Í dómnefnd sátu Tomas Nanne Sandberg, Ronny Andersson og Ola Rören. Edviks kunsthall er sýningarstaður í Sollentuna, í nágrenni Stokkhólms sem leggur áherslu á sænska og alþjóðlega samtímamyndlist. 

Unnur Guðrún Óttarsdóttir (1962) útskrifaðist með BA gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands 2010 og stundar hún nú meistaranám við skólann. Hún hefur einnig lokið doktorspróf í listmeðferð frá University of Hertfordshire í Englandi. Unnur hefur tekið þátt í fjölda samsýninga og sýnt víða á einkasýningum. 

Verkið Fossaganga samanstendur af olíumálverkum af fossum með grófri áferð og íslensku hrauni. Hluti af verkinu er gjörningur í formi gangandi myndlistarsýningar þar sem verkin eru tímabundið færð út fyrir sýningarrýmið þegar gengið er með þau um náttúruna. Fossagangan hefur þá hugmynd að leiðarljósi að myndlistin nálgist og mæti almenningi í listasölum og á götum úti. 

Gömlu meistararnir máluðu úti í náttúrunni. Bilið á milli manns og náttúru hefur breikkað. Málverkin hafa verið sýnd úti í náttúrunni og hefur Fossagangan þá hugmynd að leiðarljósi að maður, myndlist og náttúra mætist. 

Vatnið, mannsandinn og tjáning manna á meðal fossar áfram, stíflast eða höktir. Virkjun fossa á Íslandi hefur verið mótmælt síðastliðin ár. Í stað mótmælagöngu er sýningin Fossaganga meðmælaganga og óður til fossa og náttúrunnar almennt þar sem gengið var í fossafylkingu um náttúruna.