim þannig annað samhengi eða endurtekið líf innan ramma myndlistarinnar. Þannig myndast svigrúm fyrir ólíka tegund frásagnar sem greinir og efast um þær opinberu og oft altæku frásagnir sem sagðar eru af stofnunum samfélagsins. Valdakerfi og aðferðarfæði eru listamanninum einnig hugleikin og sérstaklega innan þeirra aðstæðna og sýningarstaða sem verkin eru unnin hverju sinni. Myndlist Unnars er ekki bundinn við miðla en á síðustu árum hefur hann markvisst unnið bókverk, auk annars prentverks tengt verkum sínum.

Fyrirlesturinn fer fram á íslensku og eru allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir.

Nánari upplýsingar um Unnar Örn má finna á vefsíðunni: http://www.unnarorn.net/

 

Opnir fyrirlestrar í myndlistardeild

Á ári hverju heldur fjöldi lista- og fræðimanna erindi um verk sín og hugmyndir á fyrirlestrum í myndlistardeild. Fyrirlestrarnir eru opnir almenningi og er ætlað að kynna margþætt viðfangsefni úr heimi lista og samtímamenningar og hvetja til umræðu um þau. Fyrirlestrarnir eru mikilvægur þáttur í starfsemi deildarinnar og eru ætlaðir til að efla tengsl milli nemenda og starfandi lista- og fræðimanna. 

Fyrirlestrar í myndlistardeild fara fram í fyrirlestrarsalnum að Laugarnesvegi 91. Þeir eru opnir almenningi og er aðgangur ókeypis.

mynd með frétt: RAX