Mánudaginn 30. nóvember opnar einkasýning Daníels Perez Eðvarðssonar kl. 18 - 22 í Kubbnum, sýningarrými myndlistardeildar á annarri hæð, að Laugarnesvegi 91. Sýningin er í röð einkasýninga nemenda á 3. ári í myndlist.

Ljósmyndun sem gjörningur

„Hann rembdist við að stilla fókusinn á myndavélinni og úr varð ljóð.

Eða hvort heldur sem ég rembist við að taka ljósmyndir eða spígspora um og nýt þess að smella af er hvoru tveggja gjörningur. Þegar ég stóð í garðinum á Mánagötunni og sá að Radísa snéri sér í hringi uppi í tré eða þegar ég gekk meðfram ströndinni á Króatíu og stoppaði fyrir framan handklæði. Myndirnar verða til handahófskennt en ásetningurinn er alltaf einhver. Valið er jafnframt handahófskennt en meiningin ákveðin."

Í náminu við Listaháskólann hef ég unnið í ýmsa aðra miðla en ljósmyndun en á þessari sýningu verður athyglinni beint að ljósmynduninni. Ljósmyndun stendur mér nærri og er minn helsti drifkraftur í myndlist. Á sýningunni mun ég fjalla um sjálfan mig sem ljósmyndara. Verkin fjalla um ljósmyndun og varpa ljósi á atburði, aðstæður og hluti.

Daníel Perez Eðvarðsson

Á sýningunni mun koma út ljósmyndabók sem heitir I HAVE LIVED MY WHOLE LIFE IN HIGH INTENSITY en bókin var prentuð í takmörkuðu upplagi og verður til sölu á sýningunni.

Textabrot úr ljósmyndabókinni: To take the real habit or behaviour and strip it down to it’s essential, staging it as the absurd, as the fictional ‘truth’ we seek