This article is only available in icelandic
/
 
Verkið Radical Matter: Revolutionary Materials and Design for a Sustainable Future kom út 17. apríl síðastliðinn á vegum Thames & Hudson bókaútgáfunnar í Bretlandi. Um er að ræða afar metnaðarfulla umfjöllun um róttæka og nýstárlega hönnun og er verkefnið Willow Project sem unnið var af nemendum í vörhönnun undir leiðsögn vöruhönnuðanna Tinnu Gunnarsdóttur, Friðriks Steins Friðrikssonar, Garðars Eyjólfssonar og kvikmyndagerðarmannsins Óskars Kristins Vignissonar, meðal þeirra verkefni sem fjallað er um í bókinni.
 
Stórar hugmyndir um framtíð hönnunar
Verkið Radical Matter fjallar um tíu svokallaðar „Stórar hugmyndir“ („Big Ideas“) sem ritstjórar bókarinnar, Kate Franklin og Caroline Till telja að muni móta og upplýsa val á efnum, hönnunaraðferðum og framleiðsluferlum hönnuða um ókomin ár. Meðal þeirra „stóru hugmynda“ sem fjallað er um í bókinni eru viðgerðarmenning, endurnýting á rusli sem hráefni framtíðar, lærdómur hönnuða af sögunni, samsköpun, efnistengingar og hráefni með stuttan líftíma.
 
Ritstjórarnir leituðu til hönnuða sem hafa lagt sitt af mörkum til þess að víkka út svið hönnunar með frumlegum verkefnum sem ganga lengra en hefðbundnar og viðteknar hugmyndir um „sjálfbæra hönnun“. Í verkinu er leitast við að sýna fram á það hvernig hönnunarkerfi, framleiðsla og neysla sem byggja á heildstæðri sýn á heiminn geta bætt umhverfi, samfélög og efnahag heimsins.
 
 
9780500519622_300.jpeg
Mynd: Thames & Hudson
 
Willow Project
Willow Project er rannsókn á einni nýjustu viðbótinni í íslenskri hráefnaflóru, víðitrénu. Frá upphafi skógræktar fyrir um 70 árum hefur framboð af efniviðnum aukist jafnt og þétt. Í rannsóknarferlinu voru þrjú megin framleiðsluferli framkvæmd, suða, bruni og eimun víðisins. Náttúrulegar hringrásir efnis veittu verkefninu innblástur, viðurinn var aðeins meðhöndlaður með vatni og hita og allar hliðarafurðir voru skilgreindar sem dýrmætar auðlindir. Með afbyggingu víðitrésins niður í örskala og endursamsetningu hinna fundnu grunnþátta efnisins var hægt að framleiða ný og sjálfstæð efni sem öll eru þannig úr garði gerð að þau ganga fyrirhafnarlaust aftur inn í náttúrulega hringrás skógarins sem næring. 
 
Nemendur í vöruhönnun sem tóku þátt í verkefninu voru þau Birta Rós Brynjólfsdóttir, Björn Steinar Jóhannesson, Emilía Sigurðardóttir, Johanna Seelemann, Kristín Sigurðardóttir, Theodóra Mjöll Skúladóttir Jack og Védís Pálsdóttir.