Kynnt verður starfsemi rannsóknasetursins „Center for Performance Science“, sem hefur aðsetur í Royal College of Music í London, sem og meistara- og doktorsnám sem þar er boðið upp á.

Þá verður fjallað um alþjóðlega ráðstefnu í greininni sem haldin var í Japan fyrr í þessum mánuði, en hún verður næst haldin í Reykjavík árið 2017 í samvinnu við LHÍ.  Meginefni fyrirlestursins er svo kynning á rannsóknaverkefni sem liggur til grundvallar lokaritgerð Péturs (MSc) þar kannað var hvaða aðferðum tónlistarflytjendur beita við að leggja samtímatónlistarverk á minnið og hvernig þær nýtast við flutning á þeim verkum. 

 

Pétur Jónasson hóf  nám í gítarleik níu ára að aldri hjá Eyþóri Þorlákssyni og var síðar við framhaldsnám hjá Manuel López Ramos í Mexíkóborg.  Að loknu námi þar hlaut Pétur „Sonning“ - styrkinn danska til frekara náms á Spáni hjá José Luis González og í kjölfarið var honum veittur styrkur frá spænska ríkinu til þess að stunda nám hjá José Luis Rodrigo í Santiago de Compostela.  Árið 1986 var hann einn af tólf gítarleikurum víðs vegar að úr heiminum sem valdir voru til þess að leika fyrir Andrés Segovia á námskeiði sem haldið var í Los Angeles.  

 

Pétur hefur komið fram sem einleikari víða um heim, gert útvarps- og sjónvarpsupptökur og leikið inn á hljómplötur og geisladiska, m.a. verk sem samin hafa verið sérstaklega fyrir hann.  Hann var tilnefndur til Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs árið 1990, fyrstur íslenskra einleikara. Pétur hefur einnig lagt mikla áherslu á  kammertónlist og er m.a. gítarleikari Caput-hópsins sem sérhæfir sig í flutningi á samtímatónlist. Pétur hefur verið kennari við Listaháskóla Íslands frá 2004.

 

Hádegisfyrirlesturinn verður haldinn föstudaginn 25. september kl. 12:45 í Sölvhóli.