Rannsókn á stafrænum sviðslistum

Í sumar hefur hópur innan Listaháskólans unnið að rannsókn á stafrænum sviðslistum. Þau hafa kortlagt stafrænar sviðslistir á Íslandi á s.l. árum og skoðað orsakasamhengi hlutanna með erlendum straumum sviðslista. Rannsóknarspurning hópsins er hvernig áhrif stafrænir miðlar hafa á sviðslistirnar og það hvernig við segjum sögur. Spurt er hvort hið stafræna sé hið nýja lífræna.

Rannsakendur eru þau Gréta Kristín Ómarsdóttir, Ragnheiður Harpa Leifsdóttir og Sigurjón Bjarni Sigurjónsson. Leiðbeinandi er Steinunn Knútsdóttir. 

„Við áttuðum okkur fljótt á því að stöndum mjög nálægt viðfangsefninu. Við sem rannsökum þessar spurningar fæddumst inn í ný-stafrænan heim og ölumst upp samhliða internetinu; það tók á sig núverandi mynd á meðan rannsakendur lærðu að skynja heiminn.

Í nálægðinni áttum við okkur á því að fyrir okkur eru stafrænir miðlar lífrænir og sjálfsagðir hlutar tilverunnar, samskipta, tjáningar og listsköpunar.

Við leggjum engu af síður af stað út í stafrænt úthaf á litum bát og skoðum þessar spurningar. Rannsókn þessi er upphaf. Við leggjum út net til að kortleggja sýningar, sem við nefnum stafrænar sviðslistir, bæði erlendis og hérlendis sem varpa einhverju ljósi á þróun og stöðu miðilsins í heiminum í dag. Á Íslandi eru allar sýningar í atvinnuleikhúsi síðustu 5 ára skoðaðar og flokkaðar eftir notkun eða umfjöllun um hið stafræna.

Rannsóknin leitar þá út fyrir landsteinanna - í leit að einhverskonar samhengi - til leikhópa sem hafa haft áhrif á íslenskt leikhúslíf; þá ýmist þeirra sem komið hafa fram hér á landi eða verið áberandi í umræðunni. Við byrjum á sviðslistahópum sem eru íslensku sviðslistasenunni kunnuglegir. Það er þá mikilvægt að taka fram að listi yfir sýningar erlendu hópanna er óralangt frá því að vera tæmandi, yfirlitið er aðeins upphaf; atlaga að yfirsýn yfir þróun stafrænna miðla í sviðslistum.”