Útskriftarsýning BA nema í hönnun, arkitektúr og myndlist við Listaháskólann vekur alltaf verðskuldaða athygli og fær gríðarlega aðsókn en um 14.000 manns leggja árlega leið sína í safnið á þeim tveimur vikum sem sýningin er opin. 

Sýningarstjórar eru Guðfinna Mjöll Magnúsdóttir og Huginn Þór Arason. Sýningastjóraspjall verður sunnudaginn 3. maí kl. 15:00.

Sýningin er afar fjölbreytt


Á sýningunni í ár munu nemendur í myndlistardeild meðal annars sýna skúlptúra í anda forn-Grikkja, rafvædd málverk, handgerðan lystigarð, negatífu af pýramída og eigin túlkun á verkum sýningarinnar. 

Gestum er boðið að skoða umbreytingarferli og rannsóknir vöruhönnunarnema þar sem sveppir hreinsa menguð landsvæði, tennur manna verða að dýrgripum, leitað er leiða til uppbyggingar á Gaza og íslenskt epli hefur verið fundið upp. 

Fjölbreyttir og óvæntir tískuheimar nemenda í fatahönnun fá bæði að njóta sín á tískusýningu á fimmtudaginn 23. apríl í Hörpu og í sýningarsal Listasafnsins. Nemendur í grafískri hönnun sýna meðal annars myndskreytingar byggðar á  minningum manns með geðklofa, endurhönnuð tarotspil og nótnarskrift fyrir spunatónlist byggða á handskrift. 

Nemendur í arkitektúr takast á við hugtakið „orkustöð“ þar sem þau skapa stað við þjóðveginn, hleðslustöð fyrir mannfólk, bifreiðar og önnur farartæki, sjoppu í sínu víðasta og opnasta samhengi þar sem tillit er tekið til fortíðar, framtíðar og náttúru. 

Sýningin stendur til 10. maí og er opin daglega frá 10:00–17:00 og á fimmtudögum frá 10:00–20:00. Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir. 
Hægt er að panta leiðsögn fyrir hópa í síma 590 1200.

Viðburðadagskrá

Fimmtudaginn 23. apríl í Hörpu 

Kl. 17 Tískusýning útskriftarnema í fatahönnun

Laugardaginn 25. apríl 

Kl. 14 Opnun í Hafnarhúsi

Kl. 14:30-16:30 Myndlist: gjörningur

Heiðrún G. Viktorsdóttir

Rótarstöðin

Kl. 15 -15: 30 Myndlist: gjörningur 

Anton Logi Ólafsson 

Kona fór í búð, það var löng röð alla leið út að tröppum inngangsins er hún kom í kjörbúðina en konan lét það ekki stöðva sig og valsaði þarna beint inn, með tilheyrandi látum og leiðindum bíðandi sjoppugesta. Klerkurinn tók þó vel í þetta, kunni að meta kjarkinn í kvensunni

Sunnudaginn 26. apríl

Kl. 13:00 – 14:30 Grafísk hönnun: tónleikar

Þórður Grímsson 

a & e sounds – lp

Kl. 15:00 – 16:00 Grafísk hönnun: Hreyfigrafík

Óskar Hallgrímsson

Framtíðarrit

8 mínútna hreyfigrafík sýnd endurtekið.