Orkustöngin Jungle Bar byrjaði sem rannsóknarverkefni við Listaháskóla Íslands. Búi Bjarmar Aðalsteinsson útskrifaðist sem vöruhönnuður frá skólanum árið 2014 en útskriftarverkefni hans „Fly Factory“, þar sem hann skoðaði sjálfbærni og skordýraát, vakti mikla athygli.

Sumarið eftir útskrift stofnaði Búi fyrirtækið Crowbar Protein ásamt félaga sínum Stefáni Thoroddsen. Markmið fyrirtækisins var að framleiða matvöru úr skordýrum og opna augu vesturlandabúa fyrir þeim sjálfbæra prótíngjafa. Eitt leiddi af öðru og nú er orkustöngin Jungle Bar úr skordýraprótíni fáanleg í Hagkaupum og á vefsíðu fyrirtækisins.

w4b0912.jpg

Stöngin er meðal annars gerð úr fræjum, trönuberjum, súkkulaði og krybbuhveiti en í hverri stöng eru um 75 krybbur. Krybburnar innihalda bæði prótín, vítamín og steinefni og eru þær einkar umhverfisvænn prótíngjafi því framleiðsla á þeim er mun sjálfbærari en kjúklinga- eða nautgriparækt þar sem miklu minna landsvæði, vatn og fóður þarf til.

Vefsíða Jungle Bar