Gæðaviðurkenningar menntaáætlunar Evrópusambandsins voru veittar við hátíðlega athöfn í Ásmundarsafni þann 10. desember. Tíu verkefni, sem hafa verið styrkt af áætluninni, hljóta viðurkenningarnar í ár. Verkefnin eiga það sammerkt að hafa sýnt fram á nýsköpun og nýbreytni í menntun, stuðlað að þátttöku fjölbreyttra hagsmunahópa í alþjóðasamstarfi og haft áhrif á skólastarf einstakra stofnana sem og víðtækari áhrif í skólasamfélaginu. 

Listaháskólinn hlaut viðurkenningu fyrir Erasmus stúdenta- og starfsmannaskipti en í tilnefningunni segir: Framkvæmd stúdenta- og starfsmannaskipta við Listaháskóla Íslands hefur verið framúrskarandi góð undanfarin ár og þátttaka hlutfallslega mest miðað við aðra íslenska háskóla. Skiptinám stúdenta er mjög vel kynnt og telst sjálfsagður hluti af öllum námsleiðum og stór hluti þess metinn á móti skyldunámi. Gestakennsla og þjálfun starfsmanna er nýtt með markvissum hætti og til fyrirmyndar hvernig reynslu þeirra sem fara út á vegum Erasmus+ er miðlað að dvöl lokinni. Listaháskólinn hefur einnig verið í fararbroddi varðandi nýtingu möguleika eins og starfsnáms að lokinni útskrift.

Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, veitti viðurkenningarnar sem eru í formi myndverka sem hönnuð voru af 15 nemendum á öðru ári í teiknideild í Myndlistarskóla Reykjavíkur. Höfundur myndverksins er Listaháskólinn fékk að gjöf, Elín Elísabet Einarsdóttir, lýsir verkinu svo: „Hugmyndin er að blanda Evrópukorti við upplifanir þeirra sem  tóku þátt í verkefninu. Landið á kortinu er byggt upp með hlutum sem koma við sögu í hversdagslegu lífi þeirra og hafið er gert úr tilvísunum fyrrverandi Erasmus skiptinema um reynslu sína."

Þess má geta að Óskar Gunnarsson og Sveinbjörg G. Gunnarsdóttir, nemendur Listaháskólans, sáu um tónlistarflutning.

 

Nánar er fjallað um viðburðinn og verkefnin á heimasíðu Rannís: http://www.erasmusplus.is/um/frettir/10-verkefni-hljota-gaedavidurkenningar-erasmus