Fjórtán nemendur í alþjóðlegu meistaranámi í hönnun og myndlist við Listaháskóla Íslands sýna verk sín í Gerðarsafni; átta í hönnun og sex í myndlist. Sýningarstjóri er Sirra Sigrún Sigurðardóttir

Yfir 60 nemendur sýna afrakstur þriggja ára krefjandi náms á BA stigi við myndlistardeild og hönnunar- og arkitektúrdeild í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsi. Sýningarstjórar eru Guðfinna Mjöll Magnúsdóttir og Huginn Þór Arason. Á sýningunni í Hafnarhúsi var farin sú leið að tengja ólíkar listgreinar saman og skapa samtal milli faggreina. Verk vöruhönnuðar sem vinnur með mannshár í verkum sínum mæta þannig myndlistarverki sem fjallar um umbreytingu manns og fugls og kallast um leið á við verk eftir nemanda í grafískri hönnun sem fæst við að miðla líðan og hugsunum manns sem glímir við geðklofa og þunglyndi. Þannig skapast samtal milli ólíkra miðla og fagþekkingar og má segja að þetta samtal sé það leiðarstef sem sýningastjórar hafa unnið út frá.

Síðustu daga hafa erlendir prófdómarar farið yfir verk nemenda og átt innihaldsríkt samtal við bæði kennara og nemendur um áherslur og útfærslur í verkum hvers og eins. Meðal prófdómara í ár eru Nick Robertsson grafískur hönnuður og kennari við Central Saint Martins í London og Deborah Berke, arkitekt og prófessor við Yale háskóla.

Aðgangur er ókeypis á báðar sýningar og opið er 11.00-17.00 í Gerðarsafni og 10.00-17.00 í Hafnarhúsi.