Á hverju ári fer fram keppni ungra einleikara sem Sinfóníuhljómsveit Íslands stendur fyrir í samvinnu við Listaháskóla Íslands. Keppnin er opin nemendum á háskólastigi, óháð því hvaða skóla þeir sækja, og fá þeir hlutskörpustu að leika einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands í Eldborgarsal Hörpu. Stjórnandi tónleikanna er rússneski hljómsveitarstjórinn Daniel Raiskin, aðalhljómsveitarstjóri Rínarfílharmóníusveitarinnar í Koblenz og Fílharmóníusveitar Arturs Rubinstein í Lódz í Póllandi.

"Samstarf Listaháskólans og Sinfóníuhljómsveitar Íslands í tengslum við unga einleikara hefur verið afar gjöfult og er þetta einn af hápunktum ársins hjá Listaháskólanum. Einleikarakeppni LHÍ og SÍ gefur nemendum einstakt tækifæri til þess að kynnast atvinnumennsku og fara í gegnum þá vinnu sem fylgir því að koma fram á tónleikum sem þessum. Stemningin á tónleikum ungra einleikara og Sinfóníu hljómsveitar Íslands er einstök og til marks um mikinn áhuga ungs fólks á tónlistarlífinu sem okkur í Listaháskólanum ber að rækta og styðja við í okkar starfi."

Fríða Björk Ingvarsdóttir, rektor.

Sinfóníuhljómsveitin og Listaháskóli Íslands leiða saman hesta sína og styðja við okkar efnilegasta tónlistarfólk á leið þess inn í heim atvinnumennskunnar. Einleikarakeppni SÍ og LHÍ for fram á haustmánuðum 2015 og í kjölfarið voru nöfn vinningshafa birt.

EFNISSKRÁ:
Gaetano Donizetti: Aríur
Franz Lehár: Aría
Gunnar Valkare: Viaggio, konsert fyrir harmonikku
Edward Elgar: Sellókonsert í e-moll
Carl Nielsen: Konsert fyrir flautu og hljómsveit

STJÓRNANDI: Daniel Raiskin
EINLEIKARAR:
Heiðdís Hanna Sigurðardóttir
Jónas Á. Ásgeirsson
Ragnar Jónsson
Sigríður Hjördís Indriðadóttir

Heiðdís Hanna Sigurðardóttir
Einsöngvari
Heiðdís Hanna Sigurðardóttir(f.1990) hóf söngnám hjá Guðrúnu Jóhönnu Jónsdóttur í Tónlistarskóla Garðabæjar fimmtán ára gömul og lauk þaðan framhaldsprófi vorið 2011. Hún hefur stundað nám á bakkalársstigi við Tónlistarháskólann í Freiburg í Þýskalandi síðastliðin þrjú ár hjá Prof. Angela Nick. Meðfram söngnáminu kenndi hún íslensku í Háskólanum í Freiburg. Síðastliðið haust ákvað hún að skipta yfir í Listaháskóla Íslands og mun hún klára bakkalárnámið þar. Kennarar hennar eru Þóra Einarsdóttir og Kristinn Sigmundsson.
Í sumar kom Heiðdís Hanna fram á tónleikum Pearls of Icelandic Song í Kaldalóni í Hörpu.
 
Sigríður Hjördís Indriðadóttir
Flautuleikari
Sigríður Hjördís Indriðadóttir er fædd árið 1992. Hún hóf nám í þverflautuleik við Tónlistarskóla Akraness tíu ára að aldri hjá Helgu Kvam. Seinna stundaði hún nám hjá Patrycju Szalkowicz, Hallfríði Ólafsdóttur, Emelíu Rós Sigfúsdóttur, Lieve Goossens og Aldo Baerten. Sigríður hefur áður leikið einleik þá með strengjasveit Tónlistarskólans í Reykjavík árið 2013. Hún lauk framhaldsprófi þaðan árið 2014. Sigríður hefur spilað með hljómsveit Tónlistarskólans í Reykjavík, Ungsveit sinfóníuhljómsveitar Íslands og sinfóníuhljómsveit unga fólksins.
 
Sigríður stundaði nám við Royal Conservatory of Antwerp árin 2014 – 2015 hjá Aldo Baerten en er nú í námi hjá Hallfríði Ólafsdóttur við Listaháskóla Íslands. Sigríður hefur sótt fjölda meistaranámskeiða meðal annars hjá Stefáni Ragnari Höskuldssyni, Emily Beynon, Aldo Baerten, Peter Verhoyen, Robert Pot, Samuel Coles.
 
 
Jónas Ásgeir Ásgeirsson
Harmonikkuleikari
Jónas Ásgeir Ásgeirsson er fæddur í Reykjavík 2. júlí 1993. Hann hóf tónlistarnám sitt í Tónskóla Eddu Borg níu ára gamall undir handleiðslu Guðmundar Samúelssonar, sem hefur unnið gríðarmikið frumkvöðlastarf í klassískri harmóníkukennslu á Íslandi. Jónas var meðlimur í Harmóníkukvintettinum í Reykjavík undir stjórn Guðmundar sem kom víða fram og gaf m.a. út geisladisk.
Jónas hefur þrisvar komist í úrslit Nótunnar, fyrst í flokknum frumsamin lög, síðan með kvintettinum sem hlaut ein af sigurverðlaununum og síðast í einleiksflokki. Hann lauk framhaldsprófi frá Tónskóla Eddu Borg 2013, fyrstur nemenda til að ljúka slíku prófi þaðan.
Jónas stundar nú bakkalárnám í Konunglega danska konservatóríinu hjá Geir Draugsvoll, einum virtasta harmóníkukennara heims en um þessar mundir eru þrír Íslendingar í námi hjá Geir. Jónas spilar á harmóníku af gerðinni Ballone Burini.
 
Ragnar Jónsson
Sellóleikari
Ragnar er fæddur árið 1994 og hóf sellónám fimm ára gamall við Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar og lauk framhaldsprófi þaðan vorið 2010.
Vorið 2013 útskrifaðist hann frá Listaháskóla Íslands. Aðalkennari hans var Gunnar Kvaran. Ragnar stundar núna nám við Tónlistarháskólann í Kaupmannahöfn hjá Toke Moldrup. Hann hefur sótt einkatíma og námsskeið hjá Erling Blöndal Bengtsson, Hans Jorgen Jensen, Danjulo Ishizaka, Francis Gouton, Jacob Shaw o.fl.
Árið 2014 vann Ragnar Raphael Sommer verðlaunin í keppni á vegum Raphael Sommer Music Foundation og nam s.l vetur í París hjá Genevieve Teulieres við Ecole Normale de Musique.
Ragnar hefur áður komið fram sem einleikari  og flutti þá Pezzo Capriccioso eftir Tchaikovsky með Sinfóníuhljómsveit Tónlistarskólanna.
Ragnar hefur komið fram á tónlistarhátíðum innanlands og utan og leikur reglulega nútímatónlist með Strengjasveitinni SKARK og Errata Collective.

KAUPA MIÐA