Leigumorðinginn eftir Aki Kaurismäki í leikgerð og leikstjórn Egils Heiðars Antons Pálssonar verður frumsýnt hjá Leikfélagi Akureyrar föstudaginn 19. október n.k.  

Eftir fimmtán ár í starfi er Henri Boulanger sagt upp. Í geðshræringu sinni gerir hann tilraun til þess að taka eigið líf. Tilraunin misheppnast og í kjölfarið ákveður Henri að ráða sér leigumorðingja til þess að ljúka verkinu. Hann heldur á skuggalegan bar, til fundar við menn sem heita honum því að þeir muni sjá til þess að hann verði myrtur í nánustu framtíð. Skömmu síðar hittir Henri hins vegar blómasölustúlkuna Margréti og verður gjörsamlega hugfangin af henni. Lífið virðist, þegar öllu er á botninn hvolft, hafa einhvern tilgang. Henri kýs því að láta hjartað ráða för og hyggst rifta samningnum um eigið sjálfsmorð. Hann kemst þá að raun um að barinn hefur verið jafnaður við jörðu og honum reynist því ómögulegt að hafa uppi á hinum ókunna leigumorðingja.

Þetta sérstæða og gráglettna verk um ástina og dauðann er byggt á kvikmyndinni I Hired a Contract Killer eftir einn af merkustu kvikmyndagerðarmönnum Evrópu, Aki Kaurismäki. Hann er einnig höfundur kvikmynda á borð við Stúlkan í eldspýtnaverksmiðjunni, Ariel, Leningrad Cowboys í Ameríku, Maður án fortíðar og Le Havre.

Leikstjórinn, Egill Heiðar Anton Pálsson, hefur sviðsett yfir 30 verkefni á ferli sínum og starfað aðallega á Norðurlöndunum og í Þýskalandi. Meðal verkefna hans eru: Arabíska nóttin (Stockholms Stadtsteater), Electronic City (Viirus Teatteri Helsinki), Invasion (Nationaltheater Mannheim), Galskab (Det Kongelige Teater København), Hunger (Gøteborgs Stadsteater), Bogtyven (Det Kongelige Teater København), Estemand Cassavetes (Nationaltheater Mannheim), Kellermensch, (Schaubühne Berlin), Cassavetes 1.2.3. (Mammut Teater København) og Die Tiefe (Schaubühne Berlin).

Aðrir listrænir aðstandendur sýningarinnar eru: Egill Ingibergsson (leikmynd, lýsing og hreyfimyndir), Hekla Björt Helgadóttir (myndefni) Helga Mjöll Oddsdóttir (búningar) og Georg Kári Hilmarsson (tónlistarstjóri), Jórunn Sigurðardóttir (þýðandi)

Leikarar eru þau Aðalbjörg Árnadóttir, Anna Gunndís Guðmundsdóttir, Einar Aðalsteinsson og Hannes Óli Ágústsson.

Einnig taka þátt í sýningunni félagar í Harmonikkufélagi Eyjafjarðar: Davíð Jónsson, Eva Margrét Árnadóttir, Guðmundur Sigurpálsson, Linda Björk Guðmundsdóttir og Valberg Kristjánsson.