Fríða Björk Ingvarsdóttir gerir upp menningarárið í menningarannál DV.

"Í menningarannál ársins sem birtist í áramótablaði DV 29. desember verður stiklað á stóru og rifjað upp það helsta sem átti sér stað í lista- og menningarheiminum á árinu sem er að líða. Leitað var til fimmtán álitsgjafa úr ýmsum kimum íslensks menningarlífs við gerð samantektarinnar. Daglega frá jólum og fram yfir þrettándannn munu vangaveltur álitsgjafanna birtast í heild sinni á menningarsíðu DV.is. Þar líta þeir yfir árið, rifja upp það markverðasta og eftirminnilegasta í íslensku listalífi árið 2015 og greina stöðuna í menningunni í árslok." DV.is

Í annál sínum segir Fríða Björk meðal annars:

"Átök hafa einkennt umræðuna, en það er í góðu lagi hvað listum viðkemur. Fólk á að takast á um listir, listirnar eru í eðli sínu þannig að þær ögra og vekja umræðu. Hins vegar finnst mér átakanlegt að sjá hversu litlum fjármundum er veitt til uppbyggingar menningarinnar; til reksturs safna, innkaupa á listaverkum; stuðnings við tónlistarflutning, hönnunarmiðstöð o.s.frv.; auk þess sem ég nefndi hér að ofan. Og iðulega án þess að tillit sé tekið til þeirrar afleiddu starfa og verðmæta sem hægt væri að skapa með aukinni framsýni og frumkvöðulsanda.

Vera má að markaðsvæðing listanna hafi verið óþarflega áberandi í umræðunni, ekki vegna þess að listir megi ekki seljast heldur vegna þess að það sem auðveldast er að selja er oft því markinu brennt að vera tilbrigði við þekkt stef frekar en framsækið eða frumlegt. Við höfum tilhneigingu til að vera sporgöngumenn í umræðu um menningu frekar en framverðir – jafnvel þótt menningarlífið hér í öllum sínum fjölbreytileika og krafti gefi tilefni til annars. Það sem er merkilegast á sviði menningar ratar ekki nægileg oft inn í umræðuna vegna skorts á faglegri yfirsýn og hugrekki til að takast á við og leita uppi það sem skiptir máli."

Annállinn í heild sinni